19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason):

Hæstv. forseti. Fjh: og viðskn. hefur athugað frv. til l. um heimild til erlendrar lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978. N, varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. nm., þ.e.a.s. stuðningsmenn ríkisstj., leggur til að frv. verði samþ., en minni hl., hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og Lúðvík Jósepsson, skilar séráliti.

Þetta frv. er eitt af mörgum frv. sem flutt eru af ríkisstj. í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í fjárlagafrv, og lánsfjáráætlun. Einn þýðingarmesti þáttur þeirrar stefnu er að halda nýjum erlendum lántökum vegna opinberra framkvæmda, vegna fjárfestingarlánasjóða og atvinnuveganna innan þeirra marka, að lántökur á næsta ári miðist við að mæta vaxta- og afborganagreiðslum erlendra lána og áætluðum viðskiptahalla. Ætlunin er að takmarka erlendar lántökur við 20 milljarða kr. á næsta ári.

Ég hef ekki orðið var við að þessi stefnumörkun hafi sætt andmælum af hálfu stjórnarandstöðunnar. Við umr. um fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunina kom það hvergi fram hjá stjórnarandstæðingum, að þeir væru andvígir þessari stefnu. Þvert á móti hafa þeir haldið því fram, að erlend skuldabyrði væri að verða þjóðinni ofviða.

Þegar útvarpsumr, fór fram héðan frá Alþ. um stefnuræðu forsrh. sagði hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, í ræðu, orðrétt svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Skuldir þjóðarinnar erlendis eru orðnar ógnvekjandi, um hálf millj. kr. á hvert mannsbarn í landinu.“ Mér virðist því, að það sé nokkuð samdóma álit alþm., hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að það þurfi að sporna við fótum í þessum efnum, um sinn verði menn að leggja áherslu á að fjármagna opinberar framkvæmdir, íbúðarhúsabygginga og uppbyggingu í atvinnulífinu með innlendu lánsfé.

Á árinu 1978 er áætlað að fjárfestingin í landinu verði um 126 milljarðar kr. Ég vil taka undir þá skoðun, að eðlilegt sé, eins og sakir standa, að fjárfestingin á næsta ári verði miðuð við nálægt 25% af þjóðarframleiðslu, en þjóðarframleiðslan verður nærri því 500 milljarðar kr. á næsta ári. Á s.l. árum hefur fjárfestingin numið frá 34% af þjóðarframleiðslu 1974–1975 niður í 27% á yfirstandandi ári.

Stækkun fiskveiðilögsögunnar, fyrst í 50 sjómílur, síðan í 200 sjómílur, hefur skapað miklu stærri tækifæri í íslenskum sjávarútvegi í framtíðinni heldur en nokkru sinni fyrr. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að styrkja og byggja upp fiskiskipaflotann til þess að mæta þörfum framtíðarinnar. Enn fremur hefur átt sér stað gífurleg uppbygging í fiskvinnslustöðvum sjávarútvegsins, Framkvæmdir samkvæmt hraðfrystihúsaáætluninni, sem fjallar um uppbyggingu og vélvæðingu og hvers konar hagræðingu í hraðfrystiiðnaðinum, hafa numið á árunum 1971–1977 samtals á verðlagi hvers árs 10 milljörðum 579 millj. kr. Ef kostnaður við þessar framkvæmdir er miðaður við verðlag í lok ársins 1976 nemur hann 18 milljörðum 386 millj. kr. Menn sjá nú fyrir endann á framkvæmd þessarar áætlunar hringinn í kringum landið, nema helst á suðvesturlandinu sem orðið hefur á eftir í þessum efnum af ýmsum ástæðum sem ekki skulu nefndar hér. En eitt er víst, að til þess að ljúka uppbyggingu hraðfrystiiðnaðarins í landinu við sjávarsíðuna og hann komist á það stig, að hægt sé að reka hann með góðum árangri rekstrarlega og hann geti skilað mikilli og vaxandi framleiðslu, góðri og vandaðri vöru, þarf geysilega mikið fjármagn.

