26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

118. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í þessar umr. um landbúnaðarmál sem ég hef fylgst með af miklum áhuga, Það hefur margt komið fróðlegt fram og fróðlegt að heyra afstöðu hinna ýmsu áhugamanna um landbúnaðarmál á Alþ. Það, sem kemur mér til að rísa hér upp, er aðeins það, að er ég tók að glugga í tölur á þskj. 140, sem er nú til umr., kom ég ekki heim og saman fullyrðingu hv. þm. Ragnars Arnalds um að skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana við Seðlabankann hefðu aukist verulega á seinustu þremur árum miðað við það sem gerðist á dögum vinstri stjórnar. Þar kemur fram, að í árslok 1971 var skuldastaða ríkissjóðs 512 millj. kr., í árslok 1972 234 millj., hefur lækkað nokkuð, í árslok 1973 1440 milljónir og í sept. 1974 er talað um að staðan hafi verið 4638 millj. Eftir því sem mér reiknast til — ég er nú léleg reikningsmanneskja, en mér finnst þetta auðvelt reikningsdæmi — þá hefur þessi skuldastaða aukist þrefalt í tíð fyrrv. ríkisstj. en ef við tökum aukninguna frá árslokum 1972 til sept. 1974 hefur hún tæplega tuttugufaldast, þar vantar lítið á. Hún þrefaldaðist í tíð núv. ríkisstj., en á dögum vinstri stjórnarinnar, á þremur árum þá, tæplega tuttugufaldaðist hún. Sé þetta rangt, þá bið ég hv. þm. að leiðrétta mig, en sé það rétt, sem ég er að vona, þá er hér allhastarlega hallað réttu máli.