17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara. Ég taldi ekki fært að vera andstæður þessu frv. af þeim einföldu ástæðum, að aðaltilefni frv. er 2. gr., ákvæði til bráðabirgða, og um það eru engar deilur í n. Það eru allir sammála um að það ákvæði sé nauðsynlegt að lögfesta.

Þessu máli er eins og fleirum hraðað í gegnum þingið nú, og má vissulega óska hæstv. ríkisstj. til hamingju með að hún skuli hafa uppgötvað að það eru fáir dagar til jóla, þó að sú uppgötvun hafi komið nokkuð seint, enda berast frv. nú ótt og títt að okkur og enn eru einhver óséð enn sem eiga að koma hér til afgreiðslu. Þetta leiðir hins vegar það af sér, þessi síðbúna uppgötvun hæstv. ráðh., að við í stjórnarandstöðunni a. m. k. og ég hygg meira að segja stjórnarþm. einnig hafa mjög takmarkaðan tíma til að skoða þau mál sem er verið að leggja hér á borð, og þá á ég ekki við þetta frv. út af fyrir sig alveg sérstaklega, þó að þarna komi upp atriði sem fyllilega hefði verið ástæða til þess að athuga betur og fá rýmri tíma, m. a. vegna þeirra upplýsinga sem við fengum í n. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég held sem sagt að 1. gr. sé ekki tímabær, — held mig enn þá við það að hún sé ekki tímabær, það þurfi ekki að setja þessa grein inn, það þurfi að athuga ýmsa þætti betur.

Við höfum t. d. heyrt þá fullyrðingu, sem ekki hefur verið afsönnuð, að á þessar byggingar, sem hér er um að ræða, muni ekki verða lagður fasteignaskattur fyrr en á árinu 1978, þ. e. a. s. 15. jan. það ár, svo sem l. segja til um varðandi gjalddaga fasteignaskatts. Ég vil ekkert fullyrða um það til eða frá hvort þetta stenst eða ekki, en þessi fullyrðing hefur ekki verið afsönnuð fyrir okkur í n., og sé hún rétt, þá liggur auðvitað í hlutarins eðli að það liggur ekkert á því að lögfesta þetta atriði. Það hefði sem sagt þurft að fullkanna þetta mál, og ef þessi fullyrðing væri rétt, þá auðvitað hefðum við í félmn. átt að láta þessa gr. niður falla, en hins vegar taka þá 2. gr., sem við allir erum sammála um, og samþ. hana.

Í framsögu hæstv. ráðh. fyrir þessu máli kom glöggt í ljós hverja hann hafði í huga varðandi þessa grein. Ég er honum algjörlega sammála í því efni. Hann hafði þau rök fyrir því að þarna væri verið að hindra það að fasteignaskattur væri lagður á íbúðareigendur áður en þeir hefðu fullgert íbúðir sínar eða þá tekið þær til afnota. Ég er alveg sammála þessu viðhorfi hæstv. ráðh., fyllilega. En þá bentum við, sem vorum með fyrirvara í n., á það að fyrir er enn rýmri heimild í tekjustofnalögunum í dag en sú sem hæstv. ráðh. bar fyrir brjósti, þ. e. a. s. heimild að sveitarstjórn sé heimilt að undanþiggja íbúðareigendur fasteignaskatti tvö ár eftir að þeir hafa flutt í sína íbúð, og þessi heimild er víða nýtt. Ég nefni bara sem dæmi, af því að ég er því kunnugur frá mínum heimastað, að þar höfum við nýtt þessa heimild og íbúðareigendur þar hafa ekki þurft að greiða fasteiguaskatt fyrstu tvö árin eftir að þeir hafa flutt í sína íbúð. Þarna er heimild sem gengur enn þá lengra, og ég er ekki alveg nógu trúaður á að sveitarstjórnir séu svo gráðugar í það að níðast á íbúðareigendum að þær ætli að seilast til fasteignaskattsins fyrr en þær hafa gert, þó að þær kunni að hafa möguleika á því nú, og þar af leiðandi er ég hvergi sannfærður um að á þessu sé þörf.

Hitt vegur þó kannske sýnu þyngst, að í n. kom fram í máli framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga bein andstaða Sambands ísl. sveitarfélaga við lögfestingu þessarar greinar og þar voru ýmis rök til tind í þessu efni. Það var t. d. bent á ýmsar stórar byggingar, — ekki íbúðarbyggingar, heldur ýmsar stórar byggingar, sem væru áratugi í byggingu og væri þá eigi heimilt með nokkru móti að ná fasteignaskatti af, þó að þær væru kannske teknar í notkun að einhverjum hluta til einhvers annars en til væri ætlast. Ýmis atriði til umhugsunar komu einnig fram frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga um erfiðleika tölvu- og skýrsluvélavinnslu varðandi undanþágur af þessu tagi eða bann við heimildum af þessu tagi, og við höfum sem sagt ekki fengið tækifæri til að fullkanna þetta. Það kann vel að vera — og ég vil ekkert um það fullyrða — að að athuguðu máli væri ég andvígur þessari grein, en það liggur hreinlega ekki fyrir að við höfum athugað þetta mál nokkurn skapaðan hlut. Þó við höfum nú komið á tvo fundi, eins og hv. frsm. tók fram, höfum við ekki athugað fullyrðingar til og frá neitt frekar í þessu máli. Enn þá er því ýmsum spurningum um þetta ósvarað sem við hefðum þurft að fá tækifæri til að svara og e. t. v. fara inn á þá heimildargrein sem framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga var að fara fram á, að í staðinn fyrir þessa grein kæmi heimildargrein fyrir sveitarfélögin um að undanþiggja fasteignaskatti byggingar fyrr en þær hefðu verið teknar til afnota eða væru fullgerðar. Hann taldi það vera skárri lausn á málinn.

Ég sem sagt endurtek það, að ég tel að 2. gr. eigi fullan rétt á sér, og það er út af fyrir sig mjög gott, að hún skuli koma fram. En þessi óþarfa viðbót, sem mun vera komin inn í ráðuneytið skv. ábendingu að vísu hins mætasta manns, Gauks Jörundssonar, við höfum ekki fengið nægilegt tækifæri til þess að athuga hana til þess að ég geti fellt mig við 1. gr. Ég mun því greiða atkv. gegn henni þó að ég hins vegar að sjálfsögðu greiði atkv. með 2. gr.

Um fasteignaskattinn í heild hefði líka verið full ástæða til þess að efna til nokkurrar umr., um fasteignaskattinn sem tekjustofn, en það skal ekki gert hér. Ég held að það sé rétt að láta það bíða betri tíma, þegar tekjustofnalögin koma hér endurskoðuð inn í Alþ. En á það skal bent, að úr því að það liggur fyrir, að endurskoðun á tekjustofnalögunum verður framkvæmd á þann veg að þau verði hægt að leggja fyrir næsta Alþ., þá getur varla legið á því að taka þessa litlu grein út úr, úr því að hún er ágreiningsefni og úr því alveg sérstaklega að Samband ísl. sveitarfélaga reyndist andvígt þessari litlu grein.