26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Hv. 4, þm. Norðurl. v. hefur gert grein fyrir till. til þál. um það, að ríkisstj. verði falið að hlutast til um að viðskiptabankar greiði rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins beint til bænda. Hv. þm. hefur flutt talsvert langt mál till. sinni til stuðnings, og finnst mér í fljótu bragði að þar gæti nokkurs misskilnings sem ég vil freistast til að reyna að leiðrétta. Hins vegar veit ég að vísu, að þegar menn hafa bitið sig í ákveðnar skoðanir, þá er ég alls ekki einn um það að vera ekki tilbúinn til þess að láta af þeim snarlega, og það kann að fara svo með hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, að hann láti ekki sannfærast af fáum orðum einum í þessu efni.

Mér datt í hug, þegar hv. þm. Eyjólfur Konráð gat þess réttilega að haldnir hefðu verið margir fundir um vandamál landbúnaðarins á undanförnum mánuðum, að ég man ekki eftir því, enda reyndar ekki sérstaklega eftir því leitað í samþykktum þeirra funda, að þeir snerust um það að óska eftir því, að afurða- og rekstrarlán væru greidd beint til bænda. Það kann að vera að einhver rödd hafi komið upp um það, en það hefur áreiðanlega ekki verið þungamiðjan í þessum umr., enda er það svo í því héraði þar sem ég er kunnugastur, að ég hef ekki heyrt eina einustu rödd um þetta efni. Þar er það venjulega svo, að afurðasölufélögin eru í höndum bænda. Það eru bændur sem stjórna þeim að mjög miklu leyti, og það er fyllilega í samræmi við óskir þeirra og vilja, að afurðalán og rekstrarlán eru greidd með þeim hætti sem er. Og það er langt frá því að þessi lán séu tafin í höndum afurðasölufélaganna. Hitt er miklu algengara, þar sem ég þekki til, — það kann að vera eitthvað öðruvísi þar sem hv, þm. Eyjólfur Konráð þekkir best til, en það er miklu algengara að þessi afurðasölufélög láni og séu búin að lána þessi lán viðskiptavinum sínum áður en þau berast í hendur þeirra. Það er miklu algengara. Og ég er alveg sannfærður um það, að ekki mundi greiðast hagur bænda hvað þetta varðar, þó að væri ætlast til að þessar uppbætur væru greiddar beint til þeirra, einfaldlega vegna þess að þeir þurfa og verða a.m.k. þar sem eru sameiginleg afurðasölufélög og verslunarfélög, að öðru leyti að hafa viðskipti sín við þessa aðila, og það er mjög oft svo að þessir aðilar sjá sér fært að lána viðskiptavinum upp á væntanlegar greiðslur í þessu efni. Það kann að vera að um þetta gegni eitthvað öðru máli þar sem afurðasölufélögin eru aðskilin frá þeim félögum sem útvega bændum rekstrarvörur og vörur til heimilisþarfa, en þó efast ég um að þar þurfi að vera mikill munur á. Þess vegna er ég ekki trúaður á það að þetta sé úrlausn til lausnar á neinum vanda, þó að afurðalánunum og rekstrarlánunum yrði komið beint til bændanna. Þau fara það, eftir því sem ég veit best með, að vísu þessari viðkomu hjá afurðasölufélögunum, en eins og ég sagði áðan, er þó mjög algengt að búið sé að lána út á þessa fjármuni fyrir fram.

Ég vil gjarnan að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson leiðrétti mig, ef ég fer þar með rangt mál, að bændur hafi ekki gert það að neinu aðalatriði í óskum sinum um úrbætur á ýmsum stórum vandamálum, sem þeir eiga í, að afurðalánin yrðu greidd á þennan hátt.

Hitt er svo annað mál, að ýmislegt, sem kom fram í ræðu hv. þm., er fullrar athygli vert. Það er rétt, að það er mikil nauðsyn á því að hækka afurðalán og rekstrarlán til landbúnaðarins. Ég hygg að það væri ein besta kjarabót, sem bændur gætu fengið nú, ef hægt væri að greiða fullt verð fyrir þessar vörur við afhendingu. Það er því miður ekki eins og er, og það stafar af því, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að vörurnar eru teknar í umboðssölu og vörudreifingaraðilarnir, og þá á ég við afurðasölufélögin, verða oft að liggja raunverulega lengi með þessar vörur, og þau afurðalán, sem hafa verið veitt til þess að greiða upp í þessar vörur, hafa ekki verið nægilega há til þess að afurðasölufélögin gætu tekið á sig muninn sem er á afurðalánunum annars vegar og því verði hins vegar sem bændur eiga að fá.

