14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

1. mál, fjárlög 1977

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir orð frsm. minni hl. fjvn. og færa samnm. mínum, þá ekki hvað síst formanni fjvn., kærar þakkir fyrir samstarfið og taka jafnframt undir þær góðu óskir sem talsmaður okkar minnihlutamanna hafði í frammi við hinn nýja starfsmann fjvn. sem ráðinn hefur verið. En þó ég sé ánægður með þetta, þá er ekki þar með sagt að ég sé ánægður með annað hjá meiri hl. fjvn.

Eins og fram kemur í nál. minni hl. fjvn. er í raun réttri lítið hægt um fjárlagafrv. að segja í heild sinni þótt nú sé komið að 2. umr. um það, þar eð sú mynd, sem enn má sjá af fjárlagagerðinni, er hvorki heil né hálf. Engar till. liggja enn fyrir um afgreiðslu veigamikilla málaflokka, svo sem eins og málefni ríkisspítalanna, um héraðsskóla, um rafmagns- og orkumál, um málefni Pósts og síma, svo nokkuð sé nefnt. Þá hefur enn enginn heldur séð tangur eða tetur af lánsfjáráætlun ríkisstj. þótt því hafi verið heitið í aths. frv. að hún yrði lögð fram um miðjan nóvembermánuð s.l.

Um annan aðalþátt fjárlaganna, tekjuhlið þeirra, er enn allt í óvissu. Lagt hefur verið fram frv. um breyt. á tollalögum sem felur í sér talsverða breytingu á tolltekjum ríkissjóðs. Í aths. með því frv. er þess getið að með þeim breyt., sem þar er gert ráð fyrir, sé áætlað að tekjutap ríkissjóðs þegar á næsta ári frá tekjuáætlun fjárlagafrv. muni nema 450 millj. kr. Í sömu aths. með sama frv. er þess sérstaklega getið að sjá þurfi ríkissjóði fyrir auknum tekjum til að mæta þessu tekjutapi, en ekkert um það sagt hvernig það skuli gert. Samkvæmt þessu er því nú þegar fyrirsjáanlegur verulegur greiðsluhalli hjá ríkissjóði, eins og frv. lítur nú út, þegar tekið hefur verið tillit til þess að tollskrárfrv. nýja verði samþ., og ekkert hefur vitnast um hvernig þessum greiðsluhalla eigi að mæta. A að mæta þessu tekjutapi með því að hækka söluskatt enn frekar, með því að hækka tekjuskatt enn frekar fram yfir það sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, með því að hækka vörugjaldi enn frekar en gert hefur verið? Um þetta er ekkert sagt, hvorki við okkur fjvn: menn, í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., í ræðu hv. formanns fjvn. hér áðan né heldur í aths. með frv. að nýrri tollskrá. Um þetta er ekkert vitað.

Annar af helstu tekjustofnum ríkissjóðs eru beinu skattarnir og þá ekki hvað síst tekjuskattur einstaklinga og félaga. Í fjárlagaræðu sinni boðaði hæstv. fjmrh. að samfara afgreiðslu fjárlaga nú yrðu afgreidd ný tekjuskattslög, og í framhaldi af þessari yfirlýsingu var sett n. þm. með aðild stjórnarandstöðunnar til þess að fjalla um till. þar um. Þegar þetta er mælt, aðeins nokkrum dögum áður en fjárlög eiga að koma til endanlegrar afgreiðslu á Alþ., hefur enn ekkert bólað á þessu frv. Engar efndir hafa enn orðið á loforðunum frá í haust, frekar en efndir hafi orðið á loforðunum um framlagningu lánsfjáráætlunar og ákvæðum laga um framlagningu starfsmannaskrár ríkisins. Og það sem meira er, enn hafa engir afgreiðslufundir verið haldnir í skattalaganefnd þeirri sem stjórnarandstaðan á fulltrúa í og átti einmitt að fjalla um hugmyndir ríkisstj. um breyt. á tekjuskattslögunum. Tvívegis hefur hæstv. ríkisstj. sent fulltrúum stjórnarandstöðunnar í þessari n. lauslegar hugmyndir, ekki sjálfrar sín, heldur ákveðins embættismanns, um hvernig þessari endurskoðun ætti að haga, en fulltrúum stjórnarandstöðunnar í þessari n. hefur ekkert tækifæri verið gefið til þess að láta í ljós skoðanir sínar á þessum hugmyndum né heldur til þess að hlýða á skoðanir stjórnarliða.

Eftir því sem næst verður komist hafa stjórnarflokkarnir enn ekki gert upp hug sinn til þessarar endurskoðunar tekjuskattslaganna, enga heildarstefnu getað mótað. Einu fregnirnar, sem farið hafa af þessum málum hér í sölum Alþ., eru þær, að háværar deilur séu uppi í þingflokkum stjórnarliða, bæði milli þingflokka og einstakra stjórnarsinna, um þær hugmyndir sem fram hafa verið lagðar, og menn þar skipst á um að hafna megindráttum ýmissa framkominna hugmynda, m.a. sumum þeim hugmyndum sem sjálfur hæstv. fjmrh. hefur sett fram sem sínar í ræðum hér á Alþ. og boðað að mundu verða inntak þessarar skattalagabreytingar. Þetta mun vera ástæða þess að nú fyrir nokkrum dögum fékkst hæstv. forsrh. alls ekki til þess að gefa nein afdráttarlaus fyrirheit um að stjórnarfrv. um breyt. á tekjuskattslögunum yrði sýnt á Alþ. fyrir jól. Ríkisstj. hefur sem sé ekki getað mótað sér stefnu í þessu máli frekar en öðrum og stendur nú við 2. umr. fjárlaga frammi fyrir Alþ. stefnu- og skoðanalaus, ber að því að hafa ekki getað efnt þau fyrirheit um afgreiðslu mála sem hún gaf Alþ. á fyrstu starfsdögum þingsins í haust og hefur þráfaldlega endurtekið síðan.