Sama er að segja um uppbyggingu vinnslustöðva í landbúnaði. Þar hefur átt sér stað mjög mikil uppbygging á seinustu árum og nú er unnið að þessari uppbyggingu samkvæmt fyrirframgerðri áætlun, bæði hvað varðar fyrirkomulag og fjármögnun. Á s.l. tveim árum hefur fjárfesting í vinnslustöðvum landbúnaðarins numið tæplega einum milljarði kr. í byggingum og tæpum 300 millj. kr. í vélum og tækjum. Auk þess er verið að byggja upp mikið mannvirki á Akureyri, mjólkurstöð KEA þar á staðnum, sem er geysilega fjárfrekt fyrirtæki. En mjólkurstöðin er þannig byggð upp, að lögð verður sérstök áhersla á ostaframleiðslu, sem verður miklu seljanlegri vara á erlendum markaði en þeir ostar sem hafa verið til sölu fram að þessu. Að því er mér hefur verið tjáð mundi vera hægt að selja slíka framleiðslu á þrisvar sinnum hærra verði en nú gerist.

Þá vil ég að lokum nefna nauðsynina á lifað vinna markvisst að uppbyggingu íslensks iðnaðar, sem allir eru sammála um að verði að taka við stórum hluta þeirrar fjölgunar sem berst inn á íslenskan vinnumarkað á næstu árum og áratugum. Ég nefni alveg sérstaklega við þetta tækifæri nauðsynina á því að afla fjármagns til vinnslustöðva í sjávarútvegi og landbúnaði og til uppbyggingar iðnaðar. Að sjálfsögðu eru svo einnig hinar nauðsynlegu framkvæmdir við íbúðarhúsabyggingar og opinberar framkvæmdir.

Þegar til lengdar lætur ræður það úrslitum um efnahag þjóðarinnar, að hún nýti auðlindir sínar sem allra best. Án þess er erfitt að bæta lífskjörin. Þá verður einnig að nota vinnuaflið, sem er ein dýrasta eign þjóðarinnar í bráð og lengd, til þess að skapa sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði. Þetta er raunar, eins og allir mega vita, stórigaldur góðrar afkomu. Að þessu markmiði ber að stefna með skipulögðum hætti.

Í lánsfjáráætlun ríkisstj. kemur fram, að útlán íbúðarlánasjóða munu aukast um 25.9% og atvinnuvegasjóða um 19.4% milli áranna 1977 og 1978. Auðvitað eru viðhorf manna til fjárfestingar í landinu misjöfn af ýmsum ástæðum. Ég er þeirrar skoðunar, eins og málum er nú háttað í okkar þjóðfélagi, þar sem menn hafa áhyggjur af vaxandi skuldasöfnun erlendis, að eðlilegt væri að aukningin í fjárfestingu íbúðarhúsabygginga og atvinnuvega væri nokkurn veginn svipuð frá árinu 1977 til 1978. Það er mjög þýðingarmikið að stuðla að aukinni gjaldeyrisöflun til þess að geta greitt upp hinar erlendu skuldir. Fyrir 220 þús. manna þjóð er 126 milljarða fjárfesting á árinu 1978 hreint ekki svo lítil. Þar er um að ræða mikla uppbyggingu, bæði á vegum hins opinbera og einnig í íbúðarhúsabyggingum og í atvinnulífinu. En það er afar áríðandi að þeir, sem stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar, geri sér ljóst að það er ákveðið samhengi milli fjárfestingarinnar í landinu annars vegar og þenslu og verðbólgu hins vegar. Ef fjárfestingin verður of mikil og ofbýður framkvæmdamætti þjóðarinnar, bæði hvað snertir vinnuafl og fjármagn, þá leiðir það til vaxandi verðbólgu í landinu. Á næsta ári er e.t.v. mest hættan fólgin í því, að launasprengingin, sem hefur orðið milli áranna 1977 og 1978, valdi svo mikilli eftirspurn innanlands að það hafi í för með sér talsverðan greiðsluhalla við útlönd.

1. gr, þessa frv., sem hér er til umr., heimilar fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að taka erlend lán á árinu 1978 að jafnvirði allt að 4 milljörðum 866 millj. kr.

2. gr. frv. kveður á um að þessu lánsfé skuli varið til framkvæmda í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir ári 1978. Hér er sem sé mörkuð sú stefna að erlendu lánsfé verði einvörðungu varið til opinberra framkvæmda og innan marka lánsfjáráætlunar, en fjárfestingarlánasjóðirnir verði að leita eftir fjármagni á innlendum markaði.

Fjármunamyndun landsmanna er í stærstu dráttunum þríþætt: Í fyrsta lagi fjárfestingar opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, í öðru lagi fjárfestingar í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins og í þriðja lagi bygging íbúðarhúsnæðis.