Ég get vel sagt það hér, að ég er mjög ákveðinn stuðningsmaður þess, að áfram verði hafður sá háttur á, að landbúnaðarafurðir verði í umboðssölu þeirra aðila sem taka á móti þeim til dreifingar, og þar á ég við bæði mjólkursamlög og sláturfélög. Ég tel æskilegt fyrir þjóðfélagið í heild, að bændur beri ábyrgð á þessum fyrirtækjum. Ég er þeirrar skoðunar, að ábyrgð bænda á þessum fyrirtækjum hafi gefist þjóðinni vel, og það má m. a, marka af því, að hár á landi er hlutfallslega lægri kostnaður við vinnslu, dreifingu og sölu landbúnaðarvara en yfirleitt gerist í öðrum nágrannalöndum. Það hefur verið mjög algengt að undanförnu, þó að ég hafi ekki um það alveg nákvæmar tölur, að bændur hafi fengið í kringum 70% og oft rúmlega 70% af því verði sem neytandinn greiðir, og það er mjög hagstætt verð hlutfallslega. Viða fer miklu stærri hluti þess verðs, sem neytandinn þarf að greiða, til dreifingaraðilanna heldur en hér. Þetta tel ég sönnun þess, að þegar á heildina er litið hafi dreifingaraðilarnir staðið sig vel, og eins og ég sagði áðan starfa þeir líka yfirleitt á ábyrgð bænda. Bændur fylgjast vel með starfsemi þessara félaga og stjórna þeim í aðalatriðum, og öllum þeim, sem að þessum málum vinna, er ljóst, að það er ekki einungis hagsmunamál neytenda, heldur líka bænda, að vinnslu- og dreifingarkostnaður sé sem lægstur og sem mest af því verði, sem neytandinn greiðir fyrir vöruna, komi í vasa framleiðandans. Hitt er svo annað mál, að oft finnst manni sem þessi kostnaður gæti verið lægri. En ég vil bara spyrja, hvort þetta sé eini staðurinn í þjóðfélaginu sem þörf væri á að athuga hvort endurbætur væru hugsanlegar. Það er rétt, að slátrunarkostnaður t.d. er mjög mikill, bæði reyndar í nýjum og gömlum húsum, en alveg sérstaklega í þeim húsum sem byggð eru með fyllstu tækri og fyllstu möguleika til hreinlætis í huga.

Rekstur sláturhúsa hér á landi hlýtur alltaf að vera erfiður, einfaldlega vegna þess hve sá tími sem húsin eru rekin er stuttur. Það er þess vegna ekki um að ræða yfirleitt langþjálfað starfslið sem starfar við sláturhúsin, og þegar atvinnuástand er jafngott og það er núna og hefur verið að undanförnu, þá verður sífellt erfiðara að fá menn úr góðum störfum til þess að koma stuttan tíma í sláturhús og vinna þar. Þess vegna eru mikil brögð að því, því miður, að nýtt fólk kemur til starfa á hverju hausti í sláturhúsunum að meira eða minna leyti, og það þarf langan tíma til þess að venjast vinnubrögðum svo að bæði náist full afköst og fullkomlega góð meðferð vörunnar. Þetta er vandamál sem við hljótum að eiga við að glíma hjá sláturhúsunum.

Þetta sama á ekki við um mjólkursamlögin. Þar vinnur sama starfsfólkið allan ársins hring og oft ár eftir ár, enda er það svo að við höfum náð ágætum tökum á framleiðslu mjólkurvara, þannig að hvað gæði snertir eru þær vörur fullboðlegar hvar sem er. Það kann að vera svo, að vinnsla þessara vara sé dýrari hér en í sumum nágrannalöndum, um það þori ég ekki að fullyrða, en hitt get ég aftur á móti sagt, að jafnvel þó að hér væru ekki hærri vinnulaun en í þeim nágrannalöndum, sem borið er saman við, þá getur ýmis önnur aðstaða slíkra fyrirtækja verið með öðrum hætti. Og það þekkja allir, sem á það vilja hlusta, að í sumum nágrannalöndum okkar hefur ýmsum iðnaðarfyrirtækjum verið gert auðveldara um starfrækslu heldur en hér hefur verið. Hins vegar er ákaflega erfitt að ætla sér að bera saman verð á okkar mjólkurvörum og mjólkurvörum nágranna okkar. Það er alls staðar þar sem ég þekki til í nágrenninu, að landbúnaður er styrktur á einn eða annan hátt, sums staðar mjög mikið og viða miklu meira en hér, Við getum ekki búist við því t.d., að við getum keppt á heimamarkaði Svía, svo að tekið sé dæmi, um sölu á osti, þar sem hvort tveggja er, að mjólkurframleiðslan er styrkt í verulegum mæli og þar að auki háir verndartollar á þeim ostum sem við flytjum til Svíþjóðar. Mér er ekki kunnugt um það nákvæmlega, hvað það er núna, en fyrir skömmu var tollur á hvert kg milli 5 og 6 kr. sænskar á hvert kg af gondaosti, sem er fluttur þangað aðallega, og það er mjög veruleg upphæð.

