15.12.1976
Sameinað þing: 33. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

112. mál, landhelgismál

Þórarinn Þórarinsson:

Góðir áheyrendur. — Það hefur gerst næstum mánaðarlega og stundum vikulega síðan núv. ríkisstj. kom til valda, að stjórnarandstæðingar hafa risið upp með miklu írafári og borið á hana að nú væri hún að svíkja í landhelgismálinu. Þessi svikabrigsl hafa nú gengið aftur einu sinni enn í sambandi við viðræðurnar við Efnahagsbandalagið, og mun ég víkja nánar að þeim siðar í ræðu minni. Áður mun ég víkja að því hvernig fyrri svikabrigsl stjórnarandstöðunnar hafa samrýmst veruleikanum. Ef einhver fótur hefði verið fyrir þeim ætti engin útfærsla fiskveiðilögsögunnar að hafa átt sér stað í tíð núv. ríkisstj. og krökkt af útlendum veiðiskipum á fiskimiðunum við landið. En er þetta myndin sem blasir við í dag? Sannarlega ekki.

Staðreyndirnar, sem blasa við í dag, eru í fyrsta lagi þær, að ríkisstj. varð fyrst allra ríkisstjórna við norðanvert Atlantshaf til að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur. Margar aðrar ríkisstjórnir í þessum hluta heims börðust þá gegn 200 mílum, t. d. allar ríkisstjórnir í löndum Efnahagsbandalagsins og ríkisstjórn Sovétríkjanna. Nú hafa þær hins vegar talið skynsamlegast að fylgja í fótspor íslendinga. Eru það svik af hálfu núv. ríkisstj. að hafa þannig haft forustu um stórfelldustu stækkun fiskveiðilögsögunnar á Norður-Atlantshafi?

Aðrar staðreyndir blasa einnig við síst veigaminni. Með Oslóarsamningnum á síðasta ári voru íslendingum tryggð full og endanleg yfirráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu frá 1. des. s. l. Eru það svik að hafa þannig tryggt þjóðinni full yfirráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu? Hvað skyldu þeir vera margir sem eru sammála öfgafullum talsmönnum stjórnarandstöðunnar um að þetta séu svik?

Framsóknarmenn geta sannarlega verið stoltir af þátttöku ráðh. sinna í þessum síðasta þætti landhelgisbaráttunnar. Það hvíldi á herðum Einars Ágústssonar utanrrh. að hafa forustu fyrir íslendingum í hinum mörgu viðræðum við fulltrúa erlendra ríkja sem fóru fram um þessi mál. Hinn prúðmannlegi, glöggi og sannfærandi málflutningur Einars Ágústssonar hlaut ekki aðeins aðdáun íslensku sendinefndarmannanna, heldur engu síður útlendinganna sem tóku þátt í viðræðunum. Það var sannarlega ánægjulegt að taka þátt í viðræðum undir slíkri forustu.

En þótt verkefni Einars Ágústssonar væri vandasamt, þá var hlutverk Ólafs Jóhannessonar þó enn erfiðara. Það hvíldi á herðum hans sem dómsmrh. að stjórna landhelgisgæslunni í viðureigninni við hið breska ofurefli og að vera viðbúinn jafnt á nóttu sem degi að taka hinar örlagaríkustu ákvarðanir. Ég held að nú, þegar þessir atburðir eru að baki, sjáum við betur hversu vandasamt þetta starf var og dómarnir verði þeir, að hér hafi farsællega verið haldið á málum. Landhelgisgæslan stuðlaði mjög að sigrinum í landhelgisdeilunni sem vannst endanlega með Oslóarsamningnum. Dómsmrh. átti vissulega góðan þátt í þessum árangri hennar.

Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem Framsfl. hefur átt öðrum flokkum stærri hlut í sigrunum í landhelgisbaráttunni. Hann er líka sá flokkurinn sem hefur komið þar mest við sögu, því að hann einn hefur átt sæti í öllum þeim fjórum ríkisstj. sem hafa fært út fiskveiðilögsöguna.

