09.02.1978
Efri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég ætla í upphafi að taka fram, að ég er ekki kominn hingað í ræðustól til þess að tala fyrir hönd Marx-Lenínista, þó að ég styðji þetta frv. En það er út af því, sem hv. 12, þm. Reykv. sagði varðandi 2, gr. frv. Ég hef oft heyrt þessa röksemdafærslu, að sá, sem eigi afurðir þegar gengisbreyting er gerð, eigi einn að njóta hagnaðarins af genginu. Ég þarf ekki að leita mjög langt eftir þessari skoðun, hún hefur verið viðhöfð við mig út af gengisbreytingu fyrr á árum, 1967–1958 aðallega, minna aftur síðari gengisbreytingum. En þó að ég sé ekki Marx-Leninisti, þá get ég alls ekki fallist á þá skoðun að sá aðili, sem á birgðir í sjávarútvegi eða aðrar birgðir, sem eiga að leggjast í sameiginlegan sjóð, sé einkaeigandi að þeim birgðum. Gengisbreytingin er ekki gerð, hvorki nú né áður, fyrir þennan aðila til þess að hann græði á birgðunum. Hún er gerð til þess að bæta stöðu útflutningsatvinnuvega á hverjum tíma,

Ef við ætlum alls ekki að ráðstafa gengishagnaði á þennan hátt, eins og hér er gert ráð fyrir og alltaf hefur verið gert, og ætlum að skipta honum upp á milli þeirra sem hafa skapað þennan hagnað, hvers vegna eiga þá ekki sjómenn að fá hlutdeild í þessum gengishagnaði og útgerðarmenn, heldur aðeins frystihúsaeigendur og þeir sem selja fiskinn eða afurðirnar að lokum úr landi?

Ég tel fráleita þá túlkun, að um stjórnarskrárbrot sé að ræða, og einmitt fannst mér hv. 12. þm. Reykv. sanna það með upplestri sínum, að gengisbreytingin er gerð vegna þess að annars hefðu útflutningsatvinnuvegir landsmanna stöðvast, ef þetta hefði ekki verið gert eða þá einhver önnur aðgerð með hliðstæðum hætti, Það er þjóðarheill sem krefst þess að einhver slík aðgerð sé gerð. Hins vegar getur okkur greint á um hvort eigi endilega að fara þessa leið eða aðra. Það er mál út af fyrir sig. En ég gat ekki látið hjá líða að láta í ljós þessa skoðun mína og láta í ljós að ég er algjörlega andvígur því sem hv. 12. þm. Reykv. sagði um þetta atriði.