10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

114. mál, almannatryggingar

Flm. (Karvel Pálmason):

Virðulegi forseti. Á þskj. 135 hef ég leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Garðari Sigurðssyni og Gylfa Þ. Gíslasyni frv. til l. um breyt. á l. nr. 67 frá 20. apríl 1971, um almannatryggingar. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 11. gr. þessara laga, þ. e. a. s. þeirri breytingu, að rétt til ellilífeyris eigi þeir sem orðnir eru 67 ára eða eldri og hafa átt lögheimili hér á landi a. m. k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Þó skulu þeir, sem gert hafa sjómennsku að ævistarfi og stundað sjómennsku í 35 ár eða lengur, öðlast fullan rétt til ellilífeyris er þeir hafa náð sextugsaldri, og hafi maður stundað sjómennsku sem aðalstarf í 40 ár á hann rétt á 50% viðbótarlífeyri, þegar hann hefur náð sextugu, og fullan ellilífeyri ber einnig að greiða ekkjum er þær verða 60 ára.

Hér er sem sagt um þá breytingu að ræða frá gildandi lögum í fyrsta lagi, að þeir, sem stundað hafa sjómennsku í 35 ár, eigi til þess rétt að fá ellilífeyri við sextugsaldur í staðinn fyrir 67 ára, þeir, sem hafa stundað sjómennsku að aðalstarfi í 40 ár, eigi rétt á 50% aukalífeyri, ef svo má orða það, umfram aðra, og í þriðja lagi, að fullan ellilífeyri beri einnig að greiða ekkjum er þær hafa náð sextugsaldri.

Frv. svipaðs eðlis hefur verið flutt hér á Alþ. tvívegis áður. Það var flutt árið 1970 af Hannibal Valdimarssyni. Þá var það að öllu leyti eins nema því, að gert var ráð fyrir að í þessum undantekningartilfellum varðandi greiðslu ellilífeyris yrði um tvöfaldan lífeyri til þeirra að ræða sem stundað höfðu sjómennsku í 40 ár eða lengur, en í þessu frv. er um að ræða 50% hærri lífeyrisgreiðslur til þeirra. Þetta frv., sem flutt var árið 1970, hlaut ekki afgreiðslu hér á Alþingi. Árið 1974 flutti ég frv. um þetta efni, sem var shlj. því frv. sem flutt var 1970. Það frv. gekk til heilbr: og trn. hv. og hlaut afgreiðslu þar, mjög jákvæða afgreiðslu, samhljóða úr n., þar sem lagt var til að frv. yrði vísað til ríkisstj. til frekari afgreiðslu, en þó jákvæðrar, eins og fram var tekið. Var þetta gert vegna þess, að talið var eftir ábendingum frá umsagnaraðilum að nauðsynlegt væri að kanna málið nokkru frekar en ráðrúm hafði gefist til áður en það var afgreitt úr n. Þetta gerðist undir þinglok vorið 1975. Sem fskj. með frv. þessu er prentað nál. frá heilbr.- og trn., og þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Nefndin er því sammála um, að hér sé hreyft miklu réttlætismáli, en telur það þess eðlis, að nauðsyn sé nánari athugunar og umfjöllunar.

N. er því sammála um að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess að málið fái frekari athugun, sem leiði til jákvæðrar niðurstöðu þess:

Hér var efnisleg afstaða tekin af heilbr.- og trn. þegar hún afgreiddi málið frá sér, efnisleg afstaða á þann veg, að málinu er vísað til ríkisstj. í trausti þess að það fái jákvæða afgreiðslu þar.

Þegar þetta mál var hér til umr. 1974 og 1975, urðu engar umr. um málið, og það urðu heldur engar umr. um nál. á vorþinginu 1975. Það verður því að líta svo á, að með tilliti til þess og með hliðsjón af shlj. afgreiðslu Alþ. á þessu með því að vísa því til ríkisstj. hafi menn verið um það sammála, að efnisleg atriði frv. til breytinga frá gildandi löggjöf ættu fullan rétt á sér, og menn um það sammála, að málið næði fram að ganga í höndum hæstv. ríkisstj. Nær þrjú ár eru nú liðin frá því að þessi samþykkt var gerð hér í d. og a. m. k. mér eða okkur flm, er ekki um það kunnugt, að neitt frekar hafi í málinu gerst af hálfu ríkisstj.