Hv. þm. kom hér aðeins að greiðslu útflutningsbóta, Ég vil taka undir það, að þó að við höfum haft ákveðið form á þessum svokölluðu útflutningsbótum, sem er aðalstyrkurinn sem bændur fá til framleiðslu sinnar, — ég tel að útflutningsbæturnar megi kalla styrk við landbúnað, — þó að þetta fyrirkomulag hafi verið haft á greiðslu útflutningsbóta, þá er ekki endilega vist að við þurfum alltaf að hafa sama fyrirkomulagið. Við eigum vitanlega að vera opnir fyrir nýjungum, ef þær eru líklegar til þess að þjóna þeim hagsmunum og þeim tilgangi sem við viljum á hverjum tíma þjóna með greiðslu fjármuna af þessu tagi. Ég hygg að það geti komið mjög til greina að greiða útflutningsbætur beint til bænda, og það væri hugsanlegt að nota slíkt fyrirkomulag til þess að stýra framleiðslu að einhverju leyti. Hinu er svo ekki að neita, að slíkt fyrirkomulag yrði talsvert þungt í vöfum. Þó væri það barnaleikur, eða a.m.k. hægt að hafa það svo einfalt að það yrði barnaleikur, miðað við það að ætla að fara að greiða rekstrarlán hverjum bónda eftir því magni afurða, sem hann leggur inn, og greiða slíkt kannske mánaðarlega tímunum saman. Ég held að það sé mikill misskilningur, að slíkt fyrirkomulag yrði einfalt og ódýrt í sniðum, og ég trúi ekki að óreyndu að það væri þægilegra fyrirkomulag að því leyti. En ég vil alls ekki útiloka hitt, að reynt yrði að átta síg á því, hvort ekki er rétt að leita nýrra leiða í sambandi við verðbætur vegna útflutnings landbúnaðarvara.

Hv. þm, vildi ekki kalla útflutningsbætur styrki. Það má um það deila, hvað kallað eru styrkir. Ég hef engan sérstakan áhuga á því að kalla útflutningsbætur styrki til bænda. En hitt finnst mér alveg ástæðulaust, að við lokum augunum fyrir því, eins og ég sagði áðan, að landbúnaður þeirra fanda, þar sem, við seljum vörur okkar, er styrktur í stórum stíl, og það er einmitt vegna þessara styrkja sem við eigum erfitt með að fá það verð, sem okkur dugar, fyrir útflutningsvörurnar. Mjög gott dæmi um þetta er lambakjötið okkar sem við seljum til Noregs, Mér er tjáð, án þess að ég hafi fyrir því óyggjandi staðfestar tölur, að á s.l. hausti hafi bændur í Noregi fengið sem svarar 4000–4500 kr. meira fyrir það sem við köllum meðaldilk heldur en íslenskír bændur. Á sama tíma seljum við lambakjöt til Noregs og fáum þar tæplega helming af því verði sem við þyrftum að fá tif að geta skilað fullu verði til íslenskra bænda. Hvernig stendur á þessu? Einfaldlega er ástæðan sú, að Norðmenn greiða stórfellda styrki til sinnar lambakjötsframleiðslu, Það er a.m.k. meginskýringin. Og það verð, sem Norðmenn greiða okkur fyrir dilkakjöt, er sama verð og þeir greiða sínum bændum; þegar styrkirnir hafa verið dregnir frá. Þeir greiða okkur reyndar hærra verð en þeir þurfa að greiða fyrir nýsjálenska lambakjötið, sem er mjög ódýrt. Ef við gætum verslað við Norðmenn með lambakjöt á sama grundvelli og þeir versla við okkur með ýmsar iðnaðarvörur, þá hygg ég að við þyrftum ekki að kviða útflutningsbótum á íslenskt lambakjöt. Það er eftirsótt vara í Noregi, og ef við gætum selt það þar á frjálsum markaði við hlið hins norska lambakjöts, þá hygg ég að við þyrftum ekki að kvíða því að nota stórfé til útflutningsbóta á lambakjöt selt í Noregi. En því miður er þessu ekki svona varið. Við höfum mikil verslunarviðskipti við Noreg og þau eru miklu stærri á þá hlið að við kaupum af þeim varning og þá fyrst og fremst ýmsar iðnaðarvörur sem við víssulega gætum framleitt margar sjálfir. Við seljum þeim lítið af vörum. Langstærsti útflutningsliðurinn til Noregs, eftir því sem ég best veit, er lambakjötið, sem þeir greiða okkur meira en helmingi lægra verð fyrir heldur en það kostar þá að framleiða svipaða vöru og þó alls ekki eins góða, að því er talið er, í sínu eigin landi.