Fyrsta stóra sporið í landhelgisbaráttunni var stigið fyrir 30 árum, haustið 1946, þegar Hermann Jónasson og Skúli Guðmundsson lögðu fram á Alþ. till. til þál. um uppsögn breska samningsins frá 1901, en meðan hann var í gildi gat engin útfærsla á fiskveiðilögsögunni átt sér stað. Samkomulag náðist ekki þá um uppsögnina, en henni óx fylgi og þrem árum seinna var samningnum sagt upp. Eftir það var hægt að fara að hefjast handa um útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

Ráðist var í fyrstu útfærsluna 1952 þegar samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. fór með völd undir forustu Steingríms Steinþórssonar. Þá var sú mikla breyting gerð að grunnlína var miðuð við ystu nes og tanga, en áður hafði hún fylgt strandlengjunni. Jafnframt var fiskveiðilögsagan færð í 4 mílur úr 3. Það var geysilegur ávinningur að friða þannig firði og flóa fyrir veiðum útlendinga, enda urðu bretar svo reiðir að þeir lögðu löndunarbann á íslensk fiskiskip. Það varð íslendingum verulegt efnahagslegt áfall, en þeir létu þó ekki undan síga. Svo fór líka að bretar gáfust upp eftir nokkur missiri.

Í næstu útfærslu var svo ráðist af ríkisstjórn Hermanns Jónassonar 1958, þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 12 mílur. Sú stjórn var studd af Framsfl., Alþb. og Alþfl. Þetta var mikið átak og djarft á þeim tíma, því að þróun hafréttarmála var enn skammt á veg komin. Bretar hófu í tilefni af þessari útfærslu fyrsta þorskastríðið. En svo fór að lokum að flest ríki fylgdu í slóð Íslands og færðu fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur. Þannig gerðust íslendingar forustuþjóð á vettvangi hafréttarmála.

Eftir útfærsluna 1958 komu 12 mögur ár er ekkert var aðhafst varðandi stækkun fiskveiðilögsögunnar, enda höfðu íslendingar bundið hendur sínar með landhelgissamningnum 1961. Ekkert markvert gerðist því í þessum málum fyrr en haustið 1970 þegar Framsfl. og Alþb. hófu viðræður um sameiginlega stefnu í landhelgismálinu í kosningunum 1971. Síðar hóf Framsfl. einnig viðræður við Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Fyrir milligöngu Framsfl. náðist samkomulag um það milli þessara þriggja flokka að þeir mundu færa fiskveiðilögsöguna út í 50 mílur ef þeir sigruðu í kosningunum 1971. Þeir sigruðu í kosningunum og mynduðu ríkisstj. undir forustu Ólafs Jóhannessonar sem strax hóf að undirbúa útfærsluna. Á þingi 1972 náðist fyrir milligöngu Framsfl. samkomulag milli allra flokka í utanrmn. Alþ. um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur sem tæki gildi 1. sept. 1972. Hér var í reynd stigið stærsta skrefið í landhelgisbaráttunni þar sem allir helstu nytjafiskar við Ísland eru aðallega innan 50 mílna markanna. Enn hófu bretar þorskastríð og beittu nú enn meiri hörku en 1958. Þessi deila leystist með samningi sem Ólafur Jóhannesson gerði við breska forsrh. haustið 1973. Þessi deila íslendinga og breta vakti mikla athygli á alþjóðavettvangi og átti ríkan þátt í því að hraða þróun hafréttarmála.

Í fjórðu og síðustu útfærsluna var svo ráðist af núv. ríkisstj. þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 200 mílur haustið 1975, og er áður rakið hvaða árangur það hefur borið.

