09.02.1978
Neðri deild: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

168. mál, þingfararkaup alþingismanna

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Umr. þær, sem staðið hafa hér í dag, hafa sérstaklega hnigið að tvennu: annars vegar að því, hver eigi að ákvarða kjör alþm., og hins vegar, hver kjör alþm. eigi að vera. Gagnrýni sú, sem í frammi hefur verið höfð í fjölmiðlum nú lengi og segja má að keyrt hafi um þverbak alveg upp á síðkastið, hefur beinst að þessu tvennu. Mig langar að fjalla lítillega um þessi atriði í ljósi þess frv. sem við höfum hér á borðum okkar.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er að sögn flm. þess sú, að við þurfum að koma málum svo fyrir að annar aðili en Alþ. sjálft ákveði kjör alþm. M. ö. o.: við þurfum að losna við ábyrgðina. Ég held að jafnvel þótt við samþykktum þetta frv., þá berum við alltaf ábyrgðina. Það er alveg sama hvað við ákveðum um kjör alþm., við losnum ekki við ábyrgðina á því, hvernig þau eru ákveðin. Alþ. er stofnun, sem hefur það hlutverk í þjóðfélaginu að bera ábyrgð á lögum þess. Það setur lög þjóðfélagsins.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að Kjaradómur ákveði kjör alþm., laun þeirra og sitt hvað er að kjörum alþm. lýtur, eftir till. þfkn. M. ö. o.: framkvæmdin yrði sú, að Alþ. kýs n. manna til að vera eins konar stjórn stéttarfélags gagnvart Kjaradómi. Ég læt mér ekki til hugar koma að þær till., sem þfkn. bæri fram fyrir hönd Alþ., væru taldar annað en kröfugerð af hálfu Alþ., miðað við þann málflutning sem í frammi hefur verið hafður nú upp á síðkastið. Spyrja mætti: Á þfkn. yfir höfuð nokkuð að koma barna nærri, ef menn vilja alveg vera lausir við ábyrgðina? Jafnvel þótt þfkn. kæmi hvergi nærri, yrðum við samt ekki laus við ábyrgðina.

Ég held að við ættum að leggja til hliðar hugleiðingar um það að losa okkur við ábyrgð að þessu leyti. Hana komumst við ekki hjá að bera. Og ég vil taka undir þau orð sem hv. 2. þm. Austurl. sagði um það efni. Við verðum að hafa dug til að axla þá ábyrgð að ákveða um þetta atriði. Ef Alþ. er ekki trúandi til að reka þessa stofnun, setja lög um rekstur Alþ., þ. á m. um kjör þeirra, er þar starfa, þá veit ég ekki hvort þinginu er trúandi til að setja önnur lög í landinu. Þetta mætti a. m. k. vel hugleiða, áður en við lýsum því yfir að allt annað fyrirkomulag ætti að vera heldur en það sem nú gildir.

Hitt er svo annað mál, að menn geta deilt um það, hvort kjör þm. eiga að vera svo góð sem þau eru nú eða lakari. Ég tel fyrir mitt leyti að lýðræðisrök mæli með því, að kjör þm. séu góð, eins og þau eru óneitanlega eftir að þingfararkaup var gert að föstu kaupi. Ástæðan er sú, að þingmannsstarf verður að vera opið fyrir mönnum úr hvaða stétt eða hópi þjóðfélagsins sem er. Þingmennska má ekki verða einungis fyrir útvalinn hóp manna sem er vel fjáður. Það má ómögulega fara eftir efnahag manna, hvort þeir geta tekið að sér þingmennsku eða ekki.

Með því að fjalla um það atriði, hvort þingfararkaup eigi að vera fast kaup eða ekki, er ég komin nálægt því efni sem hv. 4. þm. Norðurl. v. ræddi hér í dag, þegar hann benti w að æskilegra væri að þingmennska væri einungis hlutastarf og að reikna ætti með að þm. gegndu öðru starfi sér til lífsframfæris. Þessi skoðun hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur það til síns máls, að menn eru þá fleiri í beinum tengslum við ýmis önnur störf í þjóðfélaginu. En það mælir hins vegar á móti röksemd hv. þm., að sumar starfsstéttir þjóðfélagsins yrðu með þessu alveg afskornar frá því að geta gegnt þingmennsku. Það er svo með ýmis störf í þjóðfélaginu, að þau standa mönnum ekki til boða aðeins hálft ár í senn eða einmitt á þeim tíma sem þing stendur ekki. Þetta veldur því, að fjöldi manna í þjóðfélaginu hefði alls ekki tækifæri til þess að gegna þingmennsku, þótt hann hefði til þess bæði vilja, hæfni og fylgi.