Þannig hefur sjálf undirstaða fjárlagagerðarinnar, öflun teknanna, enn ekki verið fundin, og þegar jafnframt er litið til þess að veigamiklum málaflokkum hefur enn að engu verið sinnt, vegáætlunin er óframkomin og lánsfjáráætlun hefur ekki séð dagsins ljós, þá er ljóst að sú afgreiðsla, sem hér á að fara fram, er út í hött. Slík afgreiðsla hlýtur að vera ómerk eins og þau fjárl. verða ómark sem þannig á að afgreiða, og er það raunar í fullu samræmi við afgreiðslumáta hæstv. ríkisstj. á fjárlögum áranna 1975 og 1976, en eins og menn muna liðu í báðum þeim tilvikum ekki nema fáir mánuðir þar til sjálf ríkisstj. neyddist til þess að lýsa því yfir að nýsamþykkt fjárlög væru í raun réttri ekki þess pappírs virði sem þau voru skráð á.

En jafnvel þótt af þessum ástæðum sé harla tilgangslítið að ræða einstök atriði fjárlagafrv. eða frv. í heild fremur en gert er í nál. minni hl. fjvn., þá kemur þó fram í hvaða átt viðleitni ríkisstj. beinist við fjárlagagerð nú. Það dylst engum en það er afturhaldsstjórn sem situr við stjórnvöl þjóðarskútunnar, og það kemur fram í viðleitni ríkisstj. til fjárlagagerðar með sama hætti og í öðrum stjórnsýslutilburðum þessarar hæstv. ríkisstj. Í fjárlagafrv. koma þessi afturhaldssjónarmið fram einkum með þrennum hætti: Í fyrsta lagi á þann veg, að mjög er dregið úr fjárveitingum til félagslegrar samhjálpar og til málaflokka svo sem eins og tryggingamála, heilbrigðismála og menntamála, sem eru í raun réttri tæki til tekju- og aðstöðujöfnunar. Í öðru lagi með þeim hætti, að skattbyrði er þyngd án þess að nokkur merki sjáist um að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að bæta úr því alvarlega misrétti sem ríkir í þessum málum og felst m.a. í því, að tekjuskatturinn er orðinn svo til einvörðungu launamannaskattur, með þeim afleiðingum að hækkun hans kemur fyrst og fremst niður á venjulegu launafólk. Í þriðja lagi birtist svo ásýnd íhaldsstjórnar í fjárlagagerðinni á þann veg, hvernig sú ríkisstj. í öllum aðgerðum sínum vinnur beinlínis gegn verkalýðshreyfingu í kjarabaráttu og ónýtir allan árangur frjálsrar samningsgerðar verkalýðshreyfingarinnar.

Þrátt fyrir miklar fórnir og harða kjarabaráttu undanfarinna ára leiðir þessi stjórnarstefna til þess að launafólkið glatar ekki aðeins öllum ávinningi af frjálsri samningagerð, heldur mjög verulegum hluta til viðbótar. Þetta kemur m.a. glögglega fram ef lítið er á nýjustu áætlanir um þróun verðlags og kaupgjalds á árinu 1976 sem Þjóðhagsstofnunin lét frá sér fara 7. des. s.l. Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar um afkomu yfirstandandi árs kemur fram að ytri aðstæður okkar íslendinga hafa orðið okkur miklum mun hagstæðari en nokkur þorði að vona í upphafi ársins og langt fram eftir ári. Heildarframleiðsla sjávarafurða er þannig talin aukast um 4–5% frá fyrra ári. Verðmætisaukning útfluttra sjávarafurða mun verða miklum mun meiri en magnaukningin. Þannig var útflutningsverð sjávarafurða í nóvembermánuði s.l. um 52% hærra að meðaltali en á árinu 1975, og að meðaltali yfir árið nemur verðhækkun útfluttra sjávarafurða um 35%. Sömu eða svipaða sögu er að segja af öðrum útflutningi. Á árinu 1976 er ráð fyrir því gert að útflutningurinn aukist um tæplega 7% frá árinu áður, og er þá átt við heildarútflutning, og meðalverðhækkun útflutningsframleiðslunnar verði um 33%. Þannig hefur árið 1976 reynst okkur hagkvæmara hvað þessar ytri aðstæður varðar en ráð var fyrir gert. Skyldu menn því ætla að svigrúm hefði gefist til þess að bæta launþegum upp stöðugt rýrnandi tekjur, og það svigrúm var vissulega fyrir hendi ef ekki hefðu komið til hvort tveggja: aðgerðir og aðgerðarleysi hæstv. ríkisstj. — aðgerðarleysi þar sem aðgerða var þörf, t.d. á sviði stjórnunar, og aðgerða, svo sem eins og beinna kauplækkunaraðgerða á öðrum sviðum í stað þess að reyna að styðja að traustum kaupmætti launa. Í upphafi ársins 1976 var svo komið að kaupmáttur kauptaxta hafði að meðaltali rýrnað um 3% frá árinu áður, og mætti ætla af framansögðu að samfara ört hækkandi útflutningstekjum á yfirstandandi ári hefði a.m.k. átt að vera unnt að bæta launafólki þessa kauprýrnun upp á árinu, og það hefði sjálfsagt verið gert ef vinveittari ríkisstjórn hefði setið að völdum. En því fer fjarri að svo hafi orðið. Þvert á móti áætlar Þjóðhagsstofnunin að á árinu 1976 hafi kaupmáttur kauptaxta haldið áfram að rýrna og verði að meðaltali á þessu ári um það bil 4% minni en hann var í fyrra. Þannig hefur verið haldið á málum af þeim sem með völdin fara, að þrátt fyrir ákvæði frjálsra kjarasamninga um nokkrar kauphækkanir verkafólki til handa og þrátt fyrir mun meiri bæði magn og verðmætisaukningu útflutningsframleiðslu en bjartsýnustu menn þorðu að vona, þá er það staðreynd að á yfirstandandi ári hefur kaupmáttur kauptaxta verkafólks enn haldið áfram að rýrna, og þótt menn hafi reynt að bæta sér það upp á árinu með því að vinna meiri eftir-, nætur- og helgidagavinnu en árið áður og lagt með því á sig meira erfiði en þekkist í nokkru nálægu landi, þá hefur sú vinnuþrælkun ekki heldur nægt til þess að vinna gegn kaupskerðingarráðstöfunum ríkisstj., því nýjustu spár segja að þrátt fyrir þessar auknu atvinnutekjur vegna aukinnar eftir-, nætur- og helgidagavinnu verði kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um 1% minni í ár en hann var að meðaltali í fyrra.

