20.12.1977
Efri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni frá hv. síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Austurl., vil ég segja það, að ekki deildi ég á embættismann og þá síst á óverðugan hátt — úr þessum virðulega ræðustóll, nema síður sé. Ég var að svara hv. 5. þm. Norðurl. v. sem gerði umrætt atvik að umræðuefni, og það vildi svo til að ég hafði í vasanum það sem ég skrifaði orðrétt eftir embættismanninum. Hann hafði allan tíma þann, sem hann óskaði eftir, til að svara fyrir sig á nefndarfundi í morgun. Hann gerði það á þann hátt sem hér hefur verið lýst. Ég deili ekki á þann embættismann, en ég vil óska eftir kurteisari embættismanni næst þegar embættismaður kemur frá Seðlabanka Íslands á fundi í fjh.- og viðskn. sem ég sit.

Ég minntist á það í lokaorðum mínum áðan, að ég hefði haft það á tilfinningunni þegar hv. frsm. fjh.- og viðskn. hélt framsöguræðu sína, að hann væri í mörgum orðum og lengstu framsöguræðu sem ég hef heyrt hann halda í þessari hv. d., að segja að nú væru allar dyr lokaðar, allir sjóðir tómir sem hingað til hafa verið opnir, og nú þyrfti að leita á ný mið. Þegar ég talaði um að ná í þá peninga sem ekki eru ríkiseign, þá var ég að tala um skyldusparnað og svo hitt, að hefta eðlilegan sjálfsákvörðunarrétt lífeyrissjóða. Þetta var það sem ég las út úr ræðu hans. Ég hafði þetta á tilfinningunni. Ég sagði ekki að laun hefði haldið því fram, það vil ég leiðrétta. Ég hef ekki verið óþægilegur að öðru leyti en því við afgreiðslu mála hér, að ég hef leyft mér, sem er kannske ekki ætlast til, að hafa sjálfstæðar skoðanir, eins og okkur ber öllum að hafa samkv. þeim eiði sem við höfum undirskrifað við inngöngu í hv. Alþingi. Ég er kannske of sjálfstæður í skoðunum, bæði fyrir hv. þm. og fleiri, en svona er ég.