Það skal tekið fram, að þegar málið kom til meðferðar heilbr.- og trn. var óskað umsagnar þriggja aðila, þ. e. Tryggingastofnunar ríkisins, Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna. Tveir þessara aðila, þ. e. a. s. Tryggingastofnun ríkisins og Landssamband ísl. útvegsmanna, veittu umsögn um málið, jákvæða umsögn, þó að fram væri tekið, að málið væri þess eðlis að athuga þyrfti suma þætti þess frekar, en eigi að síður var um að ræða mjög jákvæða umsögn þessara tveggja umsagnaraðila sem n. leitaði til. Það urðu mér hins vegar vonbrigði, að Sjómannasamband Íslands svaraði ekki umbeðinni umsagnarbeiðni og ég veit ekki enn um afstöðu Sjómannasambandsins til málsins. Ég hygg þó að afstaða Sjómannasambandsins til þessa máls hafi verið þá og sé enn jákvæð, eða a. m. k. get ég ekki ímyndað mér annað.

Með hliðsjón af þessu taldi ég og tel enn að ekki hafi verið um það að ræða að ágreiningur væri hér í d. í afstöðunni til þessa máls. Hefði því mátt ætla að hæstv. ríkisstj. hefði veitt þessari niðurstöðu málsins í hv. d. athygli og þess að vænta, með tilliti til þess, að allir voru um það sammála, hversu hér væri hreyft miklu réttlætismáli til handa þeim aðilum sem hér um ræðir, að til þess yrðu gerðar ráðstafanir að hrinda í framkvæmd þessari breytingu á almannatryggingalöggjöfinni. Það varð því niðurstaða mín og meðflm. minna að þessu frv. að taka málið upp aftur og nú í trausti þess, að enn væri sami skilningur ríkjandi í afstöðu til málsins hjá hv. alþm., og, í trausti þess, að svo væri, mundi verða hægt að koma málinu í gegnum Alþ. á þessu þingi og það fengi þannig endanlega afgreiðslu hér.

Ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir efnishliðum frv. í framsögu fyrir því á þinginu 1974 og gæti því stytt mál mitt mjög varðandi framsögu fyrir frv. nú. En það er í meginatriðum um það að ræða, eins og ég vék að í upphafi, að gera þrjár undantekningar frá hinni almennu reglu varðandi greiðslu ellilífeyris. Ég vænti þess fullkomlega, að þótt að flutningi þessa frv. standi einvörðungu þm. sem teljist til stjórnarandstöðuflokka hér á Alþ., þá vil ég a. m. k. ætla það og vona, að það sé sami skilningur og sami vilji hv. stjórnarþm. til þessa máls og hjá okkur flm., og vænti þess, að það eigi því greiða leið í gegnum þingið, því að ég undirstrika það, að það er fullkomið réttlætismál að gera undantekningar í þessum tilvíkum sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. varðandi þá einstaklinga í þjóðfélaginn sem hafa gert sjómennsku að aðalstarfi í lífi sínu og stundað hana svo árum og áratugum skiptir. Það er, vænti ég, sammála álit allra alþm., að þessir einstaklingar séu þess fullkomlega verðugir að njóta hér nokkurra sérréttinda umfram aðra almennt. Ég tel einnig að það geti vart annað verið en hv. alþm. séu okkur sammála um að rétta nokkuð hlut þeirra einstaklinga í þjóðfélaginu, þ. e. a. s. þeirra ekkna sem hér um ræðir, og gera þá breytingu á gildandi lögum um almannatryggingar, að þessir einstaklingar fái ellilífeyrisgreiðslur við sextugsaldur.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég tel þess ekki þurfa með. Hér er um mjög einfaldar og skýrar breytingar að ræða sem við gerum till. um varðandi almannatryggingalöggjöfina, — breytingar sem ég vona að allir þm. séu okkur sammála um að eiga á sér fullan rétt og þörf er á að komi til framkvæmda. Ég vænti þess því, að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu hér á Alþ. og það verði samþykkt áður en þinglok eiga sér stað nú á næsta vori eða hvenær s°m það kann að verða.

Ég legg svo til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2, umr. og hv. heilbr.- og trn.