Að því er varðar aðrar stéttir þjóðfélagsins, sem vissulega gætu að vísu haldið starfi sínu þrátt fyrir þingmennsku, þegið laun fyrir starf sitt, þá er engan veginn víst að það mundi tryggja þau sömu tengsl þm. við sitt fyrra starf og hv. 4. þm. Norðurl. v. vill vera láta. Mér dettur í hug jafnalgengt starf í hópi þm. eins og kennslustarf. Kennslan fer einmitt fram á þeim tíma árs sem þing situr, og í þinghléi eru menn í fríi frá kennslustörfum hvort sem er. Ég get því ekki séð að sá háttur, að laun væru greidd jöfnum höndum fyrir þessi tvennu störf, tryggði það með nokkru móti að kennarinn væri í meiri tengslum við nemendur sína heldur en hann hvort eð er væri meðan hann er á þingi. Þessi rök tvenn vildi ég nefna. Vissulega er um fleiri rök að tefla. Það er nokkuð til í því, að þjóðfélagið hafi orðið flóknara, við verðum að viðurkenna það, þingstörfin orðin umfangsmeiri. En það, hvort þingstörf eru verr unnin nú en þau voru fyrir nokkrum árum, það er sjálfsagt mjög mismunandi, bæði eftir einstaklingum, nefndum, umfangi mála. Nálægð við kosningar og sitthvað annað kann að hafa áhrif á þingstörf, eins og öllum er mætavel kunnugt. Ég get sjálf litið yfir nokkuð langan þingferil, þótt langt hlé hafi á honum verið. Fyrst þegar ég kom hér á þing unnu menn vissulega vel að sínum störfum, en ég þori ekki að segja að menn vinni sín þingstörf verr í dag en gert var þá — engan veginn.

Þessi regla, sem að hefur verið horfið, að gera þingstarf að fullu starfi að því er kjörin varðar og gera ráð fyrir að því sé sinnt sem aðalstarfi, hefur að því er mér virðist ekki reynst hafa þá hættu í för með sér sem sumir óttuðust þegar að þessari reglu var horfið. Menn óttuðust að þessi breyting yrði til þess, að meira yrði um svokallaða atvinnupólitíkusa, að menn mundu fremur gera þingstarf sitt að ævistarfi en áður var. Mér virðist reynslan hafa sýnt annað. Hér áður fyrr var það töluvert algengt, að þingmennska væri eins konar ævistarf. Það var þegar kjördæmaskipunin var öðruvísi en hún er nú. Það var þegar einmenningskjördæmin voru. Þá var miklu algengara að þingmennska varð að ævistarfi. Og þá var annað fyrirkomulag á kjörum þm. en nú er, svo að ekki var það því að kenna eða þakka í þeim tilfellum þar sem það átti við. Það hefur einmitt orðið síðan þessi breyting var gerð, að mikil mannaskipti hafa átt sér stað á Alþ. við hverjar kosningar og mér sýnist síst draga úr því, þannig að ég er ekki viss um að í reynd hafi röksemdirnar gegn þessu fyrirkomulagi orðið eins þungar á metunum og maður hefði haldið fyrir nokkrum árum. Mér sýnist líka að lýðræðisrökin, sem ég nefndi áðan að mæltu með því, að kjör þm. væru góð, mæli einnig með þessari skipan, fyrst og fremst vegna þess að þessi skipan greiðir fyrir því, að fleiri þættir þjóðfélagsins verði með í starfi Alþ., menn komi frá fleiri greinum, úr hinum ýmsu störfum þjóðfélagsins. Ég vil í þessu sambandi benda á röksemdir sem hv. 8. þm. Reykv. tefldi fram í umr. um þetta efni, einmitt um sama leyti sem umr. fór fram er hv. 4. þm. Norðurl. v. vitnaði til í dag. Það er hins vegar rétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., að þarna er um vissan skoðanamun að ræða á fyrirkomulagi um kjör þm. Ég veit að hv. þm. var ekki að ræða um það, hvort Kjaradómur eða Alþ. sjálft úrskurðaði um kjörin eða hvort kjörin ættu að vera betri eða verri, heldur einungis það fyrirkomulag sem nú gildir, að hér sé um fullt starf að ræða.

