06.02.1978
Neðri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

125. mál, virkjun Blöndu

Þórarinn. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir þær upplýsingar sem hann gaf hér um hugmyndirnar varðandi Norðurlandsvirkjun. Þær staðfesta alveg það sem ég sagði á síðasta fundi. Norðurlandsvirkjun er enn þá eingöngu á hugmyndastiginu, ekki komin á neitt framkvæmdastig enn sem komið er, og það er náttúrlega fráleitt að ætla að fela fyrirtæki, sem enn er ekki nema hugmyndir, jafnstórfellt verkefni og Blönduvirkjun er.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, 8. landsk. þm„ beindi þeirri fsp. til mín, hvort það hefði ekki verið heimilað í þingflokki Framsfl, að stjórnin legði fram það frv. sem nú er hér til umr, Ég hef ekki haft tækifæri til að athuga þetta mál á þann hátt að fletta upp í fundargerðum þingflokksins, en ég tel sjálfsagt að það hafi verið gert á sínum tíma, eins og venja er. En þó að þingflokkur samþykki eða veiti heimild til þess að ríkisstj. leggi fram ákveðið frv., þá bindur hann sig alls ekki á þann veg, að hann standi með frv. óbreyttu ellegar skuldbindi sig til að samþykkja það á sama þingi. Venjan er sú, þegar slík heimild er veitt, að stjórninni er heimilað að leggja frv, fram án þess að þingflokkurinn eða einstakir þm. skuldbindi sig um einstök atriði frv. Það er ekki heldur óalgengt, að stjfrv. séu lögð fram til skoðunar, þannig að þau séu alls ekki afgreidd á því þingi sem þau eru lögð fram í fyrsta skipti, heldur lögð þannig fram að bæði þm. og landsmönnum gefist kostur á að íhuga efni þeirra og afgreiðslan fari ekki fram fyrr en kannske tveimur eða þremur þingum siðar. Það má nefna fjöldamörg frv, sem hafa fengið þessa meðferð. Þau eru lögð fram til athugunar og skoðunar og E.t.v. ekki afgreidd fyrr en á öðru eða þriðja þingi þar frá. Í þessu sambandi má t.d. nefna flest frv. um meiri háttar skólamál sem hér hafa verið lögð fram, eins og grunnskólafrv. á sínum tíma og frv. um framhaldsskólastigið sem hefur verið til meðferðar á tveimur eða þremur þingum. Þannig er það, að þó að þingflokkurinn hafi á sínum tíma veitt ríkisstj. heimild til að flytja þetta frv., þá hefur hann ekki bundið sig neitt við einstök atriði í því, heldur talið þetta mál það stórt — og það er það vissulega — að rétt sé að Alþ. taki það til skoðunar og hvernig eigi að framkvæma það. Ég er líka þeirrar skoðunar, að þó að það verði kannske einhver frestun á virkjun Blöndu, þá komi að því að hún verði virkjuð, vegna þess að þar er sennilega um að ræða einn álitlegasta virkjunarstað á landinu, en hins vegar verði í þeim efnum að fara að með fullri gát. Það verður að vera tryggt að sá aðili, sem sér um virkjunina, sé fullkomlega fær um það og einnig að öllum nauðsynlegum rannsóknum sé lokið áður en Alþ. tekur sína endanlegu ákvörðun. Það er fyrst og fremst sú vinnuaðferð sem ég hef mælt með hér í þinginu.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson komst svo að orði, að með því að leggja fram þá þáltill, sem framsóknarmenn hafa lagt hér um raforkumálin eða skipun raforkumála, hafi þeir verið að gera uppreisn gegn hæstv. iðnrh. Þetta er alger misskilningur hjá honum. Sá óskapnaður, sem ríkir í orkumálum í dag, er ekki ættaður frá núv. iðnrh. nema að litlu leyti. Hann hefur smátt og smátt verið að skapast á undanförnum árum, vegna þess að Alþ. hefur ekki treyst sér til þess að taka myndarlega á þessum málum, koma á fullkomnu heildarskipulagi, og þess vegna er komið sem komið er. Hæstv. iðnrh. er einn af þeim mönnum sem gera sér ljóst, að þannig má ekki lengur standa. Þess vegna hefur hann skipað sérstaka n. til þess að gera till. um nýtt heildarskipulag þessara mála. Það er til þess að auðvelda honum og þessari n. að finna rétta stefnu í málinu sem við þm. Framsfl. höfum lagt fram umrædda till. (SighB: Þá hefur hv. þm. sagt sama og ráðh. um þetta.) Þetta er alveg rétt.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. og kom líka fram í máli hæstv. iðnrh. á síðasta fundi, að það hefur verið venja að flytja heimildarfrv. um raforkuvirkjanir þegar virkjanir hafa verið taldar komnar á það stig, að þær væru arðvænlegar og væri orðið aðkallandi að framkvæma þær, og það má kannske færa Blönduvirkjun að einhverju leyti undir þetta. En nú hafa menn öðlast þá reynslu í seinni tíð, sérstaklega eftir að Kröfluvirkjun kom til sögunnar, að þetta er ekki heppileg vinnuaðferð. Reynslan hefur leitt það ótvírætt í ljós nú, að Alþ. þarf að gæta betur að sér í þessum efnum en það hefur áður gert. Það verður að liggja ljóst fyrir, áður en þingið veitir slíka heimild, hvaða aðili á að annast verkið, sjá um uppbyggingu þess og sjá um rekstur þess. Það verður einnig að liggja fyrir, að búið sé að gera allar meiri háttar rannsóknir. Nú liggur það fyrir í sambandi við Blönduvirkjun, samkv. því sem hæstv. iðnrh. upplýsti á síðasta fundi, að það á eftir að gera mjög mikilvægar rannsóknir, t.d. varðandi það, hvar er hagkvæmast að láta aðalbygginguna í sambandi við virkjunina, stöðvarhúsið, vera, og það hefur náttúrlega ekki lítið að segja að það sé upplýst hvernig það atriði verði heppilegast leyst.

