15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. mjög vel fyrir hve vel hún hefur brugðist við tilmælum mínum um afgreiðslu á þessu máli. Mér er það ljóst og mér var það ljóst þegar ég lagði málið fyrir í þessari d., að það var skammur tími fyrir n. og d. til þess að fjalla um málið ef átti að auðnast að koma því fram fyrir áramót, og ég er sem sagt mjög þakklátur n.fyrir að hún hefur getað fallist á að afgr. málið, þó að það sé laukrétt, sem kom fram hjá frsm., að þess er tæplega að vænta að n. hafi getað á þessum tíma grandskoðað þetta frv. og þau fylgifrv. sem því fylgja. Á hinn bóginn er þess að gæta, að þetta frv. hefur hlotið gaumgæfilega athugun í Nd. og gögn þau, sem Nd. aflaði, fylgdu með. Ég vona að hv. allshn. þessarar d. hafi getað byggt á þeim gögnum og hefur auðvitað orðið að gera það í þessu tilfelli. En ég tek algjörlega undir það sem fram kemur í þessu nál., að þetta eru auðvitað ekki eðlileg og æskileg vinnubrögð. Það verður að vera og á auðvitað að vera meira jafnvægi á milli deilda, þannig að fyrri d., sem mál fær til meðferðar, taki ekki allan tímann til athugunar á því, heldur geti athugun farið fram í báðum d. með svipuðum hætti. Það eru rök deildaskiptingarinnar, sem hún byggist í raun og veru á, að sú athugun fari fram, en síðari d. láti a.m.k. ekki að jafnaði nægja athugun fyrri deildar.

En ég vil enn undirstrika að ég er n. þó í þessu tilfelli þakklátur fyrir að hún hefur getað fellt sig við það að afgr. málið með svo skjótum hætti. Þetta er mál sem mikið er búið að ræða um og menn hafa ugglaust sett sig inn í talsvert, a.m.k. almennt.

Þetta frv., sem hér er til umr., er um stjórnskipulag og starfslið raunsóknarlögreglu, að nokkru leyti um starfshætti hennar, en þó getur það ekki orðið nema að litlu leyti í þessu frv. Aftur á móti koma til fylgifrv. og þau lög sem gilda um sjálfa rannsóknarstarfshættina. Þetta er fyrst og fremst um skipulag og stjórn á þessari stofnun sem gert er ráð fyrir að sett sé upp eða réttara sagt skilin frá þeirri stofnun sem hún hefur lotið hingað til, sakadómi Reykjavíkur. Það er kannske ekki alveg bókstaflega rétt að tala um nýja stofnun, af því að auðvitað er þessi stofnun þegar til sem rannsóknarlögregla hjá sakadómi Reykjavíkur.

Það er að sjálfsögðu svo, að þegar kveðið er á um stjórn og skipulag slíkrar stofnunar, þá geta verið mörg álitamál. Það er ekkert óeðlilegt þó að mönnum geti sýnst sitt hvað. En hér hafa ekki komið fram brtt. Þetta skipulag hefur verið ákveðið af svokallaðri réttarfarsnefnd, að vísu með nokkrum breyt. í hv. Nd., þannig að ég hygg að það sé sett upp að mjög vel athuguðu máli. Ég held að það sé ekki of mikið sagt. En auðvitað er það svo í þessu tilfelli sem öðrum, að það verður að athuga hver reynslan verður af þessu, og er sjálfsagt að breyta því sem reynslan sýnir að ekki gefst eins og vonir stóðu til, ef menn sjá það í framkvæmdinni að eitthvað megi betur fara, og er auðvitað ekkert við því að segja þó það komi á daginn. Það er ekkert óeðlilegt við það þó að einhverjar breyt. kunni að þurfa að gera á frv. sem þessu. En ég tel að með þessu sé stigið stórt spor í rétta átt og vona það að það skipulag, sem þarna er sett upp, sé í aðalatriðum rétt og verði til þess að styrkja löggæsluna og réttarkerfið.

Hins vegar er það svo að þessi svokallaða réttarfarsnefnd hefur áfram til athugunar, skoðunar og endurskoðunar öll lögin um meðferð opinberra mála og þar með um sjálfa starfshættina við þetta. Hún hefur gert þær breytingar á lögunum um meðferð opinberra mála sem koma hér til umr. á eftir í frv. því, sem þessu frv. fylgir, og taldar voru óhjákvæmilegar afleiðingar af þessu frv., svo og nokkrar fleiri breytingar sem hún gerði samkv. ábendingum, sérstaklega lagadeildar Háskólans. En að öðru leyti hefur hún ekki farið út í heildarendurskoðun á þeim efnislegu reglum sem um þetta fjalla í lögunum um meðferð opinberra mála, en þar eru líka ákvæði um rannsókn utan réttar, um rannsókn fyrir lögreglu. En það er verkefni sem n. hefur og mun halda áfram að sinna og rækja.

Það er mikið búið að tala um þá afbrotaöldu sem hér hefur gengið yfir, og það er ekki nokkur vafi á því að það þarf að snúast gegn henni með fullkominni alvöru. Ég tel að það hafi verið gert og ýmislegt verið einmitt gert nú, bæði með auknum fjárveitingum og öðru, sem á að stuðla að því að hægt sé að sinna þessum málum betur en unnt hefur verið. Ég vona og ég þykist sjá þess nokkur merki að það sé hægt að sjá fyrir endann á ýmsum þeim alvarlegu brotamálum, sem hér hafa komið upp á síðustu mánuðum og árum, og takist að leysa þau. Og fyrsta skilyrðið til þess er auðvitað að fyrir hendi sé starfhæf og vel menntuð rannsóknarlögregla sem hefur yfir að ráða þeim tækjum sem þykja nauðsynleg í því efni. En hitt skiptir líka máli og mjög miklu máli, að hún hafi stuðning og njóti atbeina fjölmiðla, vegna þess að þeir eru orðnir áhrifamiklir aðilar, og að hún hafi almenningsálitið í landinu með sér í því að taka duglega á móti þessari afbrotaöldu og kæfa hana. Það vona ég að okkur takist á næstu árum, þó að hitt sé víst, að með þessari rannsóknarlögreglu verður ekki komið í veg fyrir það í eitt skipti fyrir öll að afbrot verði framin. Auðvitað á það sér alltaf stað í þessu þjóðfélagi eins og öðrum, það verða alltaf einhverjir einstaklingar sem fremja afbrot.