Að sjálfsögðu munu ríkisstjórnarflokkarnir hafa uppi margs konar afsakanir fyrir þessari þróun, m.a. þá viðbáru, sem stöðugt hefur klingt í eyrum okkar íslendinga á undanförnum árum þegar þessi mál hafa verið á dagskrá, að við þessa þróun verði ekki ráðið þar eð verðbólgan, meginkjaraskerðingarvaldurinn, sé af erlendum rótum runnin og eigi sé unnt fyrir íslensk stjórnvöld að hafa nema mjög takmarkaða stjórn þar á. En þessi viðbára er röng, og hún er meira röng nú en oftast áður. Hækkun framfærsluvísitölu á árinu 1976 nemur að vísu 32 33% samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar, en í athugasemdum stofnunarinnar segir einnig orðrétt, með leyfi forseta: „Í ár á verðhækkun innflutnings hins vegar fremur lítinn þátt í heildarverðhækkuninni.“ Hækkun framfærsluvísitölunnar, verðbólguskriðan, er að áliti Þjóðhagsstofnunarinnar sjálfrar sem sé mestmegnis af innlendum rótum runnin. Verðbólgan er að meginhluta til heimasmíðuð, kaupmáttarrýrnunin afleiðing af innlendum ákvörðunum, en ekki innflutt vandamál. Og þetta veit hver og einn launþegi. Einhvers staðar stendur að heimskt er heimaalið barn og það er nú svo að flest fólk á Íslandi hefur einhvern tíma getað veitt sér það að fara til annarra landa — og hvað sér fólk þar? Það kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að þótt það fari í heimsókn til landa þar sem greitt tímakaup er allt að tvöfalt hærra en hér á Íslandi, þá eru brýnstu lífsnauðsynjar þar, svo sem matvara, tvöfalt til þrefalt ódýrari heldur en hér. Þetta veit hver einasti maður, hver einasta húsmóðir í þessu landi, og þetta álit er staðfest af Þjóðhagsstofnuninni vegna þess að verðbólgan — með hennar orðum — er fyrst og fremst af innlendum rótum runnin. Það er hin mikla verðhækkun á allra brýnustu lífsnauðsynjum, eins og t.d. matvörn, sem hefur verið að sprengja utan af sér öll bönd.

Ekki veit ég hvort nokkur íslendingur gerir sér enn vonir um að hæstv. ríkisstjórn muni eiga eftir að taka sig á og bæta launþegum eitthvað upp þær kjaraskerðingar sem hér hafa verið raktar. En hafi einhver slíkur fyrirfundist, þá hlýtur sá hinn sami að verða fyrir miklum vonbrigðum ef hann athugar hær forsendur í kauplagsmálum sem núv. fjárlagagerð hæstv. ríkisstj. er reist á. Þrátt fyrir háværar kröfur Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og annarra launþegasamtaka nm kjarabætur, þar sem glögglega kemur fram að þolinmæði launafólks er þrotin og vinnandi fólk vill ekki lengur sætta sig við þann hlut sem hæstv. ríkisstj. hefur búið því, þá gerist ríkisstj. nú svo djörf í athugasemdum og forsendum fjárlagafrv. að boða það að engar kauphækkanir verði leyfðar á næsta ári umfram það sem þegar hefur verið samið um af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna. Á þessari forsendu er núverandi fjárlagagerð reist. Það er beinlínis gengið út frá því að almennar kaupbreytingar á næsta ári, þar með taldar greiðslur vísitölubóta, verði ekki meiri en ákveðið er í gildandi samningum opinberra starfsmanna. Þessi yfirlýsing ríkisstj. sem fjárlagagerðin er byggð á, er, eins og nú er málum komið, ekki framrétt hönd, heldur krepptur hnefi, því að þetta er hótun til allra þeirra launþega sem standa í kjarabaráttu á komandi ári — hótun: Hingað og ekki lengra. Við munum leyfa ykkur að fá kauphækkun til að samsvara því sem opinberir starfsmenn hafa þegar samið um, meira fáið þið ekki. Á þessari yfirlýsingu er fjárlagagerð hæstv. ríkisstj. reist.