Ég vil nú víkja að þeim ummælum, sem uppi hafa verið höfð um Alþ. í fjölmiðlum, sérstaklega nú undanfarið. Ég veit að það er sjálfsagt og ekki annað en við gerum ráð fyrir, þegar við tökum starf á Alþ., að stjórnmálamenn verða að þola ýmis köpuryrði og taka það eins og hvert annað daglegt brauð. Menn geta ekki í stjórnmálum staðið, ef þeir þola ekki slíkt hér á Alþ., það er alveg ljóst. Hitt er annað mál, þegar svo rammt kveður að áróðri gegn störfum Alþ. yfirleitt eins og nú hefur verið undanfarið. Það eru ekki hinar venjulegu pólitísku deilur eða ádeilur manna hvers á annan úr mismunandi pólitískum flokkum eða innbyrðis í flokkum. Það, sem hér hefur verið að gerast, er að mínu viti miklu alvarlegra. Þegar menn ganga hver af öðrum í ýmsum fjölmiðlum til þess leiks að reyna að sannfæra almenning um það, að þm. yfirleitt fari vísvitandi ekki að lögum, hafi í frammi óheiðarlegt athæfi þegar þeir ákveða um kjör sín og þar með rekstur Alþingis, þá finnst mér þar vera um alvarlegri hlut að ræða en svo, að hægt sé að taka því með ró. Með slíkum áróðri er að mínu viti vegið með nokkrum hætti að lögum og rétti í landinu. Verkefni alþm. er að setja lög í landinu sem gilda fyrir öli landsins börn, þá sem aðra. Einmitt nú þessa dagana stöndum við að því að samþykkja mjög erfiðar ráðstafanir vegna mjög erfiðs ástands. Halda menn raunverulega að það verði til þess að hjálpa til þess að ráða bót á sameiginlegum vandamálum þessarar þjóðar að keppast við að reyna að sannfæra almenning í landinu um það, að alþm. Íslands, 60 að tölu, séu óheiðarlegt fólk? Frá mínu sjónarmiði er hér um verulega hættulega iðju að ræða. Ef hún þjónar einhverjum, þá þjónar hún upplausnaröflunum í þjóðfélaginu. Vitanlega á Alþ. að hlusta á gagnrýni og Alþ. á að taka mark á gagnrýni sem er sanngjörn. En að dögum saman eða a. m. k. öðru hvoru dögum og vikum saman sé að því látið liggja í fjölmiðlum, ábyrgum sem óábyrgum, að hér sitji að störfum óheiðarlegt fólk, það tel ég beinlínis að grafi undan lýðræði í landinu.

Vitanlega getur verið að rangar ákvarðanir séu teknar á Alþ. það er sjálfsagt gert. Það er líka hlutverk Alþ. að leiðrétta þær ákvarðanir með því að taka þá réttar ákvarðanir, ef það kemst að þeirri niðurstöðu að fyrri ákvarðanir hafi verið rangar. En þegar bornar eru á alþm. sakir sem eru órökstuddar, þá finnst mér eðlilegt að við það sé gerð aths. á Alþingi.

Menn geta vissulega komist að þeirri niðurstöðu, að það sé rétt að breyta þeim lögum sem nú gilda um þingfararkaup. Menn hafa reyndar séð fyrir allnokkru, að það er nauðsynlegt, því að forsendan fyrir þeirri breytingu, sem gerð var fyrir nokkrum árum, er ekki lengur fyrir hendi vegna breytinga á kjaramálum opinberra starfsmanna, það er alveg ljóst. Það er líka rétt, sem hv. 3. þm. Austurl., formaður þfkn., sagði hér í dag, að með því að breyta þessu fyrirkomulagi í það horf, að það væri ekki lengur lögákveðið að kaup alþm. skyldi fara eftir tilteknum flokki ríkisstarfsmanna, þá er miklu opnari leið fyrir Alþ. að ákveða þingfararkaup lægra en samsvarandi flokkur er, ef okkur þykir hann hækka ótilhlýðilega. Þetta kom fram í máli hv. þm. En ég get ekki varist því að segja eins og fleiri hv. þm. hafa sagt hér í dag, að það er óneitanlega heldur ógeðfellt að vinna það verk eftir þau vandarhögg sem á okkur hafa dunið að undanförnu fyrir sakir sem hafa ekki verið rökstuddar.

Það frv., sem hér er til umr., og hugleiðingar þfkn. um að breyta þeim lögum, sem nú gilda um þetta, og svo einnig hin breytta forsenda, allt þetta verður vafalaust til þess að þeim lögum, sem nú gilda, verður breytt. En ég legg á það áherslu, að Alþ. losnar ekki undan ábyrgð sinni, hvaða ákvörðun sem verður tekin í þessu máli, og ég tel að Alþ. eigi ekki að hverfa frá þeirri meginreglu, sem ævinlega hefur gilt um þessa stofnun og gildir í öllum þjóðþingum þar sem lýðræðisskipulag er, að þingið á að vera sjálfstætt. Ástæðan til þess, að kjör hafa verið ákveðin með svipuðum hætti og verið hefur alla tíð frá 1845, er sú, að Alþ. er sjálfstætt. Það þýðir, að Alþ. er engri stofnun í landinn háð nema sjálfu sér. Það gildir um verk Alþingis, jafnt þetta sem annað. Það er oft óþægilegt, það er ekki hægt að neita því. En undan því verður ekki komist. Ég tel að hv. þm. mættu gjarnan hafa þetta sérstaklega í huga. Um leið og slegið er af sjálfstæði Alþ. er einnig víkist undan skyldum í lýðræðisþjóðfélagi.