06.02.1978
Efri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

166. mál, viðskiptabankar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er óneitanlega stundum svo, að þegar mönnum tekst að búa til slyng slagorð hafa þau sín áhrif, og það var auðheyrt á máli hv. síðasta ræðumanns, að hann hefur orðið fyrir nokkrum áhrifum af því slagorði sem farið hefur hér um landið og kallast ,.báknið burt“. Nú getum við verið sammála um það — (Gripið fram í.) Nei, nei, nei, báknið burt. En það er nú annars staðar ættað en frá hv. síðasta ræðumanni. En við getum verið sammála um það, að æskilegt sé, innan vissra marka þó, að halda ríkisumsvifum í skefjum. Hins vegar held ég að það verði að viðurkenna, að nauðsynlegt sé að hið opinbera haldi uppi ýmiss konar þjónustustarfsemi.

Ég get ekki séð að það sé neitt óeðlilegt, þó að því sé vísað til þn. að taka vissa þætti máls til athugunar. Ég held þvert á móti að ég hafi heyrt oft að því fundið á þessu háa Alþ., að þessari stofnun sé aðeins ætlað að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj., það séu lögð mál fram á þingi og svo sé þess krafist að þau séu afgreidd umsvifalaust og í því formi sem ríkisstj. hefur lagt þau fram. Þessu er ekki til að dreifa með þetta frv. Ég hef einmitt lagt það fram með þeim fyrirvara, að það geti verið móttækilegt fyrir breytingar, og bið hv. n. að athuga það, þannig að allur vindur í hv. síðasta ræðumanni út af þessu atriði var óþarfur. (RA: Ég hafði litla trú á frumkvæði úr þeirri áttinni.) Hefur hv. þm. litla trú á Alþ. Ég hef það ekki. Ég held einmitt að það sé nauðsynlegt, að Alþ. temji sér þá starfsháttu að vinna sjálfstætt, en taka ekki endilega alltaf við frv.. þótt frá stjórn komi og samin séu af sérfræðingum, alveg athugasemdalaust, heldur hljóti þau sjálfstæða athugun. Þar um er m.a. gott dæmi einmitt þetta gamla bankamálafrv., sem samið var af sérstaklega ágætum mönnum. En bað var bara dálítið einkenni á heim, sem sömdu bað, að það voru bankastjórar eða þá væntanlegir bankastjórar, — menn sem voru sérstaklega tengdir bankakerfinu, og þegar þannig stendur á er að mínum dómi ekkert óeðlilegt að almenn sjónarmið hins almenna þm., hins almenna borgara fái að komast að, og það getur vel verið að af þeim sjónarhóli sé litið öðruvísi á málið heldur en af þeirri sjónarhæð sem þeir standa á sem vinna að þessum málum og sinna þeim og hættir kannske til að telja að þeir hafi frest vit á þessum málefnum og það sé ekki rétt að aðrir séu að blanda sér í þau. Ég tel þessi vinnubrögð á engan hátt óeðlileg, að lagt sé fram frv. og því sé jafnframt lýst yfir, að því verði ekki illa tekið að hv. þn., sem fær það til meðferðar, geri á því breytingar, ef samkomulag getur orðið um það. Markmiðið með þessu frv. var fyrst og fremst það, eins og ég gat um, að gera vissar lágmarksbreytingar á bankalöggjöfinni, en breytingar sem talið var nokkurn veginn öruggt að næðu fram að ganga án þess að miklar deilur þyrftu um það að spretta.

Svo verð ég aðeins — og skal ekki lengja mál meira um þetta — að leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, þann leiða misskilning sem þar kom fram. Hann leyfði sér að halda því fram, að það hafi verið einhver ágreiningur um þetta mál í ríkisstj. og það hefði sérstaklega staðið á ráðh. Framsfl. Hann hefði alveg getað sparað sér þessar getsakir. Um þetta ætti ég að vita eilítið betur en hann. Ég kannast ekki við að hafi staðið sérstaklega á ráðh. Framsfl. í þessu efni. (RA: Á hverju þá?) Hann sagði að sá ágæti maður arftaki hv. síðasta ræðumanns, formaður Alþb., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, hefði lagt þetta frv. fram sem viðskrh. Það þarf ekkert að vera að deila um þetta atriði, það er skjalfest. Ef hv. þm. hefði lagt á sig það ómak að athuga gamla bankamálafrv., þá hefði hann getað sparað sér alveg þennan þátt í ræðu sinni. Í aths. með frv., sem lagt var fram á þingi 1974, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að frv. sé flutt sem stjfrv. skal það skýrt tekið fram, að einstakir stuðningsmenn ríkisstj. hafa óbundnar hendur varðandi aftöðu til einstakra þátta málsins og afgreiðslu þess í heild. Ljóst er, að nokkuð eru skiptar skoðanir um það atriði frv., sem gerir ráð fyrir sameiningu Búnaðarhankans og Útvegsbankans í einn ríkisviðskiptabanka.“

Það fer ekkert á milli mála, að þetta frv. var flutt sem stjfrv. Það er ekki vikið að því einu orði, að bað hafi verið ágreiningur innan ríkisstj. um þetta mál. Það er hins vegar sagt, sem rétt er að það var vitað að einstakir stuðningsmenn ríkisstj. í hópi hv. þm. voru ekki á einu máli um þetta atriði, sameiningu þessara tveggja banka. Þetta ætti hv. þm. að vita og hann ætti ekki að hafa gleymt þessu.Ég ef svo skyldi vera. að hv. formaður Alþb., Lúðvík Jósepsson, væri ekki enn búinn að mæla fyrir frv. sínu í hv. Nd., þá held ég að það væru gustuk að hv. þm. Ragnar Arnalds léði honum gamla frv., þannig að hann gæti lesið það, sem þar stendur, þannig að hann félli ekki í sömu gryfjuna og hv. þm. Ragnar Arnalds gerði áðan.