17.12.1977
Efri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

128. mál, tímabundið vörugjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs eingöngu til þess að undirstrika það, sem mér fannst vanta hjá frsm., að ég hefði setið hjá við afgreiðslu þessa máls. Hann leiðrétti það, þótt seint væri, með því að snúa til baka í ræðustól, þannig að þess vegna hefði ég getað fallið frá orðinu. En úr því að ég bað um orðið vil ég taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði.

Í júlí 1975 var þetta vörugjald sett á með brbl. og var þá 12%. Síðan er að mínu mati tekin rétt stefna og það lækkað 1. jan. 1976 í 10%. Ég hafði gert ráð fyrir eins og allir, að þetta vörugjald mundi falla niður í áföngum, en það hefur verið hækkað og er nú 18% og virðist eiga að halda áfram sem fastur liður, sem er andstætt því sem lofað hafði verið.

Ég tel mig ekki geta staðið að þessu frv., þótt ég muni ekki taka afstöðu gegn því og því sitja hjá við atkvgr, hér í d. á sama hátt og ég gerði á nefndarfundi.