Hvað þýðir þetta sýnishorn af örlæti og hjartagæsku íhaldsstjórnarinnar? Það merkir að í besta falli gætu launþegar átt von á rösklega 3% kaupmáttaraukningu heildartekna á næsta ári og þá því aðeins að tekjur þeirra af aukavinnu verði a.m.k. ekki lægri hlutfallslega en í ár, þ.e.a.s. með því móti að menn vinni eins og orkan framast leyfir. Og þá hefur ekki heldur verið tekið tillit til ráðgerðrar aukningar á skattbyrði sem boðuð er í fjárlagafrv. og ég mun koma að síðar. Það á sem sé ekki einu sinni að skila aftur því sem kaupmátturinn rýrnaði um á yfirstandandi ári og það þótt því sé spáð að þjóðartekjur muni aukast um 3% á árinn 1977, útflutningsverðmæti sjávarafurða verði að meðaltali 11% hærra á næsta ári heldur en það hefur verið í ár, álframleiðsla aukist um 10–11% og heimsmarkaðsverð á áli hækki um 12%, mikil gróska, eins og orðrétt er sagt, verði í útflutningi annarrar iðnaðarvöru og gjaldeyrisverðmæti útflutningsframleiðslunnar hækki í heild nm a.m.k. 13%.

Að fengnum þessum forsendum gerir núv. hæstv. ríkisstj. fjárl. sem reist eru á þeirri forsendu að launþegar eigi á næsta ári aðeins að fá í sinn hlut mjög óverulegar kjarabætur sem ekki einn sinni nægja til að bæta þeim upp kjaraskerðingu yfirstandandi árs. Þessi hótun, því að þetta er hótun um að allar frekari kauphækkanir verði teknar með valdboði af launastéttum þessa lands, er ekki aðeins móðgun við verkafólk og verkalýðshreyfingu, heldur einnig til vitnis um heimskulega blindu hinna ráðandi afla í þessu landi sem nú standa augliti til auglitis við verkalýðshreyfingu, sem er að búa sig til sóknarstyrjaldar, og gera sér ekki grein fyrir því að með slíkri framkomu er ríkisstj. sjálf að safna glóðum elds að höfði sér. En e.t.v. er til þess ætlast af hæstv. ríkisstj. að þetta eigi ekki að taka alvarlegar en annað í fjárlögum hennar, þetta sé líka ómark eins og fjárlögin eru ómark. En hugurinn á bak við leynir sér ekki. Það dylst engum hver viðleitnin er.

Eitt af því, sem forustuflokkur núv. ríkisstj., Sjálfstfl., hefur í ályktunum á landsfundum og flokksráðstefnum hvað oftast gagnrýnt, hefur verið það sem hann nefnir útþenslu ríkisbáknsins. Flokkurinn hefur í þessum orðum og ályktunum boðað sparnað í rekstri, samdrátt í opinberum framkvæmdum og nauðsyn á því að skattar verði lækkaðir til þess að fólk fái frekar að vera sjálfs sín ráðandi, eins og það er látið heita. Eitt eru orð og annað gerðir, og það er að sjálfsögðu af gerðunum sem dæma á ríkisstjórnir og þingmeirihluta. Staðreyndin er nefnilega sú, að aðeins á einu þessara sviða hefur nokkuð þokað í átt Sjálfstæðisstefnunnar, en það er í sambandi við samdrátt á opinberum framkvæmdum í fjárlögum. Við 1. umr. fjárlaga nefndi ég nokkrar tölur þar um sem ég ætla ekki að endurtaka nú, en þær sýndu fram á það, sem raunar er í augu stingandi, að í tíð núv. ríkisstj. hefur sá hluti fjárveitinga á fjárlögum, sem varið er til framkvæmda sem skilja eiga eitthvað eftir sig, stöðugt farið minnkandi hlutfallslega þar sem aftur á móti rekstrarútgjöld ríkissjóðs og ríkisstofnana hafa farið hraðvaxandi. Þó ber þess að sjálfsögðu að geta, að fjárlög eru ekki lengur einhlítur mælikvarði á framkvæmdafjárveitingar þar sem í sívaxandi mæli hefur verið farið út á þá braut að vinna að slíkum sérstökum framkvæmdum utan fjárlaga og þá fyrst og fremst fyrir erlent lánsfé, og er sá málaflokkur raunar sérstakur kafli út af fyrir sig þar sem landsmenn hafa t.d. verið látnir hlaða upp gengistryggðum skuldum hjá erlendum lánastofnunum, m.a. til þess að kosta framkvæmdarævintýri eins og við Kröflu þar sem verið er að virkja upp á von og óvon eða öllu heldur misjafnlega mikla óvon, með þeim afleiðingum að þó að allt fari á besta hugsanlegan veg, þá benda allar líkur til þess að hvorki sé unnt að afla markaðar fyrir raforkuna né heldur að bjóða hana á samkeppnisfæru verði í stað innfluttra orkugjafa nema með miklum álögum á landsmenn. Á sama tíma og þannig er staðið að framkvæmdum til sérstakra verkefna utan fjárlaga eru hin hefðbundnu framkvæmdaverkefni, sem á fjárlögum eru, svo gróflega vanrækt að sú vanræksla stendur atvinnulífi og atvinnumöguleikum landsmanna hreinlega fyrir þrifum. Má þar t.d. nefna ástand fiskihafna víðs vegar um land og hvernig núv. hæstv. ríkisstj. hefur með öllu vanrækt uppbyggingu þeirra.