Ég nefni annað dæmi um það, að Alþ. hafi veitt heimild án nægilegs undirbúnings. Þetta dæmi er Hrauneyjafossvirkjun. Sú heimild hefur verið veitt fyrir einum 6 eða 7 árum án þess að þm. væri ljóst hvernig staðan yrði þegar ráðist yrði í þá framkvæmd. Verður t.d. í sambandi við þá framkvæmd ákveðið að selja svo og svo mikinn hluta af þeirri orku, sem þarna fæst, til erlendrar stóriðju? Ég tel samkv. þeim upplýsingum, sem komu fram frá hæstv. iðnrh. á síðasta þingfundi, að þetta sé útilokað. Samkv. þeim upplýsingum endist orkan frá Hrauneyjafossvirkjun ekki nema í 4 ár, miðað við það að hún sé eingöngu notuð til innanlandsþarfa, þ.e.a.s. annarra en stóriðju. Með því sýnist mér að þær ráðagerðir, sem hafa verið uppi í þessu sambandi, að selja svo og svo mikinn hluta af orkunni til álbræðslunnar, séu úr sögunni. Ég vil leyfa mér í sambandi við þetta að beina þeirri fsp. til hæstv. iðnrh., hvort lengur séu uppi nokkrar ráðagerðir um að selja hluta af orkunni, sem fæst úr Hrauneyjafossvirkjun, til álbræðslunnar, hvort eftir þessar upplýsingar séu þær ráðagerðir ekki alveg úr sögunni. Ég hafði hugsað mér að beina E.t.v. slíkri fsp. til hans í sérstöku fsp.-formi, en fyrst við erum að ræða þetta mál hér á annað borð, þá finnst mér að það sé hægðarauki fyrir okkur báða að ég beri þessa fsp. fram nú og honum gefinn kostur á að svara henni hér án þess að þurfa að hafa af henni frekari fyrirhöfn.

Þá er komið að því atriði þessa máls sem er langsamlega stærst að mínum dómi, og það er hverjum á að fela virkjun Blöndu þegar þar að kemur. Mér skildist á hæstv. iðnrh. á síðasta fundi, að hann viðurkenndi að það væri hæpið að fela þetta verkefni aðilum sem enn eru ekki til, eins og svokallaðri Norðurlandsvirkjun eða kannske öðrum enn þá óþekktari aðila, og kæmi til mála að breyta þessu ákvæði frv. og fela verkið ákveðnum aðila sem þegar er fyrir hendi. Ég nefndi í því sambandi Landsvirkjun og færði þau rök fyrir því, að Landsvirkjun er sá aðili sem af mörgum ástæðum hefur langbest skilyrði til að vinna að verkefni eins og þessu. Hæstv. ráðh. bar fram þá mótbáru að Landsvirkjun væri fyrst og fremst ætlað að vera virkjun fyrir Suðvesturland, og byggði það m.a. á því, að hún er sameiginleg eign Reykjavíkurborgar og ríkisins. En það kemur alveg ljóst fram í lögum um Landsvirkjun og í þeirri framsöguræðu, sem hæstv. þáv. iðnrh., núv. hv. 1, þm. Suðurl., flutti þegar hann mælti fyrir frv. um Landsvirkjun, að Landsvirkjun er ætlað stærra verkefni en það að sjá um virkjanir fyrir Suðvesturland. Það er aðeins talað um að í upphafi eigi hún að sinna orkunotkun á því svæði, en í framtíðinni geti vel komið til greina að hún kaupi orkuver utan þessa svæðis og sjái um orkusölu þangað. En það, sem sker alveg úr um það, að Landsvirkjun var ætlað að hafa stærra verkefni með höndum en að leysa orkuþörf Suðvesturlands, er það ákvæði laganna, að Laxárvirkjun er heimilað að gerast aðili að Landsvirkjun, og eftir að Laxárvirkjun er komin inn í Landsvirkjun, þá er hún að sjálfsögðu orðin miklu meira landsfyrirtæki heldur en það að sjá um orkusölu til Sunnlendinga eða Suðvesturlandsins eins.

