10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

114. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það frv., sem hv. 5. þm. Vestf. er 1. flm. að, er flutt til stuðnings við stétt í landinu sem á vissulega stuðning skilið. Ég er hins vegar ekki viss um að sú aðferð til stuðnings, sem bent er á í þessu frv., sé alls kostar rétt. Frá mínu sjónarmiði er mikið álitamál, hvort fara eigi inn á þá braut að gera rétt til ellilífeyris almannatrygginga — ég undirstrika almannatrygginga, háðan því hvaða starfsstétt maður tilheyrir. Svo hefur ekki verið og svo er ekki. Það væri grundvallarbreyting að fara inn á þá leið, og búast má við að þá þyrfti einnig að líta til fleiri stétta. Ég efast um að rétt væri að fara inn á þessa braut á meðan grundvallarbreyting hefur ekki orðið í þessu kerfi. Á meðan lögin hljóða svo, að allir einstaklingar 67 ára og eldri, sem átt hafa lögheimili hér á landi a. m. k. þrjú almanaksár frá 16–67 ára aldurs, hafi þennan rétt, þá get ég ekki séð að það sé skynsamlegt að fara inn á þá leið að gera undantekningar að því er varðar eina stétt í þjóðfélaginu. Miklu skynsamlegra þykir mér að auka lífeyrisrétt bæði þeirra stétta og þeirra annarra stétta, sem eitthvað svipað kynni að standa á um, eftir öðrum leiðum.

Ég vil leyfa mér að lesa umsögn Tryggingastofnunar ríkisins, þá umsögn sem hv. 1. flm. málsins nefndi í máli sínu, en umsögnin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Reykjavík, 21. mars 1975.

Heilbr.- og trn. Alþingis.

Alþingi. Hv. þn. hefur sent til umsagnar 102. mál, um breytingu á lögum um almannatryggingar. Frv. er tvö efnisatriði. Annað er að sjómenn, sem stundað hafa sjómennsku um langan tíma, njóti ellilífeyris almannatrygginga við lægra aldursmark en almennt tíðkast. Hitt er að ekkjur njóti ellilífeyris við lægra aldursmark.

Fyrra atriði: Það er góðra gjalda vert að benda á hinar sérstæðu aðstæður við langt og erfitt sjómannsstarf. Að þessu var líka stefnt með lögum um Lífeyrissjóð sjómanna sem samþ. voru á Alþ. s. l. vor. Flm, vill að svipað taki einnig til almenns ellilífeyris. Tryggingaráð vill benda á að skilgreina yrði nánar hvað átt er við með að stunda sjómennsku sem aðalstarf í 35 eða 40 ár. Kynni að verða erfitt að úrskurða bætur með svo rúmu orðalagi í lögum. Þetta verður ljóst ef litið er á 12. gr. laga um Lífeyrissjóð sjómanna. Lífeyrissjóður sjómanna skrásetur þann dagafjölda sem sjóðfélagar stunda sjómennsku á ári hverju, og virðist af hagkvæmnisástæðum eðlilegt að halda sig við þær upplýsingar, svo langt sem þær ná. En ekki leysa þær vandann 40 ár aftur í tímann. Ef ráðið verður að veita fé til hagsbóta fyrir sjómenn í þessu sambandi virðist eðlilegt að samræma löggjöfina og jafnvel framkvæmdina, svo að styðjast megi við samræmd gögn og upplýsingar.“

Þessi hluti umsagnarinnar var um þann þátt frv., sem fjallar um sjómennina. Ég mun einnig, vegna þess sem ég kem síðar að, lesa umsögnina að því er varðar síðara atriðið, þann hluta frv., sem fjallar um, að ekkjur fái ellilífeyrisrétt fyrr en aðrir þegnar þjóðfélagsins. Síðara atriðið í umsögn Tryggingastofnunarinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Álitamál kann að vera, hvort eðlilegt er að greiðslur ellilífeyris hefjist fyrr til ekkna en annarra einstæðra kvenna, og virðist þurfa að líta á fleiri aðstæður til þess að skera úr um það. Má í því sambandi minna á að mjög fer í vöxt að giftar konur stundi almennan vinnumarkað um lengri eða skemmri tíma og geti því staðið jafnfætis öðrum hvað það snertir. í þessu sambandi verður einnig að líta á ákvæði 18. gr. almannatryggingalaga um ekkjulífeyri. Þar er m. a. svo ákveðið, að kona, sem missir mann sinn 60 ára gömul, skuli njóta fulls lífeyris til 67 ára aldurs, sem er sama upphæð og ellilífeyrir.“ Að þessu leyti er skilyrðum frv. fullnægt. Ég held svo áfram lestri umsagnarinnar, með leyfi hæstv. forseta: „Ekkjan ætti því að njóta fulls lífeyris samkv. 11. gr. og fulls ekkjulífeyris samkv. 18. gr. Samræma yrði því nánar ákvæði 13. gr., en þessar tvær tegundir bóta geta ekki farið saman samkv. 5. gr. sömu laga.