Ástandið í hafnarmálum margra útgerðarstaða, sem standa raunar undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, er nú svo komið að þau fiskiskip, sem þar eiga að leggja upp afla og eru eign heimamanna, geta vart eða ekki athafnað sig. Á hverju ári verða mjög veruleg tjón á fiskiskipum í höfnum vegna ófullnægjandi aðstöðu. Jafnvel verkefni, sem mundu borga sig upp á skömmum tíma, eru látin sitja á hakanum. Meðan verið er að gera tilraunir út og suður að lítt eða ekki athuguðu máli fyrir þúsundir milljóna í erlendu lánsfé er hinum hefðbundnu atvinnuvegum ekki sinnt þó að fyrir liggi að þær framkvæmdir, sem þar yrði ráðist í, mundu endurgreiða sig á fáum árum. Eitt slíkt erindi liggur nú fyrir hæstv. ríkisstj., beiðni eins af stærstu útgerðarstöðum þessa lands um tiltölulega litla fjárhagsaðstoð sem mundi skila sér aftur inn í þjóðarbúið á einu til tveimur árum. Þetta erindi hefur enn enga afgreiðslu fengið og mun því miður líklega enga afgreiðslu fá.

En á sama tíma og þetta er gert er hæstv. ríkisstj. að leika sér með fé landsmanna norður við Kröflu og gerir sér svo lítið fyrir og sækir einhvern Nasreddin út fyrir landssteinana til þess að prédika yfir landsmönnum hvernig eigi að selja íslenska raforku til útlanda með viðkomu í gervihnöttum eða jafnvel á sjálfu tunglinu. Bræðurnir frá Bakka reyndu að bera ljós í hús sín í fötu. Nú þykja fötur heldur ómerkileg ilát á vorum dögum. Nú vill hæstv. ríkisstj, ausa ljósi með gervahnöttum og bjóða útlendingum. Og þetta heita vist á hennar máli framfarir. Á sama tíma og íslenskir ráðamenn íklæðast þessu Bakkabræðragervi er heilum landshlutum settur stóllinn fyrir dyrnar með uppbyggingu atvinnulífs. Sveitarfélög stynja undan skuldabyrðum vegna hafnarframkvæmda og geta af þeim sökum ekki veitt íbúum sínum neina þá þjónustu sem á þéttbýlissvæðunum er talin sjálfsögð og eðlileg.

Því var heitið, a.m.k. voru menn látnir standa í þeirri trú, að þegar sérstökum framkvæmdum vegna landshafna væri lokið — og þeim átti að vera lokið á árinn 1977 — yrði álíka mikið fé og til þeirra hefur verið varið veitt til framkvæmda í öðrum höfnum sem um langt árabil hafa beðið álengdar. Í samræmi við þetta voru fjárlagatillögur Hafnamálastofnunarinnar gerðar svo og beiðnir sveitarfélaga. En ekkert af þessum fyrirheitum hefur gengið eftir. Framkvæmdir við landshafnir eiga að vísu að lækka úr 460 millj. kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs og niður í röskar 100 millj., en aðrar hafnir hafa ekki fengið að njóta þessarar tilfærslu, eins og þó var látið í veðri vaka. Þvert á móti voru till. Hafnamálastofnunarinnar, sem miðuðust við slíkar tilfærslur, skornar niður, og eins og fram var tekið af frsm. minni hl. fjvn. áðan vantar nú 112% upp á það að framkvæmdafé til hafnamála 1977 samsvari framkvæmdafé til hafnamála 1976. Gagnvart þessari stöðu er fyllilega orðið tímabært að taka í notkun heimild hafnalaga um 90% greiðsluþátttöku ríkissjóðs, a.m.k. varðandi þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til þess að afstýra tjóni eða til þess að nýta þau atvinnutæki sem til eru á viðkomandi stöðum, og þá að mínu viti að verða eitthvert mikilvægasta baráttumál þm. þeirra staða sem byggja allt sitt á sjávarfangi.

Ég minntist áðan með nokkrum orðum á þá staðreynd, að þrátt fyrir mörg orð forustuflokks núv. ríkisstj. um að nauðsynlegt væri að draga úr skattaálögum hafa aðgerðir þeirrar ríkisstj., sem þessi flokkur veitir forustu, beinst í þveröfuga átt. Sá mælikvarði, sem Þjóðhagsstofnunin telur hentugastan til að meta umsvif hins opinbera í þjóðarbúskapnum, eru skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Sé þetta hlutfall reiknað út kemur í ljós að þveröfugt við boðaða stefnu forustuflokks ríkisstj., hins ötula málsvara einkaframtaksins og að eigin sögn hins áhugasama andstæðings útþenslu ríkiskerfisins, þá hafa skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu aldrei verið meiri en í valdatíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Á árunum 1950–1954 voru heildarskatttekjurnar 23.4% af vergri þjóðarframleiðslu þeirra ára. Á árum vinstri stjórnarinnar 1971–1974 nam hlutfall heildarskatttekna af vergri þjóðarframleiðslu að meðaltali 31.8%. Á árinu 1975, fyrsta heila valdaári núv. ríkisstj., hafði hlutfall þetta hækkað úr 31.8% upp í 34.8%. Í ár er áætlað að hlutfallið hækki enn og komist upp í 36.1%. Og á næsta ári er enn áætlað að þetta skattahlutfall verði a.m.k. 36.1%. Þannig hafa skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, sá mælikvarði sem Þjóðhagsstofnunin telur hinn réttasta til þess að meta umsvif hins opinbera í þjóðarbúskapnum, aldrei verið meiri en nú og hafa þessi umsvif aukist um 4.3% í valdatíð svokallaðrar frjálshyggjustjórnar, ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Ætli þetta komi ekki ýmsum málsvörum einkaframtaksins og stuðningsmönnum þessarar hæstv. ríkisstj. nokkuð á óvart? A.m.k. hygg ég, að þetta komi hv. þm. Albert Guðmundssyni nokkuð á óvart, en hann er í raun réttri víst ekki lengur nema með hálfan fótinn inni í stjórnarherbúðunum og varla það.

