01.02.1978
Neðri deild: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

125. mál, virkjun Blöndu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Vegna fsp. hv. 4. þm. Reykv. nú í lok ræðu hans vil ég taka fram, að þau ummæli, sem ég hafði um hversu lengi muni nýtast orka og afl Hrauneyjafossvirkjunar, eru byggð á þeirri orkuspá sem nýlega hefur verið samin, og þar er ekki gert ráð fyrir nýrri stóriðju. Ég held að það komi fram í grg. með orkuspánni.

Hv. þm. gerði vissar aths. í sambandi við þetta mál sem voru mjög málefnalegar. Ég vil þakka honum fyrir ábendingar sem hann gaf mér af sinni miklu reynslu. Sérstaklega var það sú ábending að vara mig nokkuð við því að feta um of í fótspor fyrrv. iðnrh., þ.e.a.s. iðnrh. vinstri stjórnarinnar. Ég mun að sjálfsögðu taka hana til athugunar að öllu leyti, því að hv. þm. talar þar af reynslu og þekkingu.

En það eru tvö atriði, sem hv. þm. nefndi, sem vissulega er ástæða til að íhuga. Annað er það, að rannsóknum væri ekki að fullu lokið á Blönduvirkjun og réttara væri að ljúka öllum slíkum rannsóknum og að mér skilst þá fullnaðarhönnun verksins, áður en yrði samþ. heimild á Alþ. til virkjunar. Í þessu sambandi er rétt að minnast á það, hver hefur verið venja á Alþ. í þessum efnum, ekki í sambandi við eina virkjunarheimild, heldur almenn venja í áratugi. Venjan hefur verið sú, að þegar ítarlegar rannsóknir hafa farið fram á einhverjum virkjunarmöguleika og þær athuganir benda til þess ótvírætt, að um hagkvæma virkjun sé að ræða, og rannsóknum það langt á veg komið, að hægt er að áætla afl orku og heildarkostnað og m.a. kostnað við hverja kwst., þá hafa ríkisstj. lagt fram frv. fyrir Alþ. um heimild til slíkrar virkjunar, þó að fullnaðarhönnun lægi ekki fyrir. Þannig var þetta á sínum tíma um virkjanir Sogsins, um Laxárvirkjanir, og þannig hefur það verið einnig um virkjanir á vegum Landsvirkjunar. Þannig var það á þingi 1970–1971, að samþykkt voru lög um heimild fyrir iðnrh. til þess að veita virkjunarleyfi bæði fyrir Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun. Athuganir lágu þá fyrir sem bentu alveg ótvírætt til þess, að báðar þessar virkjanir væru mjög hagkvæmar. Hins vegar voru þá ekki til fullnaðarhannanir af þessum virkjunum. Síðan hefur verið lokið öllum slíkum rannsóknum og virkjunarleyfi veitt.

Frv. um heimild til virkjunar Blöndu er alveg á sama veg og í samræmi við þessa áratugavenju. Þó að rétt sé að nokkrar rannsóknir séu enn ógerðar í sambandi við Blönduvirkjun, þá eru það ekki rannsóknir sem hafa nein áhrif á það, að þessi virkjun er með þeim allra hagstæðustu sem um er að ræða á Íslandi. Rannsóknum öllum og áætlanagerð er það langt komið, að það er óhætt að fullyrða að þessi fyrirhugaða Blönduvirkjun er óvenjulega hagstæð virkjun. Þær rannsóknir, sem talað er um að eftir séu, snerta fyrst og fremst vissar boranir sem gætu sagt til um það, hvort stöðvarhús ætti að reisa á þessum stað eða öðrum á nokkru svæði sem til greina kemur. Það eru slíkar athuganir sem þarf að gera og verja nokkru fé til, áður en stöðvarhúsi verði endanlega valinn staður. En það breytir engu um það, að nægar rannsóknir liggja fyrir til þess að fullyrða að hér er um mjög hagkvæma virkjun að ræða. Af þessum ástæðum, sem ég nú hef greint, tel ég ekki ástæðu til að fresta afgreiðslu málsins á Alþ. á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir nægar rannsóknir.

Hitt atriðið, sem hv. þm. benti á, var að ekki væri ákveðinn virkjunaraðili sem gert væri ráð fyrir að hefði þessa virkjun með höndum. Vissulega er þetta athyglisverð ábending. Eins og kunnugt er, hafa Norðlendingar eða Fjórðungssamband Norðurlands óskað eftir því, að stofnað yrði sérstakt fyrirtæki, Norðurlandsvirkjun. Það hefur af ýmsum ástæðum dregist. Ekki hefur verið um það slík samstaða þar nyðra sem var á Vestfjörðum um stofnun Orkubús Vestfjarða, þar sem öll sveitarfélög á Vestfjörðum voru á einu máli. Mér finnst sjálfsagt að taka þessa aths. hv. þm. til athugunar. Ef menn vegna óvissunnar um Norðurlandsvirkjun vilja ekki hafa ákvæði um hana í þessu frv., heldur ákveða, hver eigi að vera virkjunaraðili, þá er náttúrlega ein stofnun sem fyrst og fremst kemur til greina að mínu áliti, og það eru Rafmagnsveitur ríkisins sem þegar hafa haft með höndum ýmiss konar virkjunarframkvæmdir. Mér finnst að vel kæmi til mála að ákveða í frv. að sú stofnun, það fyrirtæki, skuli framkvæma þessa virkjun. Hv. þm. nefndi aðra ágæta stofnun, Landsvirkjun. Henni er markað ákveðið svæði, sem leiðir líka af því, hvernig það fyrirtæki er uppbyggt. Það er kunnugt að Reykjavíkurborg á helming þess fyrirtækis, og gert er ráð fyrir að það fyrirtæki starfi hér á Suðvesturlandi fyrst og fremst. Það er náttúrlega atriði sem má ræða og athuga hvort menn vilja færa út starfsemi Landsvirkjunar, þ.e.a.s. sameignarfélags ríkis og Reykjavíkurborgar, þannig að Reykjavíkurborg standi sem helmingsaðili að virkjunum í öðrum landshlutum. En á þessari stundu væri eðlilegra, ef menn vilja hafa ákveðinn virkjunaraðila í lögunum, að það væru Rafmagnsveitur ríkisins.

Ég tel sjálfsagt að í hv. iðnn., sem fær þetta mál til athugunar, verði þessar ábendingar hv. þm. teknar til meðferðar.