12.10.1977
Neðri deild: 2. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Þetta þing, sem nú er nýkomið saman, er síðasta þing þessa kjörtímabils. Á næsta ári eru væntanlega tvennar kosningar, alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, enda þrautrætt á undanförnum árum og þá ekki síst undanförnum mánuðum, að ákvæði stjórnarskrár og kosningalaga um kosningar samrýmast ekki lengur þeim kröfum sem gera ber um lýðræðislega stjórnarhætti, og virðist ríkja í þessu efni víðtækt samkomulag milli manna úr öllum stjórnmálaflokkum.

Augljóst er að eins og mál hafa þróast eru áhrif kjósenda á skipan Alþingis orðin mjög misjöfn eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Núgildandi kosningareglur veita ekki heldur tryggingu fyrir því, að flokkaskipun á Alþ. sé í samræmi við þann vilja kjósenda sem fram kemur í kosningum. Mjög misjafnt gildi atkvæðisréttar kjósenda eftir því, hvar þeir eru búsettir, getur auðvitað ekki talist samrýmast lýðræðissjónarmiðum.

Þá hlýtur það og að teljast eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi, að flokkaskipan á Alþ. sé í eins nánu samræmi og mögulegt er við þann vilja kjósenda sem komið hefur fram í kosningum. Núgildandi reglur tryggja það hins vegar ekki með nægilegum hætti.

Þá hefur það og mjög verið rætt undanfarið, að það sé alvarlegur galli á núgildandi reglum um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, að kjósendur hafa mjög takmarkaðan rétt til þess að hafa áhrif á hverjir hljóta kosningu af einstökum framboðslistum. Af hálfu forustumanna allra flokka hefur því verið lýst yfir opinberlega, m.a. nýlega í sjónvarpsþætti, að þennan rétt ber að hafa sem mestan, enda virðist það sjónarmið njóta almenns stuðnings meðal kjósenda.

Til þess að ná þeim markmiðum, sem ég hef nefnt og býsna almenn samstaða virðist vera um í grundvallaratriðum, þ.e.a.s. að jafna og auka rétt kjósenda, þyrfti að breyta bæði stjórnarskrá og kosningalögum. Nú er það alkunna, að um nokkurra ára bil hefur sérstök nefnd, stjórnarskrárnefnd, starfað að tillögugerð um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Verkefni hennar er að sjálfsögðu miklu víðtækara en það sem ég hef hér gert að umtalsefni. Þar eð dráttur hefur orðið á því, að stjórnarskrárnefnd skili áliti, er eðlilegt að sú spurning vakni, hvort ekki sé ástæða til að sérstakri þingnefnd yrði falið að fjalla sérstaklega um þau mál er lúta að kosningum og rétti kjósenda, þannig að unnt væri að afgreiða þau á þessu síðasta þingi kjörtímabilsins. Ef sjónarmið meiri hl. Alþ. væri það, að ekki væri nægur tími til þess að gera breytingar á stjórnarskránni á því þingi sem nú er að hefjast, er þess að geta, að unnt er að gera ýmsar leiðréttingar varðandi þau atriði, sem ég hef hér gert að umræðuefni, með breytingum á kosningalögum einum. Til þess ætti tvímælalaust að vera nægilegt tóm á þessu þingi. Það er m.ö.o. hægt að gera breytingar, sem leiddu til aukins lýðræðis frá því sem nú er, með breytingum á kosningalögunum einum. Hins vegar ber ekki að gera slíkar breytingar án þess að freistað hafi verið að ná um þær sem víðtækustu samkomulagi innan Alþingis.

Þingflokkur Alþfl. hefur rætt þessi mál ítarlega nú við upphaf þessa þings. Hann telur ekki rétt að flytja nú þegar frv. um tilteknar breytingar á gildandi skipan. Þær breytingar, sem gerðar yrðu á stjórnarskrá eða kosningalögum einum, eiga að dómi þingflokks Alþfl. að vera niðurstaða ítarlegra umr. og sem víðtækasts samkomulags milli þingflokka. Þess vegna hefur þingflokkur Alþfl. samþ. að beina fsp. um það til hæstv. forsrh., hvort hæstv. ríkisstj. hafi fyrirhugað að þau mál, sem ég hef gert að umtalsefni, komi til kasta þessa þings svo tímanlega að unnt ætti að vera að afgreiða þau á þinginu. Þingflokkur Alþfl. mundi fagna yfirlýsingu hæstv. forsrh. um að ríkisstj, vildi beita sér fyrir því, að allir þingflokkarnir settust á rökstóla til þess að ræða hvers konar ráðstafanir væri unnt að gera á þessu þingi til aukins lýðræðis í sambandi við úrslit næstu kosninga, bæði að því er það snertir að jafna kosningarrétt með tilliti til búsetu og tryggja kjósendum úrslitaáhrif á hverjir hljóta kosningu á einstökum framboðslistum. Í slíkum viðræðum mundi þingflokkur Alþfl. leggja fram ákveðnar till. um hvernig hann teldi unnt að gera breytingar í þessa átt. Hafi ríkisstj. hins vegar ekki rætt þessi mál og sé ekki reiðubúin til að hafa nú í byrjun þings forgöngu um að viðræður allra þingflokka hefjist um þetta mál, mun Alþfl. flytja till. til þál., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Alþingi ályktar að fela n. 5 manna, sem skipuð sé fulltrúum þingflokkanna, að semja frv. um breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum, sem feli það í sér, að kjósendur hafi sem jöfnust áhrif á skipan Alþingis án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir eða hvaða flokk þeir kjósa, og þeir hafi úrslitaáhrif á hverjir hljóta kosningu af einstökum framboðslistum.“

Þar eð þingflokkur Alþfl. telur að hér sé ekki um að ræða þess konar mál sem venjulega eru nefnd flokksmál, kysi hann helst að hæstv. ríkisstj. hefði nú þegar í upphafi þings forgöngu um að þingflokkarnir hæfu viðræður um þessi mál til að leiða í ljós um hvaða ráðstafanir í umræddu skyni gæti náðst sem víðtækast samkomulag. Þess vegna er fsp, mín til hæstv. forsrh. sú, hvort hæstv. ríkisstj. sé reiðubúin að beita sér fyrir því nú við upphaf þessa þings, að samráð hefjist milli þingflokkanna um breytingar sem feli í sér að kjósendur hafi sem jöfnust áhrif á skipan Alþ. án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir eða hvaða flokk þeir kjósa, og að þeir hafi úrslitaáhrif á hverjir hljóta kosningu af einstökum framboðslistum.