Eins og ég hef áður tekið fram, felst það í stefnu ríkisstj. samkv, fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun að afla ekki erlends lánsfjár til uppbyggingar í atvinnulífinu og til íbúðarhúsabygginga. Þess vegna er ekki um annað að ræða heldur en að litast um á inniendum markaði til þess að fjármagna þessa starfsemi. Byggingarsjóður ríkisins, lífeyríssjóðir landsmanna og að líkindum bankakerfið lána til íbúðarhúsabygginga í landinu. Samkvæmt lánsfjáráætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að fjárfesta í íbúðarhúsnæði um 31 milljarð kr. Ráðgerð fjárfesting í atvinnulífinu að öðru leyti er hins vegar samtals 53 milljarðar og 30 millj. Hvar á að afla fjármagns til þess að fjármagna ráðgerða fjárfestingu í atvinnulífinu og íbúðarhúsnæði, að upphæð samtals 84 milljarðar rúmlega? Ekki er mögulegt að ráðast í þessa fjárfestingu án verulegs lánsfjármagns umfram eigið framlag þeirra sem standa að fjármögnuninni.

Eigið fé íbúðarlánasjóðanna, þ.e. Byggingarsjóðs ríkisins, veðdeildar Landsbanka Íslands og Byggingarsjóðs verkamanna, er neikvætt um 676 millj. kr. Framlög og markaðir tekjustofnar eru hins vegar samtals 5 milljarðar 154 millj. Íbúðarlánasjóðir fá síðan lánaðar frá lífeyrissjóðunum 500 millj. af skyldusparnaði 2 milljarða 350 millj. og frá Atvinnuleysistryggingasjóði 927 millj. eða samtals 3 milljarða 777 millj. Lánsfjáráætlun gerir því ráð fyrir að íbúðarlánasjóðirnir hafi til ráðstöfunar á næsta ári 8 milljarða 255 millj. kr. Auk þess lána svo lífeyrissjóðirnir mikið fé til íbúðarhúsabygginga.

Hinir svonefndu atvinnuvegasjóðir, sem eru Stofnlánadeild landbúnaðarins, veðdeild Búnaðarbanka Íslands, Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður, Verslunarlánasjóður, Stofnlánadeild samvinnufélaga, Ferðamálasjóður, Lánasjóður sveitarfélaga, Iðnþróunarsjóður, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, veðdeild Iðnaðarbankans og Iðnrekstrarsjóður, hafa til ráðstöfunar á næsta ári eigið fé 3 milljarða 260 millj. kr. Framlög og markaðir tekjustofnar, sem renna til atvinnuvegasjóðanna, nema 6 milljörðum 22 millj., og þá er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir láni atvinnuvegasjóðunum 5 milljarða 335 millj., bankakerfið 1200 millj. og 350 millj. renni til þeirra af skyldusparnaði. Samtals er gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé atvinnuvegasjóðanna nemi 16 milljörðum 167 millj. kr, á næsta ári. Inni í þessum tölum eru Framkvæmdasjóður, sem lánar atvinnuvegasjóðunum, og Byggðasjóður, sem hefur mikla sérstöðu sem slíkur, þar sem hann sinnir samkvæmt lögum alveg ákveðnu verkefni, sem sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Stærstu fjárfestingarlánasjóðirnir eru Byggingarsjóður ríkisins og Framkvæmdasjóður Íslands, sem lánar einkum til uppbyggingar í atvinnulífinu, eins og ég sagði áður.

Ráðgert er að Framkvæmdasjóður geti lánað á næsta ári um 6 milljarða og 200 millj. kr. Fjáröflun á útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs verður væntanlega tekin fyrir á fundi í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins á morgun. Framkvæmdasjóður hefur til ráðstöfunar af eigin fé 400 millj. á næsta ári. Síðan er gert ráð fyrir að hann fái að láni hjá lífeyrissjóðakerfinu 4600 millj. kr, og hjá bankakerfinu 1200 millj., en þetta gerir samtals 6200 millj. sem sjóðurinn þarf á að halda til þess að geta fjármagnað þá fjárfestingu sem lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir: Eins og sakir standa er ekki auðvelt að koma auga á annað lánsfé til handa Framkvæmdasjóði á innlendum markaði.

