01.02.1978
Efri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

149. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frv. sem ég er efnislega samþykkur. Það er gleðilegt að sjá að það skuli vera vaxandi fylgi við það, að kosningarréttur sé miðaður við 18 ár. Þetta er gamall draumur, sem ég veit að ýmsir fleiri í Alþfl. en ég hafa alið. Ég vil upplýsa það, að ég var flm.till. á þingi samtaka ungra jafnaðarmanna þegar 1960, þingi sem háð var í Keflavík, þar sem ég talaði fyrir því, að kosningaaldur bæði til Alþingis og sveitarstjórna ætti að miðast við 18 ára aldur. Þessi ályktun var send út. Ónefnd önnur æskulýðssamtök gerðu feikilegt grín að slíkum draumórum, og má vitna í dagblaðaskrif því til sönnunar. En ég ætla ekki að rifja það upp hér, nema tilefni gefist síðar í umr. eða seinna við afgreiðslu þessa máls.

Menn tóku þessu sem sagt mjög misjafnlega. Þá var kosningaaldur nokkru hærri en nú. Það hefur jafnan verið svo í Alþfl., að við höfum talið rétt að 18 ára aldurinn væri þau aldurstakmörk er þessi og mörg önnur réttindi í þessu þjóðfélagi ættu að miðast við, jafnt handa körlum og konum.

Það mætti rekja langa sögu um kosningaaldur í íslensku þjóðfélagi, en það ætla ég ekki að gera. Það kom fram í framsöguræðu flm,. að her er um tvenns konar rétt að ræða til kosninga, þ.e. samkv, 33. gr. stjórnarskrárinnar til Alþ. og samkv. 18. gr. sveitarstjórnarlaga til sveitarstjórnarkosninga.

Hv. þm. minntist á frv. sem liggur fyrir í Nd. Það gengur aðeins út frá því að veita mönnum, sem eru 18 ára, þennan rétt til sveitarstjórnarkosninga, vegna þess hve seint hefur gengið að koma þessum réttindum í gegn, sem við teljum eðlilegt núna, tveir stjórnmálaflokkar, að 18 ára fólk fái, og ég vænti þess að fleiri hv. þm. séu sömu skoðunar. Það er orðið tímabært að þetta náist fram, og það er einmitt tækifæri núna, eins og flm. sagði, að samþykkja þetta strax og ná því í gegnum þessar kosningar sem fyrst.

Ég tel ekkert því til fyrirstöðu, að menn veiti fólki 18 ára rétt til sveitarstjórnarkosninga nú og samþ. Það frv. sem liggur fyrir Nd. Ég tel því ekkert til fyrirstöðu. Það er oft svo um kjarabaráttu sem þetta er í sjálfu sér, og hún náist í áföngum. Það væri hins vegar skemmtilegra að geta veitt þetta í einu, en það tekur aðeins lengri tíma vegna eðlis málsins.

Þetta mál hefur verið flutt áður hér í þingsölum á margra ára tímabili og oft af fulltrúum Alþfl., en hefur ekki þokast lengra en það, að nú er kosningaréttur til Alþingis bundinn við 20 ár. Alþfl. setti það þegar í stefnuskrá sína 1963 að berjast fyrir 18 ára kosningarétti hér á Alþ., og hafa verið flutt um það frv. Árið 1974 tók flokkurinn sérstaklega upp aftur baráttu fyrir að tryggja 18 ára aldri kosningarétt. En þetta hefur gengið grátlega seint. Það er rétt hjá flm., að þessi réttur er fyrir hendi víða erlendis, og hví skyldi hann ekki vera hér á Íslandi þar sem ég tel ekki goðgá að fullyrða að einmitt hér á Íslandi séu stjórnmálasamtök ungs fólks mjög lífræn og fylgist mjög vel með og jafnvel mun meira en gerist erlendis. Ég vænti þess því, að þetta frv, fái góðar undirtektir og þetta mál þokist nú ákveðið að því marki, sem frv. gengur út frá, að kosningaaldur til Alþingis verði bundinn við 18 ára aldursmarkið.

Hins vegar mætti varpa þeirri hugmynd fram, hvort ekki væri hægt að miða miklu fleira í þessu þjóðfélagi við 18 ára aldurinn og gera hann að því tímabili í ævi mannsins er almennur réttur er veittur samkvæmt stjórnarskrá landsins og samkvæmt margvíslegri annarri löggjöf. Það er slæmt að hafa þessa aldursskiptingu misjafna eftir kynjum, og það væri mikið framfaraspor ef þm. gætu sameinast um að miða mörg réttindi í þessu þjóðfélagi við 18 ára aldurinn og gera þar ekki greinarmun á milli kynja.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góða afgreiðslu í n. og fái samþykki hér á þinginu, svo það geti tekið gildi sem fyrst.