07.02.1978
Sameinað þing: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef litið yfir þær umr. sem fram fóru á síðasta fundi Sþ. um þetta málefni, og ég verð að segja að mér þykja þær allskringilegar, eins og umr. um þetta mál hafa stundum áður verið. Það skín í það hjá ýmsum ræðumanna, og einnig höfum við heyrt það oft á opinberum vettvangi, að menn telji ástæðuna til þess, að þáltill. þessi er flutt, þá, að Alþ. vilji víkja sér undan því að taka efnislega afstöðu til þess, hvort prestskosningar skuli fram fara eða ekki. Menn segja — og það meira að segja sjálfur biskupinn, að með þessu sé verið að koma í veg fyrir að Alþ. sýni Kirkjuþingi tillit. Ég leyfi mér að mótmæla þessu. Að mínu viti erum við einmitt að sýna Kirkjuþingi, yfirstjórn kirkjunnar og kirkjunni sjálfri, tillit með því að flytja þessa till. Hv. þm. vita vel að hér hafa hvað eftir annað, um áratugaskeið, verið flutt mál á Alþ. um breyt. á lögum um prestaköll og þá fyrst og fremst því atriði sem um prestskosningar fjallar. Þegar frv. hafa verið um þetta flutt hefur það ég muni, tekist að koma þeim á milli deilda, hvað þá lengra. Þetta er vitanlega ekki vansalaust, það er alveg rétt. Vegna þess að okkur finnst þetta ekki vansalaust, en viljum samt fá afgreiðslu á þetta mál, þá dettur okkur þessi leið í hug. Og jafnmikill vansi og hv. þm. þykir að afgreiða ekki slík mál, till. um afnám prestskosninga, afgreiða þau ekki með þinglegum hætti, eins og hv. þm. orða það, jafnmikill vansi væri að láta hjá líða að afgreiða þessa till. með þinglegum hætti.

Ég vil láta það koma fram strax, að ég tel enga ástæðu til þess að skilja fullkomlega á milli þess í umræðum hvaða málsmeðferð við viljum hafa að þessu leyti og hins, hvaða efnisafstöðu við tökum. Við erum ekki að víkja okkur undan því að taka efnisafstöðu til þess, hvort við viljum hafa prestskosningar eða ekki. Við höfum um það ýmsar skoðanir. Mín skoðun er sú, að prestskosningar eigi ekki að fara fram í núverandi mynd. Ég sé enga ástæðu til þess, að þessi eini hópur embættismanna í þjóðfélaginu sé látinn hlíta því að ganga fyrir hvers manns dyr í söfnuði sínum og biðja um atkv. Ef þetta væri hins vegar regla um embætti í ríkinu yfirleitt, þá gegndi öðru máli. En fyrst svo er ekki, þá sé ég enga ástæðu til að þetta gildi um presta fremur en aðra. Það á að vera unnt að setja reglur um lágmarksskilyrði fyrir hæfni presta eins og annarra stétta. Og það á ekki að vera meiri vandi fyrir veitingavaldið að skera úr um þetta atriði heldur en um það sem snertir aðrar stéttir.

Menn segja að með þessu sé verið að ganga gegn lýðræðisreglu. Það er rétt, sem hv. þm. séra Ingiberg Hannesson sagði áðan, að það lýðræði, sem framkvæmt er með prestskosningum, er í raun og veru takmarkað. Það væri E.t.v. réttara að segja: Það lýðræði, sem fylgir í kjölfar prestskosninganna, er takmarkað, vegna þess að kosningin gildir til heillar starfsævi. Og ég get ekki séð hvaða lýðræði felst í því að sóknarbarn, sem flyst úr söfnuði ári eftir að það kýs 26 ára gamlan prest, skulum við segja, eigi að ráða því að barnabörn einhvers allt annars fólks, sem flyst í söfnuðinn seinna, eigi að fermast og giftast og jarðast af þessum presti. Mér finnst það svo vera annað mál, sem að vísu væri freistandi að fara út í, en ég held nú samt að ég sleppi að mestu, að aðaltalsmenn lýðræðisins innan kirkjunnar skuli vera talsmenn þess flokks sem minnst vill hafa með þá stofnun að gera. Enn fremur finnst mér sérkennilegt að þeir menn skuli vera íhaldssamastir í þessu máli sem síst vilja láta orða sig við íhaldið að öðru jöfnu.

Hv. 5. þm. Vesturl. sagði áðan, að hann vildi að við kysum okkar presta eins og við höfum alltaf gert. Það er nú ekki svo, að gilt hafi frá upphafi kristni á Íslandi sú skipun sem sett var í lög 1915. En engu síður, hv. þm. finnst að sú skipun, sem við búum við nú, skuli allra helst gilda. Og það er á ákaflega mörgum sviðum alveg rétt. En ég held að ekki fari hjá því, að menn reki augun í að það er dálítið sérkennilegt, þegar það málefni, sem verður til þess að hv. þm. og flokksbróðir hans, hv. 7. landsk. þm., sjá ástæðu til að ganga fram fyrir skjöldu, er það, að lýðræði sé innan þeirrar stofnunnar sem þeir eða e.t.v. þeirra flokkur hefur lítið viljað sinna, en þeir að vísu persónulega telja heldur gagnlega, að því er skilja má af orðum þeirra. Það væri fróðlegt að vita hvort sami lýðræðisáhugi væri hjá þessum mönnum að því er varðar ýmsar stofnanir sem þeim standa nær, svo sem flokki þeirra í sambandi við prófkjör og slíkt. En það er nú önnur saga.