Tryggingastofnun ríkisins.

Sigurður Ingimundarson.“

Mér fannst rétt til upplýsinga um þetta mál, að þessi umsögn væri hér lesin. Við höfum ærið oft séð það, að fjölmargar till. til breytinga á lögum um almannatryggingar eiga greiða leið inn að hjartarótum hv. þm., vegna þess að langflestar, ef ekki allar þessar till. fjalla um það að auka greiðslur til einhvers hóps manna í þjóðfélaginu. Það er ósköp eðlilegt að menn vilji gjarnan styðja slíka viðleitni. Engu að síður þykir mér að hafa verði hér nokkra gát og gæta samræmis, eftir því sem fært er, í þessari löggjöf, svo að ekki sannist það sem skynsamur maður hefur sagt hér í hliðarsölum einhvern tíma. Hann sagði: „Það er alveg sama upp á hverju menn stinga í sambandi við almannatryggingar. Allt er samþykkt: Hann bætti að vísu við, sá virðulegi hv. þm.: „hversu vitlaust sem það er.“ Ég er ekki að segja að hugsunin í þessu sé á neinn hátt neikvæð eða röng — alls ekki. Þetta er viðleitni til stuðnings mönnum, sem stunda mjög erfitt starf, og er í mörgum tilvikum eðlilegt að þeim endist skemur þrek til að stunda það starf heldur en ýmis önnur störf sem í þjóðfélaginu eru unnin. En svo stendur ekki einungis á um sjómenn. Þessu getur líka verið til að dreifa um ýmis þau störf sem unnin eru í landi eða í lofti. Mönnum er vel kunnugt um það, að t, d. flugmenn eða þeir, sem í flugvélum vinna, hafa skemmri starfsaldur heldur en ýmsir aðrir. Ég óttast því, að samþykkt frv. eins og þessa mundi draga allmikinn dilk á eftir sér og gerbreyta þeirri hugsun sem er að baki þessu ákvæði almannatryggingalaganna um ellilífeyri, sem sé að þarna sé um að ræða ákveðinn, jafnan rétt til allra landsmanna sem fullnægja vissum, en þó mjög rúmum skilyrðum.

Ef ég vík að síðara atriði frv., sem fjallar um það að greiða ekkjum ellilífeyri, þegar þær verða 60 ára, þá vil ég taka fram, að ég er algerlega samþykk því sem stendur í umsögninni sem ég las upp áðan, að það sé mjög mikið álitamál hvort eðlilegt sé að ekkjur fái fyrr ellilífeyri heldur en aðrir einstæðir einstaklingar í þjóðfélaginu.

Það er sami lífeyrisaldur bæði fyrir karla og konur á Íslandi og hefur verið um langan aldur. Það er, þegar sérstaklega stendur á, heimilt að greiða ekkjum, sem eru sextugar og fullnægja vissum, nánar tilgreindum skilyrðum einnig, svonefndan ekkjulífeyri, sem er nákvæmlega jafnhár og ellilífeyrir, en ekki almennt. Ég fæ ekki séð að það sé nokkur ástæða til þess að taka almennt upp ellilífeyrisgreiðslur til sextugrar konu, einungis af því að hún hafi verið í hjúskap einhvern hluta ævinnar. Ég sé í raun og veru ekki skynsamleg rök fyrir því. Þau rök, sem ég hygg að hv. flm. hafi í huga, eru væntanlega þau, að konur, sem lengi hafa stundað heimilisstörf einvörðungu, eiga oft mjög erfitt með að fá störf á hinum almenna vinnumarkaði þegar þær hefur skort um langan aldur æfingu í þeim. En við þessu er reynt að sjá í lögunum eins og þau eru nú, og ég hygg að sú breyting, sem lögð er til í þessu frv., mundi þar ekki verða skref fram á við, heldur aftur á bak. Hv. þm. nefndi hér alloft að Alþ. hefði tekið jákvæða afstöðu til þessa frv. Ég held að hann hafi lagt mjög rúman skilning í yfirlýsingu um afstöðu Alþ. Afstaða Alþ. þýddi ekki það að frv. væri samþykkt, enda var það ekki samþykkt. Því var vísað til ríkisstj. til jákvæðrar athugunar. Það þýðir vitanlega að ætlast var til að ríkisstj. sæi svo um að sú hugsun, sem að baki frv. lægi, næði tilgangi sínum á skynsamlegan hátt. Því er ég einnig hlynnt að því er sjómenn varðar.

En ég er andvíg því að sextugar konur teljist gamalmenni þó þær hafi einhvern tíma verið í hjúskap.