16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

100. mál, söluskattur

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Í raun og veru er kominn fram kjarni þess sem hér er verið að gera, en ég vildi aðeins gera hér örfáar aths. við það sem fram hefur komið í ræðum sumra hv. þm. Sumir þeirra eru nú ekki hér í salnum, en ég ætla þó að fara um það nokkrum orðum.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir kvaðst furða sig á þeim málflutningi sem hér væri uppi hafður af stjórnarandstæðingum, lýsti andúð og furðu í þeim efnum, hér væri fyrst og fremst um atkvæðaveiðar að ræða í þessu sambandi. En hver var afstaða þessa hv. þm. til málsins? Hún sagði í lok ræðu sinnar: Ég tel hæfilegt, ef ekki á að vera hér um algera sýndarmennsku að ræða, að snúa þessum tölum við, bara segja: 1000 millj. til niðurgreiðslu á olíu og 600 millj. til hitaveituframkvæmda. (Gripið fram í.) Þessi hv. stjórnarþm. er nákvæmlega sömu skoðunar og við, sem höfum verið að gagnrýna þessa málsmeðferð eins og hún er hér lögð fyrir. Hún telur að nú við 2. umr. málsins sé lögð til af hálfu hv. stjórnarþm. alger sýndarmennskuafgreiðsla. Þrátt fyrir það ætlar þessi hv. þm. að styðja þessa sýndarmennsku, a. m. k. við 2. umr. Þannig er nú málflutningurinn hjá þessum hv. þm. Það er auðvitað alveg rétt, að sú fyrirhugaða meðferð, sem þetta mál á að hljóta hér, eins og það er lagt fram, er alger sýndarmennska miðað við þá grundvallarforsendu sem uppi var þegar þetta gjald var á lagt.

Hv þm. Gunnlaugur Finnsson benti mér m. a. á að lesa þingræður sínar. (GF: Þingræður almennt.) Almennt, já, þannig að ég gæti fengið gleggri mynd af því hver afstaða hans væri til byggðamála. Mér skildist að hún væri hliðhollari að hans áliti heldur en ég vildi láta í veðri vaka af hans hálfu og hv. þm. Framsfl. Ég hef nokkuð fylgst með bæði hans málflutningi hér og annarra hv. þm Framsfl. En það skiptir kannske ekki meginmáli hvað menn segja hér í ræðustól og hvað er prentað eftir mönnum í þingtíðindum. Meginmáli skiptir hver afstaða viðkomandi hv. þm. er þegar á hólminn er komið og afstaða er tekin til mála. Það skiptir meginmáli. Og síðasta dæmið um það hjá þessum hv. þm. hv. 4. þm. Vestf., Gunnlaugi Finnssyni, er frá því í gær. Hann kom hér inn á áðan í sinni ræðu að það væri mikil þörf á því að létta undir í sambandi við hitun á skólahúsnæði, og það er alveg rétt, að það er full þörf á því. En hver var afstaða þessa hv. þm. í gær í atkvgr. við 2. umr. fjárl., þegar fram kom till. um að taka upp sérstaka fjárveitingu til þess að jafna þetta. Afstaðan í verki var þá að greiða atkv. gegn þessari till. Svo kemur þessi hv. þm. hér daginn eftir og fer að tala um hina miklu nauðsyn á því að jafna nú þetta sem hann sjálfur daginn áður greiddi atkv. gegn að væri gert. Ég segi enn: Það er allt annað orð eða gjörðir, þannig að það er ekki nóg, hvorki fyrir mig né aðra, til þess að fá rétta mynd af því hver er í raun og veru hugur hv. þm. Framsfl. Það verður líka að skoða hin áþreifanlegu dæmi, afstöðu þessara hv. þm. til málanna þegar atkvgr. á sér stað og afstaða er tekin. Það skiptir auðvitað meginmáli.

Hv. þm. Lárusi Jónssyni þótti það kynlegt að ég skyldi minnast á það hér áðan, að ég drægi í efa að það mundi verða fjvn. sem endanlega ákvarðaði hvernig með yrði farið þennan væntanlega hluta af 1% innheimtunni sem á að renna til þeirra sem kynda hús sín með olíu. En hv. þm. Gunnlaugur Finnsson sagði, og ég er honum alveg sammála um það: Ég tel miklu æskilegra, ef á annað borð verður farið út í að breyta þessu á þennan hátt, að það verði þá sett — í þessu tilfelli líklegast af viðskrn. — reglugerð um það með hvaða hætti á að gera þetta, en það verði ekki sett inn í fjárlagafrv. Ég hygg því að það verði niðurstaðan að fjvn. muni ekki endanlega ganga frá þessu máli, skiptingunni eða reglunni, heldur muni það verða aðrir aðilar, þannig að það er ekki svo fjarstæðukennt sem ég var um að tala áðan, að líklega yrði það ekki fjvn. sem þetta gerði.

En það var annað sem hv. þm. Lárus Jónsson sagði. Hann sagði að það væri æskilegt að Alþ. ráðstafaði sjálft, en ekki einhver aðili úti í bæ. Eins og þetta hefur verið og er enn samkv. gildandi lögum, þá er það Alþ. sjálft sem hefur ákvarðað þetta og síðan reglugerð sett af viðskrn., alveg skýr lagafyrirmæli um hvernig þessum tekjum skuli varið. Það var að vísu gerð sú breyting á árinu 1975, ef ég man rétt, að klípa af þessu til Orkusjóðs eða orkuframkvæmda, en meginreglan var frá upphafi að þetta skyldi vera svo. Og það er auðvitað ekki verið með þessari breytingu, sem hér er verið að gera, að færa málið frekar í hendur Alþ. en það var. Það er að mínu viti þveröfugt. Nú verða engin lagafyrirmæli um þetta. Það verður aðeins reglugerð sem hugsanlega verður gefin út, og þannig er fremur hægt að segja að verið sé að taka áhrifavaldið úr höndum Alþingis heldur en það sé verið að auka áhrif þess á það hvernig með þetta mál verði farið, og því er ég andvígur.

Ég held sem sagt, að það, sem hér er lagt til sé a. m. k. að því er mig áhrærir í grundvallaratriðum rangt, í fyrsta lagi vegna þess að hér er verið að taka stóran hluta af þessum fjármunum til annarra hluta en þeir voru upphaflega ætlaðir til. Og ég tek undir þau orð hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, að ef þessi verður endirinn á um afgreiðslu þessa máls, þá er hér í raun og veru um algera sýndarmennsku að ræða, eins og þessi hv. þm. orðaði það, — algera sýndarmennsku. Ég ítreka því enn að ég er algerlega andvígur þessu frv, og mun greiða atkv. gegn því.