19.10.1976
Sameinað þing: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

239. mál, rafmagn á sveitabýli

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrsta fsp. hv. þm. er á þessa leið: „Hver er ástæða til þess að Rafmagnsveitur ríkisins geta ekki sinnt beiðnum um tengingu íbúðarhúsa í sveitum við rafveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins?"

Árlega berast Rafmagnsveitum ríkisins margar umsóknir um tengingu íbúðarhúsa í sveitum við rafveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins. Árið 1974 voru umsóknir 70 að tölu, árið 1975 voru þær 60, en í ár eru þegar komnar 110 umsóknir. Umsóknir í ár eru því miklu fleiri en áður. Til þess að sinna þeim öllum þurfti viðbótarfjármagn. Þegar iðnrn. barst vitneskja í byrjun septembermánaðar um þessa fjárvöntun brá það strax við og tókst að útvega þetta fjármagn, sem nam 50 millj. kr., upp úr miðjum sept, og var Rafmagnsveitum ríkisins falið að sinna öllum beiðnum um tengingu.

Önnur spurning hv. þm. er svo hljóðandi: „Hve margar beiðnir liggja nú fyrir um tengingu sem Rafmagnsveiturnar hafa ekki getað sinnt?“

Rafmagnsveiturnar hófu strax undirbúning að lagningu þessara heimtauga þegar fé var fyrir hendi. Öflun efnis og niðurröðun verkefna hefur verið flýtt. Þegar hefur verið hafist handa um framkvæmdir við um þriðja hluta af þessum heimtaugum, og samkv. upplýsingum Rafmagnsveitna ríkisins í dag mun öllum umsóknum, sem borist hafa, verða fullnægt á árinu ef veður og færð hamla ekki framkvæmdum.

Þriðja fsp. hv. þm. er svo hljóðandi: „Hve mörg eru þau sveitabýli sem enn hafa ekki fengið rafmagn frá samveitum, en þó er ráðgert að fái það síðar?“

Við stjórnarskiptin 1971 lá fyrir áætlun um lúkningu sveitarafvæðingar á fjórum árum, þ.e. á árunum 1972–1975. Fyrrv. ríkisstj. ákvað að stytta framkvæmdatímann um eitt ár, þ.e. að ljúka rafvæðingunni árið 1974. Þetta tókst ekki, enda seinkaði þessari áætlun mikið þegar í upphafi vegna fjárskorts. Af þessari rafvæðingaráætlun fjögurra ára eða þriggja ára, hvort sem menn vilja nota, voru á s.l. vori um 60 býli eftir ótengd og verða þau tengd á þessu og næsta ári.