Nú má heita að flestir Íslendingar, sem þiggja laun, greiði hluta af launum sínum í lífeyrissjóð, og til viðbótar kemur svo framlag frá atvinnurekanda. Á þennan hátt skapast geysimikið fjármagn sem fyrst og fremst er ætlað að nota til greiðslu lífeyris. Á árinu 1978 er reiknað með að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna, en til þess teljast vextir og afborganir að viðbættum iðgjaldatekjum, en að frádregnum lífeyrisgreiðslum, muni nema um 17 milljörðum kr. 3. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir því, að hverjum lífeyrissjóði, sem lögbundinn er eða nýtur viðurkenningar fjmrh., sé skylt að verja á ári hverju a.m.k. 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum með fullri verðtryggingu til langs tíma er Seðlabanki Íslands metur gilda. Hefur verið útbýtt brtt, frá hæstv. forsrh. varðandi 3. gr. frv., og flytur hann þessa brtt. að höfðu samráði við meiri hl. fjh.- og viðskn. Tilgangur laganna er fyrst og fremst að gera lífeyrissjóðunum kleift að greiða verðtryggðan lífeyri að sem stærstum hluta. Verðtrygging á útlánum sjóðanna styrkir stöðu þeirra og færir þá nær því marki að geta greitt lífeyrisþegum fullan verðtryggðan elli- og örorkulífeyri.

Í raun og veru er það meira en hæpið að skylda fólk til að leggja til hliðar af launum sínum verulegan hluta, eða yfirleitt 4%, til meira eða minna langs tíma, án þess að fólk geti treyst því að fá þetta fé til baka í formi annaðhvort ellilífeyris eða örorkulífeyris á nokkurn veginn sama verðgrundvelli og féð var reitt af höndum.

2, mgr. 3. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því marki, sem þarf til að lífeyrissjóðir geti fullnægt ávöxtunarákvæðum í 1. mgr., er fjmrn. skylt að hafa verðtryggð skuldabréf til sölu — bæði eigin skuldabréf og bréf Framkvæmdasjóðs Íslands og Byggingarsjóðs ríkisins — og skal andvirði bréfanna ráðstafað samkvæmt lánsfjáráætlun ríkisstj. Þá skal og öðrum stofnlána- og fjárfestingarsjóðum heimilt að gefa út og selja lífeyrissjóðum skuldabréf er fullnægja verðtryggingarákvæðum 1. mgr, að mati Seðlabanka Íslands.

Setja skal með sérstakri reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd og tímasetningu þessara skuldabréfakaupa innan ársins og skilgreiningu ráðstöfunarfjár.“

Í samræmi við lánsfjáráætlun ríkisstj, er talið fært að áætla lánsfjármagn frá lífeyrissjóðunum fyrir milligöngu hins opinbera er nemi 30% af ráðstöfunarfé þeirra, þ.e. 5100 millj. kr renni til Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs ríkisins til samans.

Með því að lána fjármagn til uppbyggingar atvinnulífsins eru lífeyrissjóðirnir að stuðla að því að auka atvinnu og treysta atvinnuöryggið í landinu, um leið og þeir eru að verðtryggja hluta af ráðstöfunarfé sínu.

Það er ljóst, að ekki er unnt að vinna skipulega að uppbyggingu atvinnuveganna í landinu án þess að þeir aðilar, sem að þessum verkefnum vinna, geti nokkurn veginn treyst fyrir fram á þá fjáröflun sem til þess þarf. Þar sem ákveðið hefur verið að atvinnuvegasjóðirnir skuli ekki taka nein erlend lán á næsta ári verða þeir að treysta á þessa fjáröflun. Ef hún bregst stöðvast uppbyggingin og framfarirnar og atvinnuöryggi verður í framtíðinni stefnt í hættu.

3, mgr. 3. gr., sem fjallar um það, að sett skuli með sérstakri reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd og tímasetningu þessara skuldabréfakaupa innan ársins og skilgreiningu ráðstöfunarfjár, Það er auðvitað ljóst, að atvinnuvegasjóðirnir þurfa að dreifa fjáröflun sinni samkvæmt áætlun yfir árið, og þess vegna nauðsynlegt að setja nánari reglur um hvernig þessi lánastarfsemi á að fara fram. En allt byggist þetta á samkomulagi við sjóðina.

Þegar málið var til meðferðar í fjh.- og viðskn. barst n. bréf frá nokkrum aðilum, sem ég vil geta um.