Mér finnst líka rétt að benda á það í sambandi við þær umr., sem urðu um Landsvirkjunarfrv. á sínum tíma, það mun hafa verið á Alþ. 1964–1965, þá var þeirri stefnu haldið alveg ákveðið fram af hálfu okkar framsóknarmanna, að Landsvirkjun ætti, eins og nafnið bendir til, að vera fyrir landið allt. Þess vegna er sú stefna, sem felst í áðurnefndri þáltill. okkar, ekki ný. Hún er mótuð af okkur fyrir meira en 14 árum.

Hæstv. ráðh. taldi að ýmsu leyti eðlilegra að það væru Rafmagnsveitur ríkisins, sem sæju um þetta verkefni, heldur en Landsvirkjun. Ég er honum ekki sammála um þetta. Ég álít að þegar komið verði á réttri framtíðarskipun á þessum málum, þá falli Rafmagnsveitur ríkisins undir þau fyrirtæki sem ungir sjálfstæðismenn kalla „báknið burt“, því að þá verði ekki lengur þörf fyrir Rafmagnsveitur ríkisins í því formi sem þær eru nú. Og satt að segja er hæstv. ráðh. eiginlega byrjaður á þessari stefnu á vissan hátt með því að stofna Orkubú Vestfjarða og láta Rafmagnsveitur ríkisins ekki lengur ná til þess svæðis.

Til þess að skýra það betur, sem fyrir mér og flokksbræðrum mínum vakir í þessum efnum varðandi framtíðarskipun orkumálanna, þá leyfi ég mér að lesa hér upp úr þáltill, okkar tvö atriði, með leyfi hæstv. forseta. Fyrsti þáttur þeirra er á þessa leið:

„Unnið verði að því að koma á fót einu fyrirtæki, sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta. Ríkisstj. taki í þessu skyni upp samninga við Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Andakílsárvirkjun, Rafveitu Vestmannaeyja, Rafveitu Siglufjarðar og aðrar rafveitur, sem eiga og reka orkuver, um sameiningu slíks rekstrar í einni landsveitu. Aðilar að þessu fyrirtæki og stjórn þess verði ríkissjóður og landshlutaveitur. Eignarhluti ríkissjóðs skal aldrei vera minni en 50%. Fyrirtækið undirbýr virkjanir og lætur virkja.“

Annað atriði hljóðar svo:

„Unnið verði að því að koma á fót landshlutaveitum, sem annist alla dreifingu og sölu á raforku í viðkomandi landshluta. Landshlutaveitur þessar geti einnig annast rekstur hitaveitna. Þær sjá um framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru vegna viðkomandi rekstrar, Aðilar að slíkum landshlutaveitum og stjórnun þeirra verði sveitarfélögin og landsveitan.“`

Í þriðja lagi er svo ætlast til þess, að Orkustofnun verði starfrækt með svipuðum hætti og hingað til.

Þegar slíkt skipulag er komið á, eins og hér er rakið, þá verða ekki starfandi í landinu nema ein landsveita og svo héraðsveiturnar. Þá er eiginlega lokið því verkefni sem Rafmagnsveitur ríkisins sjá um nú. Þá verður búið að skipta því milli Landsvirkjunar og héraðsveitnanna og þess vegna verður ekki þörf fyrir það fyrirtæki lengur. Með þessum hætti verður komið á miklu heilsteyptara og einfaldara skipulagi en því sem nú er. Það skipulag, sem nú ríkir í orkumálunum, með Landsvirkjun, með Rafmagnsveitum ríkisins og ýmsum héraðsveitum og smáorkuveitum, er vissulega hreinn óskapnaður, eins og oft hefur verið rakið hér í þinginu. Og þetta fellur alveg undir það sem ungir sjálfstæðismenn hafa haft um þessi mál að segja, að það er nauðsynlegt að vinna að því að fækka fyrirtækjum og gera skipulagið einfaldara heldur en það er nú, og þess vegna trúi ég ekki öðru en þessi till. muni hljóta góðan stuðning þeirra. En af þessum ástæðum tel ég óráðlegt á þessu stigi að færa út starfssvið Rafmagnsveitna ríkisins, vegna þess að að því á að stefna í framtíðinni að sú stofnun hverfi smátt og smátt og héraðsveitur og ein orkuveita, landsveita, taki við störfum hennar, en eðlilegast sé, ef menn vilja hverfa að því að afgreiða þetta mál á þessu þingi eða næstu, þá sé það Landsvirkjun, sem taki að sér umrætt verkefni.

Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni. Ég er ánægður með þær undirtektir hæstv. ráðh., að það verði að breyta 1. gr., þannig að Blönduvirkjunin verði ekki falin fyrirtæki, sem er ekki til. Ég vænti þess, að hann komist einnig að raun um það, að eðlilegra sé að fela Landsvirkjun þetta verkefni heldur en Rafmagnsveitum ríkisins. En fyrst og fremst vil ég svo leggja áherslu á það, að þetta mál verði ekki afgreitt öðruvísi en að ákveðnum aðila, sem þegar er fyrir hendi, verði falið verkið og að lokið verði áður öllum nauðsynlegum rannsóknum.