Eins og hér hefur verið rakið hefur forustan í landhelgismálunum mjög hvílt á forustumönnum Framsfl. þar sem hann einn hefur líka átt sæti í öllum þeim ríkisstjórnum sem við útfærslu hafa fengist. Oft hefur það orðið hlutverk Framsfl.í þessum ríkisstjórnum að gæta þess að ekki væri rasað um ráð fram. Þannig má minnast þess að vorið 1958 beið Hermann Jónasson með lausnarbeiðni þáv. vinstristjórnar í heilan sólarhring meðan verið var að þvinga Alþb. til að falla frá ógætilegum vinnubrögðum. Á svipaðan hátt varð Ólafur Jóhannesson að beita hörðu til þess að fá Alþb. til að fallast á landhelgissamninginn 1973. Því er ekki heldur að leyna, að stundum virðist Sjálfstfl. hafa verið fúsari til samninga en samrýmst hefur sjónarmiðum Framsfl. Það hefur þannig orðið hlutverk Framsfl. að vinna að því að farinn yrði farsæll meðalvegur. Það er því ekki hallað á neinn þótt sagt sé að hann eigi drýgstan þátt í þeim sigrum sem unnist hafa í landhelgisbaráttunni.

Ég vík þá að þeim viðræðum sem íslendingar hafa átt undanfarið við Efnahagsbandalagið og verið hafa könnunarviðræður um það hvort stefna eigi að samningi milli þessara aðila um fiskvernd og hvort möguleiki sé fyrir hendi til gagnkvæmra fiskveiðiréttinda.

Niðurstaða könnunarviðræðnanna varð sú, að rétt væri að stefna að samningi til langs tíma um fiskvernd og stjórn á fiskstofnum. Hér er lögð til grundvallar 52. gr. í 2. kafla frv. þess að hafréttarlögum sem Hafréttaráðstefnan hefur fjallað um undanfarið og verður sennilega samþ. á næstu ráðstefnu. Enginn ágreiningur hefur verið um þessa gr., en í henni segir að þegar fiskstofnar haldi sig á mörkum fiskveiðilögsögu tveggja ríkja eða fleiri skuli þau semja beint um verndun þeirra eða fjalla um það í svæðasamtökum. Eins og ástatt er, þegar Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin virðist vera að lognast út af, er tvímælalaust betra fyrir íslendinga að leysa slík mál með tvíhliða samningum við viðkomandi ríki en sækja þau á vettvangi svæðastofnana þar sem mörg ríki eiga sæti sem eru þessum málum raunverulega óviðkomandi.

Á mörkum fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands halda sig ýmsir fiskstofnar, m. a. grálúðan og loðnan, og virðist a. m. k. athugandi að samið sé um það á milli okkar og Efnahagsbandalagsins að þessir fiskstofnar verði ekki ofveiddir öðru hvorum megin við mörkin. Þá hafa íslendingar mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við það að þorskstofninn og karfastofninn við Grænland séu ekki ofveiddir, því að þessir stofnar ganga oft á Íslandsmið og er ofveiði þeirra augljóst tjón fyrir íslendinga ekki síður en grænlendinga. Þessir fiskstofnar eru ofveiddir nú. Það er sameiginlegt hagsmunamál íslendinga og grænlendinga að þeirri ofveiði verði hætt. Samkvæmt væntanlegum hafréttarlögum eiga íslendingar ótvírætt rétt til að fara þess á leit að Efnahagsbandalagið sjái um, meðan það annast þessi mál fyrir Grænland, að þessir fiskstofnar verði ekki ofveiddir.

Þetta eru höfuðrökin fyrir því að ríkisstj. hefur talið rétt að hefja formlegar viðræður við Efnahagsbandalagið um fiskverndarsamning til langs tíma. Hitt er hins vegar satt best að segja, að það er enn hvergi nærri fullmótað af hálfu okkar eða Efnahagsbandalagsins hvernig slíkum samningi verði háttað, og hlýtur það fyrst og fremst að verða verkefni fiskifræðinga að fjalla um það. Mér segir svo hugur um að slík samningagerð muni taka verulegan tíma.

