08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

172. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Um það leyti sem lögin um varnir gegn kynsjúkdómum voru sett árið 1932 voru þrenns konar sjúkdómar sem voru mjög áberandi í þessu landi og miklir skaðvaldar heilsufari fólks. Það voru kynsjúkdómarnir, það var berklaveiki og það var mænusótt. Viðhorfið til þessara sjúkdóma og möguleikarnir til þess að ráða við þá eru allt aðrir nú heldur en þá var, og því var það, þegar hæstv. ráðh. var að flytja frv. um afnám Fiskimálaráðs, að mér kom í hug hvort n. mundi hafa tekið það til nógu mikillar yfirvegunar, hvort ekki væri rétt að nema úr lögum bæði lögin um varnir gegn kynsjúkdómum og varnir gegn berklaveiki og setja sérákvæði um þessa sjúkdóma inn í lögin um heilbrigðisþjónustu. Það má segja að hér sé kannske ekki um mikið mál að ræða. En ef hægt væri að einfalda málin á þann hátt, en ná þó sama árangri, þá held ég að það væri vel þess vert að taka það til gaumgæfilegrar athugunar. Ég býst við að n. hafi að sjálfsögðu haft þetta t huga, en ég vildi þó leggja áherslu á að það yrði rannsakað gaumgæfilega, hvort ekki væri rétt að fara svo að.

Nýmælið um fræðslu er að sjálfsögðu nauðsyn. Viðhorfið gegn kynsjúkdómum og kynfræðslu er allt annað en var á þeirri tíð sem upphaflegu lögin voru sett. En ég held að slíkt ákvæði mætti koma annars staðar inn. Spurning mín nú til ráðh, er hvort þetta muni hafa verið tekið til rækilegrar athugunar, hvort ekki væri rétt, bæði með berklavarnalögin og lögin um varnir gegn kynsjúkdómum, að færa þau inn í lögin um heilbrigðisþjónustuna.