Vissulega mætti segja, að við alþfl.- menn og aðrir vinstri menn þyrftum ekki að kvarta yfir þessu þar sem það væri ekki okkar stefna að draga úr umsvifum hins opinbera. Það má vera rétt út af fyrir sig að sú er ekki okkar stefna, heldur stefna Sjálfstfl., a.m.k. ef marka má orð hans, en ekki gerðir. En það er hvorki stefna okkar né annarra að hið opinbera hafi umsvif umsvifanna vegna, heldur hitt, að þau umsvif séu með ákveðnum hætti og þau auknu umsvif, sem af hækkun skattbyrðar hefur leitt, eru fyrst og fremst fólgin í gífurlega auknum rekstrarútgjöldum hins opinbera, eins og gerst kemur fram í fjárlögum núv. hæstv. ríkisstj. frá upphafi, ásamt með vanhugsuðum fjárfrekum framkvæmdum. En jafnframt á sér stað samdráttur í fjárframlögum til félagslegra málefna og samfélagslegra þarfa.

Það eru vissulega engin ný tíðindi fyrir launafólk að skattaálögur hafi farið vaxandi í tíð núv. ríkisstj. Söluskattur hefur verið hækkaður. Nýr tekjustofn, vörugjald, hefur verið fundinn upp, og hefur það ekki aðeins leitt til aukinna skatttekna fyrir ríkissjóð, heldur einnig til aukinna tekna heildsala og smásala þar sem hæstv. ríkisstj. hefur heimilað verslunarálagningu á vörugjaldið. En það eru ekki aðeins óbeinu skattarnir sem farið hafa hlutfallslega hækkandi í tíð núv. hæstv. ríkisstj., heldur einnig beinu skattarnir. Þetta kemur t.d. ljóslega fram í ritinu Úr þjóðarbúskapnum sem Þjóðhagsstofnun gaf út 7. des. s.l., en þar segir að beinir skattar hafi á s.l. ári hækkað meira en nam hækkun brúttótekna, þrátt fyrir það að launþegar hafi almennt aukið mjög við sig yfirvinnu á s.l. ári og þar með boríð úr býtum hlutfallslega meiri launatekjur en á árinu þar á undan þótt kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi minnkað, eins og áður sagði. Og í fjárlagafrv., eins og það er nú úr garði gert, er stefnt að enn aukinni skattbyrði fram yfir þetta, — aukinni skattbyrði bæði beinna og óbeinna skatta. Þannig er til þess ætlast að 18% vörugjaldið standi út allt næsta ár þar sem það var hins vegar aðeins innheimt svo hátt hluta yfirstandandi árs. Sú fjárhæð, sem tollar eiga að lækka um samkv. tollskrárfrv. nýja, á ekki heldur að koma skattborgurum til góða, heldur er ráð fyrir því gert í aths. frv., eins og ég sagði áðan, að þess fjár verði aflað með öðrum hætti, annarri skattheimtu, þótt ekki sé sagt hverri. Og verði ekki breyting til hækkunar gerð á skattvísítölu frá því, sem hún er áætluð í fjárlagafrv., mun skattbyrði beinna skatta einnig hækka. Í frv. er lagt til að skattvísitalan árið 1977 verði hækkuð um 26.5% miðað við skattvísítölu yfirstandandi árs, og merkir það að gert er ráð fyrir hækkun heildartekna skattgreiðenda um 26.5% á yfirstandandi ári, ef gengið væri út frá því að óbreyttri skattbyrði verði haldið. En nú munu atvinnutekjur samkv. nýjustu skrám Þjóðhagsstofnunarinnar á yfirstandandi ári ekki hækka um 26.5%, heldur um 32–33%, vegna mikillar aukningar á eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu.

Þegar tekið er tillit til þessa og höfð hliðsjón af hækkun skattvísitölunnar, eins og lagt er til að hún verði í frv. frá hendi hæstv. ríkisstj., merkir það að á næsta ári á að taka hærri hlut hlutfallslega af atvinnutekjum manna til ríkisins með tekjuskattsheimtu en gert var á síðasta ári. Er áætlað að sá hluti atvinnutekna, sem þannig er ráðgert að taka í tekjusköttum umfram það sem gera ætti ef skattvísitalan væri látin fylgja hækkun atvinnutekna muni nema um 200 millj. kr. Það á sem sé samkv. fjárlagafrv., eins og það er orðað, að auka skattbyrði launafólksins, sem greiðir tekjuskatta, um hvorki meira né minna en 200 millj. kr. á næsta ári hlutfallslega. Nú er vitað að tekjuskatturinn er fyrst og fremst launamannaskattur. Mörg stærstu fyrirtæki landsmanna borga engan tekjuskatt og hartnær helmingur þeirra eða um 45% þeirra einstaklinga, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, borga engan tekjuskatt heldur. Því er hér um að ræða, ef þessar fyrirætlanir ná fram að ganga, eina byrðina enn ofan á allar hinar sem á að leggja á bök almenns launafólks í landinu.