Það, sem hér hefur verið rakið, fjallar um fiskverndunina. Næst er að víkja að þeim þætti viðræðnanna sem fjallar um gagnkvæm fiskveiðiréttindi.

Nú er þannig ástatt að Efnahagsbandalagsríki hafa fiskveiðisamninga við Ísland sem veita þeim rétt til að veiða rúmlega 66 þús. tonn á tímabilinu 1. des. 1976 til 1. des. 1977. Það er ekki nema eðlilegt að íslendingar vilji fá að vita hvort Efnahagsbandalagið hefur eitthvað að bjóða til að mæta þessu. Enn hefur ekki komið neitt tilboð frá Efnahagsbandalaginu sem gæti mætt framangreindu aflamagni, og þá því síður að það geti gert kröfur um viðbótarundanþágur fyrir breta. Það eru því engar horfur á að gerðir verði samningar við Efnahagsbandalagið um gagnkvæm fiskveiðiréttindi í náinni framtíð. Þetta virðast líka samningamenn gera sér ljóst, og því virðast þeir hafa farið að fitla við þá hugmynd að gerður verði bráðabirgðasamningur sem heimili ákveðinni tölu breskra togara að veiða hér næstu mánuðina án þess að nokkuð sérstakt komi á móti frá Efnahagsbandalaginu. Frá sjónarmiði ráðamanna Efnahagsbandalagsins virðist þetta eiga að vera eins konar framlenging á umþóttunartíma breta. Þessar hugmyndir Efnahagsbandalagsins hafa ekki komið fram í hinum formlegu viðræðum, en af ýmsum ummælum Finns Olavs Gundelachs og erlendum blaðaummælum virðist mega ráða að þeirra gæti verið að vænta. Jafnframt hefur Gundelach látið í ljós bjartsýni um framgang þeirra. Ég veit þó ekki til þess að neinn íslenskur ráðamaður hafi léð máls á þeim eða að þær hafa verið fluttar við þá. Öll bjartsýni Gundelachs er því byggð á sandi.

Í tilefni af þessu finnst mér rétt að skýra frá því, að það hefur verið rætt í þingflokki Framsfl. hvernig bregðast skuli við ef slíkar till. um bráðabirgðasamning koma fram. Hefur slík málaleitun, ef til kæmi, engar undirtektir fengið þar. Bretar hafa þegar fengið þriggja ára umþóttunartíma og hafa því fengið rúman tíma til að breyta til. Aðalatriðið er þó það, að ástand þorskstofnsins leyfir ekki frekari undanþágur. Það má vel skilja að bretum fellur þetta ekki vei. En íslendingar gera þetta einfaldlega af illri nauðsyn, og það hljóta bretar að skilja við nánari athugun.

Það, sem nú hefur verið rakið, sýnir ljóslega að öll svikabrigsl stjórnarandstöðunnar í sambandi við viðræðurnar við Efnahagsbandalagið eru byggð á sandi, eins og öll fyrri svikabrigsl þeirra í sambandi við núv. ríkisstj. og landhelgismálið.

Ég skal fúslega viðurkenna að núv. ríkisstj. hefur ekki tekist eins vel á ýmsum sviðum og æskilegast hefði verið og er að því leyti ekkert frábrugðin öðrum ríkisstjórnum. En þetta gildir ekki um landhelgismálið. Ég er sannfærður um að sá verður dómur seinni tíma, að núv. ríkisstj. hafi tekist eins vel í landhelgismálinu og frekast var kostur, enda skilur hún þar eftir þau verk sem alltaf munu lífa og bera henni gott vitni.

Mér finnst till. sú, sem hér liggur fyrir, það veigamikil að rétt sé að hún fái athugun í n. Ég geri það því að till. minni, ef ekki kemur till. um það frá flutningsmönnum, að henni verði vísað til utanrmn. og verði umr. frestað. En sem formaður n. lofa ég að sjá um að hún fái þar skjóta afgreiðslu svo að hægt verði að fullnægja þeim óskum flutningsmanna að afgreiða hana fyrir þingfrestun.