Herra forseti. Það væri auðvitað ástæða til þess að ræða hér meira um landbúnaðarmál. Þau hafa verið mjög í sviðsljósi að undanförnu. Ég tel þó ekki ástæðu til að lengja þetta mál að ráði. Ég get gjarnan lýst því yfir, að ég álit það ekki spor til betri áttar að taka upp þann hátt að greiða bændum afurða- og rekstrarlán beint, einfaldlega vegna þess að það er leitun á þeim bændum a.m.k. sem kæra sig nokkuð um það, og áreiðanlega leitun á þeim bændum, sem þetta skiptir nokkru máli hagsmunalega séð, vegna þess að þessir aðilar, sem hafa tekið að sér að taka lánin fyrir þá, standa skil á þeim til bændanna jafnóðum og þeir fá þau, Ég álít að þetta fyrirkomulag yrði miklu þyngra í vöfum, það yrði mjög fyrirhafnarsamt að fylgjast með því, hvaða framleiðsluvörur bændur gætu veðsett á hverjum tíma, það hlyti að verða óþægilegt í framkvæmd að ætla að fara að taka veð hjá hverjum einstökum bónda fyrir þessum lánum, og yfirleitt sýnist mér að þessi till, sé alls ekki tímabær og horfi ekki til neinnar jákvæðrar áttar.

Ég tel að á hverjum tíma sé nauðsynlegt að hafa svo gott eftirlit með rekstrarkostnaði fyrirtækja, sem vinna í þágu almennings, sem frekast er kostur, og þar vil ég alls ekki undanskilja mjólkursamlög og sláturhús frekar en önnur fyrirtæki í landinu. Hitt bygg ég þó, að einmitt þessar stofnanir séu undir meiri gagnrýni almennings heldur en fjölmörg önnur fyrirtæki sem vissulega vinna þó fyrir allt fólkið í landinu. Og þessi gagnrýni kemur bæði frá neytendum og einnig frá framleiðendum, sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í því efni, að þarna sé ekki bruðlað með fjármuni. Þessi gagnrýni og þetta eftirlit kemur líka fram í sexmannanefnd, sem verðleggur landbúnaðarvörur og fylgist með kostnaðarbreytingum hjá sláturhúsum og mjólkursamlögum eftir því sem frekast er kostur. Það má geta þess hér t.d. í sambandi við verðlagningu mjólkur, að það eru aldrei gerðar breytingar á milliliðakostnaði á verði mjólkur og ekki heldur náttúrlega sauðfjárafurða öðruvísi en fram hafi komið ýmist rökstuddir reikningar eða rökstuddar áætlanir um breytingar á kostnaði. Það er því miður svo með sláturhúsin, að þar er of seint að breyta kostnaði eftir að sést hefur hver hann verður. Þar verður að byggja á áætlunum, og yfirleitt hafa þær áætlanir verið nokkuð nálægt lagi, þó að það hafi oft komið fyrir að bændur hafi orðið að taka á sinar herðar einhvern hluta af þessum milliliðakostnaði, vegna þess að hann hafi verið áætlaður of lágur. Hitt hefur líka aðeins komið fyrir, að bændur hafi notið góðs af betri rekstri heldur en áætlað hafði verið í upphafi. En þess mega menn ekki ganga duldir, að með því fyrirkomulagi, sem við höfum, ber bóndinn ábyrgð á þessum rekstri og það kemur niður á fjárhag bóndans, annaðhvort sem lakara verð eða hærra verð, hvernig rekstur einstakrar vinnslustöðvar fer úr hendi.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.