Í ljósi alls þessa er beinlínis um að ræða vitavert hneyksli þegar ríkisstj. heykist á því að efna það loforð sitt að afgr. jafnhliða fjárlögum ný tekjuskattslög í þeim anda að jafna skattbyrðunum réttlátlegar niður en nú er gert. Við alþfl: menn höfum nú á þremur þingum lagt fram till. okkar um ítarlegar kerfisbreytingar í skattamálum í því skyni að gera skattheimtuna réttláta og einfalda. Á sama tíma hefur hæstv. ríkisstj. ekkert haft til málanna að leggja og hefur ekki enn. Hún viðurkennir að skattakerfið og þá sérstaklega tekjuskattskerfið sé óréttlátt og þarfnist umbóta, en hún getur ekki komið sér saman um hvað gera skal. Það eina, sem hún hefur náð samstöðu um, er að innleiða nýja skattstofna og hækka þá eldri, eins og varðandi vörugjaldið og hækkun söluskattsins. En á sama tíma og þetta hefur gerst, skattbyrði beinna og óbeinna skatta verið að þyngjast, hefur ríkissjóður jafnframt varið minna og minna fé til þess að jafna tekjur og aðstöðu þjóðfélagsþegnanna, t.d. með tekjutilfærslu á sviði tryggingamála og með niðurgreiðslum á vöruverði innanlands. Á sama tíma og heildarskatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu hafa hækkað frá meðaltali áranna 1960-1964 úr 27.4 í 36.1% á yfirstandandi ári hafa bætur lífeyristrygginga og niðurgreiðslur vegnar á sömu vog lækkað úr 7.1% í 5.8%, og er spáð að þær muni enn fara lækkandi á árinu 1977, enda er aðbúnaður lífeyrisþega orðinn okkur til hreinnar vanvirðu og lífeyrir sá, sem þeim er ætlaður, nægir ekki lengur til sómasamlegs fæðis og klæða, hvað þá til annarra þeirra þarfa sem taldar eru frumþarfir í nútímaþjóðfélagi.

Sömu sögu er að segja af öðrum skyldum málaflokkum, svo sem heilbrigðismálum, en þar er, eins og lýst var hér áðan, vandi sjúkratryggingakerfisins enn óleystur og verður ekki betur séð en ríkisstj. hugsi sér að leysa hann a.m.k. að hluta til á kostnað hinna sjúku með því að auka enn hlutdeild þeirra í lyfjakostnaði og kostnaði við sérfræðiþjónustu. Sama mynd blasir einnig við ef litið er til menntamála, en skóla- og fræðslumál eru mikilvæg tæki til tekju- og aðstöðujöfnunar. Fyrir nokkrum árum, þegar Alþfl. lét af stjórn menntamála, hafði stjórn hans á þeim málaflokki borið þann árangur að útgjöld til menntamála í hlutfalli af þjóðarframleiðslu höfðu aukist svo, að Ísland var í slíkum samanburði við önnur vestræn lönd komið úr hinum neðstu sætum í hin allra efstu. En síðan Alþfl. lét af stjórn þessa málaflokks höfum við í þessum samanburði stöðugt verið á niðurleið og verðum enn.

Þannig má halda áfram að telja upp einn félagslegan þáttinn á fætur öðrum þar sem ekki hefur aðeins verið um að ræða stöðnun, heldur hreina og beina afturför, og heldur því enn áfram í þeim fjárlögum, sem nú á að afgreiða. Ekki skortir þó að hæstv. ríkisstj. hafi haft talsvert fé handa á milli til að ráðstafa eins og henni hefur sýnst best. Auk þeirra hlutfallslega stórauknu skatttekna, sem áður voru raktar, hafa síðustu tvær ríkisstj. verið allsendis ófeimnar við að sækja sér innlend og erlend lán, og þá ekki aðeins lán til framkvæmda, þarfra og óþarfra, heldur til hreinnar eyðslu, hrein neyslulán. Þannig hefur ríkissjóður hlaðið upp skuldum á reikningi sínum í Seðlabankanum með þeim afleiðingum að áhöld eru orðin um hver í raun réttri stjórni ríkisfjármálunum, ríkisstj. og þingmeirihl. hennar eða bankastjórn Seðlabanka Íslands. Þá hefur verið leitað til þjóðarinnar sjálfrar með hverju útboðinu á fætur öðru á verðtryggðum ríkisskuldabréfum og happdrættislánabréfum þar sem hið opinbera hefur sótt sér fé gegn allt að 55–60% raunvöxtum á ári, og má nú svo heita að ríkissjóður Íslands sé orðinn stórskuldugur við hvert einasta mannsbarn á landinu eða svo til. Þá hefur óspart verið gengið í allar erlendar lánastofnanir sem fengist hafa til að lána landi voru fé. Svo ákaft hefur verið í þessar lánastofnanir sótt að á undangengnum tveim árum hafa erlendar lántökur verið tvöfalt meiri en á árum vinstri stjórnarinnar, og var þó talið á sínum tíma að hún hefði sett það met í óráðsíu sem seint yrði slegið. En það hefur sem sé verið slegið nú og ekki einu sinni, heldur tvíslegið. Er nú svo komið að jafnvel þótt verðlag á útflutningsafurðum okkar hafi hækkað mjög mikið og mjög óvænt á því ári sem nú er að liða, mun greiðslubyrði af erlendum skuldum nema 17% af útflutningstekjum okkar í ár og hefur aldrei verið meiri. Er talið að jafnvel þótt verulega dragi úr erlendum lántökum á næstunni muni greiðslubyrðin í hlutfalli af útflutningstekjum enn halda áfram að vaxa og stefni í það að fimmta eða jafnvel fjórða hver króna, sem við íslendingar fáum í tekjur af útflutningi okkar, muni fara beint til greiðslu vaxta og afborgana af erlendum skuldum, og það jafnvel þótt útflutningstekjur okkar haldi áfram að vaxa hér eftir í líku hlutfalli og hingað til. Má þá nærri geta hver staðan verður ef svo skyldi takast til. sem við að sjálfsögðu vonum allir að ekki gerist, en höfum þó sára og bitra reynslu af að getur gerst fyrirvaralaust, að verðlag á útflutningsafurðum okkar falli á erlendum mörkuðum eða sjávarafli, undirstaða efnahagslífs okkar, dragist verulega saman.