Í fyrsta lagi frá Sambandi almennra lífeyrissjóða. Ég sé ekki ástæðu til að lesa bréfið í heild, en í því kemur fram að framkvæmdastjórnin mótmælir harðlega allri lögbindingu á meðferð fjármagns lífeyrissjóðanna, jafnframt telur framkvæmdastjórnin, að lífeyrissjóðunum sé ofviða að kaupa verðtryggð skuldabréf af fjárfestingarsjóðunum fyrir a.m.k. 40% af ráðstöfunarfénu, og bendir á að biðtími eftir íbúðalánum frá þeim, sem öðlast hafa full lánsréttindi, er frá nokkrum mánuðum í allt að einu og hálfu ári.

Í öðru lagi barst bréf frá Landssambandi lífeyrissjóða, og þar kemur fram svipuð efnisafstaða til þessa máls.

Í þriðja lagi barst bréf frá Iðju, félagi verksmiðjufólks, sem á almennum félagsfundi mótmælir harðlega þeirri fyrirætlun ríkisvaldsins að krefjast 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna og skerða þannig verulega getu þeirra til að gegna hlutverki sínu í þágu launþeganna sem séu eigendur lífeyrissjóðanna.

Þessum aðilum, sem hafa skrifað n., er það öllum sameiginlegt um afstöðu, að þeir eru andstæðir því að það sé gert að skyldu að sjóðirnir ráðstafi 40% af ráðstöfunarfé sínu til verðtryggðra skuldabréfakaupa.

4. gr. frv. fjallar um heimild fyrir fjmrh.

fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast sjálfsskuldarábyrgðarlán sem Landsvirkjun tekur, að fjárhæð allt að 1500 millj, kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til fjármögnunar á kostnaði við byggingu 220 kw. háspennulínu frá Geithálsi í Hvalfjörð. Ráðh. er einnig samkv, þeirri grein heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán, er komi að hluta eða öllu leyti í stað ríkisábyrgðar samkvæmt 1. mgr., og endurlána Landsvirkjun með þeim kjörum og skilmálum sem hann ákveður. Það kemur ekki fram í lánsfjáráætlun, hvernig fjárfestingaráformum Landsvirkjunar er háttað á næsta ári. Þar kemur hins vegar fram mjög sundurliðuð grg. frá Rafmagnsveitum ríkisins. N. óskaði því eftir því við Landsvirkjun, að hún gerði grein fyrir því, í hverju fjárfestingar væru fólgnar á næsta ári. Þessi grg, hefur nú borist, og af því að þessi uppsetning er ekki í sjálfri lánsfjáráætluninni ætla ég að leyfa mér að lesa hana upp.

Það er greiðslu- og framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar 1978 í millj. kr. Það er inn: Úr rekstri 4383 millj., sjóðabreytingar og víkjandi lán 600 millj., erlend lán 1767 millj. Samtals 6750 millj. Og út: Afborganir og vextir 4 milljarðar 350 millj. Framkvæmdir: Sigölduvirkjun 700 millj., Hvalfjarðarlína 250 millj., Hrauneyjafossvirkjun 1350 millj, og annað 100 millj., eða samtals 2400 millj. Samtals verða þetta út 6750 millj. kr. Það verður ekki sagt um þá Landsvirkjunarmenn, að þeir séu smátækir í sambandi við sundurliðun á framkvæmdaáformum.

5. gr. frv. fjallar um það, að ríkissjóði verði heimilað til viðbótar heimildum samkv. lögum nr. 100 frá 1974, um Hitaveitu Suðurnesja, að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lán er Hitaveita Suðurnesja tekur til hitaveituframkvæmda, að fjárhæð allt að 1800 millj. kr. eða andvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Þessi framkvæmd Hitaveita Suðurnesja er gífurleg þjóðnytjaframkvæmd. Mig minnir að hæstv. iðnrh. hafi upplýst opinberlega að Hitaveita Suðurnesja muni spara um. 1000 millj. á ári hverju í gjaldeyri þegar hún er komin í gagnið.

Síðan er að lokum 6. gr. sem heimilar fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán erlendis í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga erlend lán ríkissjóðs þar sem lánstími er talinn of stuttur miðað við eðlilegan afskriftatíma þeirra mannvirkja sem fjármögnuð hafa verið með viðkomandi lánum.