14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

1. mál, fjárlög 1977

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég fer þess á leit við hið ágæt Alþ. að það auki hlut sinn í námsflokkaviðgangi svo fullorðnum veitist til ánægju og eflingar að auka sitt landnám á víðáttum þekkingar. Þó ég mæli svo mér til gamans og öðrum líklega lítið, sem fáir eru hér, þá vildi ég vekja athygli á þeirri hógværu brtt. sem ég hef flutt hér við fjárlögin. Fræðsla fullorðinna hefur á síðustu árum unnið sér land, þó ekki kannske innan skólakerfis landsmanna, heldur hefur aukist aðsókn að námsflokkum þar sem þeir hafa verið starfræktir. Ég get t.d. getið þess að á Akureyri hafa verið skráðir um 500 manns í námsflokka Akureyrar s.l. ár, og ég hygg að þar hafi verið fleiri skráðir í haust. Auk þess var tekju upp eða stóð til að yrði tekin upp námsflokkakennsla í Hrafnagilsskóla fyrir fram-eyfirðinga.

Ef við gengjum út frá því að í námsflokkum alls á landinu væru um 3000 manns, sem ég hygg að sé frekar van en of í lagt, þá ætlast hið háa Alþ. ekki til að það sé lagt til þeirra stofnana, eins og hér liggur fyrir, í fjárlögum nema um 400 kr. á mann. Og ég fer nú ekki fram á meira en að það verði hækkað í 1000, þ.e.a.s. þetta væri eins og tvenn léleg kennaralaun sem væru lögð fram af hálfu ríkisins í þessum tilgangi.

Annars ætla ég ekki að tala langt mál fyrir þessu. Ég veit að allir þm. skilja þörfina og vita vandann. Og loks vil ég geta þess til samanburðar, að á fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar voru s.l. ár teknar 2 millj. kr. til námsflokka Akureyrar. Hér hefur hið háa Alþ. ekki tekið upp nema 1.2 millj. til námsflokka alls á landinu, þ.e.a.s. ríkið ætlar sér varla að vera hálfdrættingur við Akureyrarbæ. Ég vil vænta þess, að svo hógvær brtt. sem hér er fram lögð finni náð fyrir augum alþm. og hún verði samþ.