Boginn hefur í þessum lántökum innanlands og utan verið spenntur meira en nokkur skynsemi er í, og afleiðingin getur orðið sú, að við hreinlega glötum efnahagslegu sjálfsforræði, eins og orðið hefur hlutskipti ýmissa annarra smáþjóða sem ekki hafa kunnað fótum sínum forráð. Þar sem svo mikið er í veði og í ljósi þeirra viðvarana, sem komið hafa frá okkar helstu sérfræðingum á sviði fiskveiða um ásigkomulag þeirrar auðlindar sem er grundvöllur alls efnahagslífs þjóðarinnar, er sú áhætta, sem tekin er með slíkri stjórnarstefnu, svo glórulaust ábyrgðarleysi að engin orð ná þar yfir. Innkomið erlent lánsfé mun þannig á þessu ári nema um 20000 millj. kr. og afborganir af slíkum lánum munu hækka úr 6.7 milljörðum kr. á árinu 1975 í 8.4 milljarða kr. nú, og þó lausafjáráætlun sú, sem lofað var að leggja fram um miðjan s.l. mánuð, sé enn ekki komin fram er þó vitað að áfram á að halda á þessari sömu braut og bæta ofan á skuldabaggann upphæð sem að öllum líkindum verður ekki minni á næsta ári en 10–11 þús. millj. kr. í erlendum gjaldeyri.

Á þessum forsendum, sem ég hef hér lýst, er fjárlagagerð hæstv. ríkisstj. reist. Hér byggja menn ekki á sandi, heldur á kviksandi, og við þessar aðstæður er fjárlagafrv. tekið til 2. umr., ekki einu sinni hálfkarað, með alla tekjuhlið óvissa, með stóra og þýðingarmikla málaflokka óafgreidda, með allar hliðarráðstafanir og öll fylgifrv. og fylgimál óséð, með alla enda lausa. Við slíkar aðstæður er gersamlega marklaust og út í hött að ræða einstakar afgreiðslur fjvn. eða fara út í tölulegan samanburð á einstökum efnisþáttum sem hvorki eru hráir né soðnir, enda hef ég ekki gert það hér, heldur einskorðað mig við að ræða þá stefnu og þá viðleitni, sem þrátt fyrir allt má marka á vettlingatökum ráðlausrar og dáðlausrar ríkisstj., svo og það kviksyndi sem ríkisstj. reisir á stefnu sína og störf, gerð fjárlaga sem annað. Vissulega er það meira en eðlilegt að stjórnarandstaða spyrji sig hvort hún eigi á annað borð nokkurn þátt að taka í afgreiðslu slíkra mála eða slíkri afgreiðslu mála. Við höfum litla trú á því að á þeim skamma tíma, sem fram undan er, muni ríkisstj. efna þau loforð sem hún hefur þegar gefið um hvaða hátt hún muni hafa á afgreiðslu fjárlaga, hvað þá að hún sé í stakkinn búin til að gera annað og meira sem gera þarf. En þrátt fyrir það höfum við alþfl.- menn tekið þá ákvörðun að taka ,þátt í afgreiðslu við þessa umr., m.a. með tillöguflutningi um nokkur einstök málefni, þótt við gerum okkur fyllilega ljóst að sá tillöguflutningur sé alls ekki tæmandi og muni ekki heldur geta áorkað því að breyta fjárlagafrv. í heild eða stefnunni, sem með því er mörkuð, mjög til betri vegar.

Við alþfl.-menn munum hins vegar taka þessa afstöðu okkar til nýrrar skoðunar' fyrir 3. umr. fjárlaga í ljósi þess sem þá kann að vera fram komið eða fram komið ekki, og þá ekki aðeins hvað þá fjárlagaliði varðar sem ófrágengnir eru nú við 2. umr., heldur einnig hvað líður þeim fylgimálum, svo sem eins og lánsfjáráætlun og till. um breyt. á skattalögum, sem ríkisstj. hét á sínum tíma að leggja fram og afgr. samhliða afgreiðslu fjárlaga, en enginn hefur enn séð tangur eða tetur af. Það fer eftir því hvernig hæstv. ríkisstj. og hv. þingmeirihl. hér á Alþ. stendur að þessum málum á næstu fáu dögum, sem eftir eru af starfstímabili þingsins fyrir jól, hvort við alþfl.-menn munum á annað borð nokkurn þátt taka í afgreiðslu þess fjárlagafrv. sem með þessum ósköpum er lagt fram.