Röksemdir, sem hv. þm. færa gegn því að prestskosningar séu afnumdar, eru í raun og veru þær, að rétturinn til að kjósa sér prest, hvort sem menn hafa áhuga á prestum almennt eða málefnum kirkjunnar, eins og hv. þm. hafa rætt hér um, — rétturinn til þess að kjósa sér prest sé svo mikilvægur að hann megi ekki afnema. En samt finnst hv. þm. málið vera svo lítilfjörlegt, að það megi ekki bera það undir dóm kjósenda.

Hv. þm. hafa ýmsir vikið að því, að ef menn eru efnislega hlynntir því að prestskosningar skuli afnumdar, þá væri mannslegra að bera fram till. um það. Ég tel mér skylt að svara þessu, vegna þess að ég er hlynnt því að prestskosningar skuli afnumdar, en ég tel samt leið þá, sem bent er á í þessari þáltill., vera réttari heldur en bera fram frv. um afnám prestskosninga, vegna þess hversu sérstæðs eðlis þetta mál er, Það er í mínum huga mjög mikilvægt atriði, ef almenningur í landinu hefur kosningarrétt til eins eða annars. Ef taka á þann kosningarrétt, almennan kosningarrétt, af mönnum, þá finnst mér það vera í anda ýmissa reglna sem við höfum sett, m.a. í stjórnarskránni, þó að það gildi ekki beint um þetta atriði, — þá finnst mér það vera í anda okkar grundvallarreglna, að slíkar breytingar séu bornar undir þjóðaratkv.

Að því er varðar þá röksemd gegn þessari till., sem fjallar um þau 8% þjóðarinnar sem eru utan þjóðkirkjunnar, þá finnst mér sú röksemd vera léttvæg. Af hverju skyldu ekki þessi 8% einnig mega segja skoðun sína á þessu máli? Það gæti jafnvel verið, að ef þessi skipan væri öðruvísi, þá kæmu einhverjir af þessum 8% í þjóðkirkjuna. Sú ástæða gæti verið fyrir því, að eitthvað af þessu fólki er utan þjóðkirkjunnar nú, að því líkaði ekki alls kostar ýmsar starfsaðferðir, m.a. það hvernig staðið er að prestskosningum. Ég nefni þetta atriði. Fyrst hin evangelíska lúterska kirkja er þjóðkirkja, þá sé ég ekki að við eigum að banna nokkrum kjósenda að taka þátt í kosningum um þetta efni. Mér sýnist sú röksemd vera eins og hálmstrá fremur en nokkuð sem máli skiptir.

Ég hafði talið ástæðu til að láta þessi atriði koma hér fram, herra forseti. Vitanlega er aðalatriðið að taka afstöðu til till., hvort við viljum bera þetta mál undir þjóðaratkv. En mér finnst einnig skipta máli í því sambandi, að skoðanir þm. á efnisatriðunum komi fram.

Ég vil taka undir það, sem hv. 4. þm. Vesturlands., séra Ingiberg Hannesson, benti á áðan, að það væri rétt að fá að sjá till. þeirrar n. sem hæstv. kirkjumálaráðh. skipaði til athugunar á lögum um skipun prestakalla. Ég held að ef þessi till. næði samþykki, þá næði hún betur tilgangi sínum ef till. n. lægju einnig fyrir og væru orðnar opinberar. Ég er að því leyti sammála þeim röksemdum sem fram hafa komið, þess efnis, að það væri æskilegt að menn hefðu einhverja hugmynd um hvað við tæki af því fyrirkomulagi sem nú er, þó að vitanlega væri ekki hægt að fullyrða um það að öllu leyti, því að það yrði verkefni nýs þings, — þings, sem kosið yrði í vor, að ákveða hvaða skipan tæki við, ef sú skoðun yrði ofan á í þjóðaratkvgr. að láta afnema beinar og almennar prestskosningar.

Ástæða kann að vera til að endurtaka þá aðalréttlætisröksemd í þessu máli, sem mér virðist blasa við, að ein stétt embættismanna á ekki að þurfa að hlíta þeim kjörum sem prestar þurfa nú í dag, á meðan aðrar þurfa þess ekki. Ástæðan til þess, að prestar eigi að hlíta reglunum um prestskosningar, er alls ekki ríkari heldur en væri ef í hlut ættu ýmsir embættismenn í öðrum stofnunum ríkisins. Ég get nefnt dæmi þar sem slíkt fyrirkomulag væri miklu nærtækara, og það er skólakerfið. í skólakerfinu starfa embættismenn sem hafa enn meira og persónulegra samband við viðfangsefni sín, nemendurna. Því þurfa nemendur og foreldrar þeirra að hlíta og hafa sjaldnast neitt um það að segja, hvaða kennari eða skólastjóri starfar að því að kenna börnum þeirra? Ég hef ekki séð að mönnum finnist það í raun og veru neitt ranglæti og reynist alveg prýðilega oft og tíðum, eftir því sem viðkomandi embættismenn hafa hæfni til.