20.10.1976
Efri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

26. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. menntmrh., að æskilegt væri að séð væri fyrir framfærslu aldraðra á þann hátt að undanþága frá gjöldum sem þessum væri óþörf. En þetta er bara ekki gert. Sannleikurinn er sá, að það er ekki séð fyrir framfærslu aldraðra á þann hátt að undanþága frá gjöldum á þennan hátt sé óþörf. Þvert á móti er séð fyrir framfærslu aldraðra í síauknum mæli á þann hátt að þörf er fyrir æ fleiri undanþágur frá gjöldum sem þessum, til þess að þetta fólk geti lifað og búi ekki við skort. Raunar miðar þetta frv., sem við flytjum hv. þm. Helgi Seljan, að því að reyna að tryggja það að stofnunin sem hér um ræðir, Ríkisútvarpið, sniðgangi ekki lög sem fyrir eru um þessar undanþágur.

Okkur er ljóst að þessi ákvæði sem og mjög mörg önnur svipaðs eðlis er hægt að misnota. Vitaskuld er hægt að misnota þessi ákvæði, þó að ég neiti að trúa því að dæmið, sem hæstv. menntmrh. nefndi áðan um göfugmennið sem seldi ömmu sinni sjónvarpið til þess að sleppa við afnotagjöld af því, slík dæmi séu marktæk, að það sé hægt að nefna slík dæmi í andmælum gegn efni þessa frv., raunverulega í þeim anda að slík dæmi eigi að hafa áhrif á afstöðu manna með eða móti þessu frv. Jú, mér er kunnugt um það að innheimtumenn Ríkisútvarpsins hljóta að hafa sínar grunsemdir um að undanþáguákvæðin séu misnotuð og jafnvel viss um það í sumum tilfellum. Ég neita aftur á móti að trúa því að innheimtumönnum Ríkisútvarpsins og eftirlitsmönnum þess sé gersamlega ókleift að fylgjast með því hvort þessi ákvæði séu misnotuð. Vitaskuld er hægt að fylgjast með þessu. Það væri jafnvel hugsanlegt að kveða á um það með reglugerð með hvaða hætti skyldi gera ráðstafanir til þess að draga úr hættunni á misnotkun. En þessi hætta er hverfandi lítil hjá þeirri þörf sem gamla fólkið hefur fyrir það að þessum gjöldum verði af því létt. Ýmsar ráðstafanir eru hugsanlegar til þess að koma í veg fyrir misnotkun. Ég vænti þess nú ekki að hæstv. menntmrh. vildi ganga svo langt að láta gera tilraunir til þess t.d. að tengja fram hjá sjónskermi og reyna að komast beint inn á sjóntaug þessa gamla fólks. Það má fara bil beggja. En ég staðhæfi að það sé hægt að hafa eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða, og ég veit að þörfin fyrir þetta er mjög mikil.