14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Hér er til umr. frv. til i. um ráðstafanir í efnahagsmálum, flutt af þeirri ríkisstj. sem lengst allra hefur gengið í því að þrýsta niður kaupmætti launa vinnandi fólks. Og efni þessa frv. sker sig ekki úr í þeim verkum hennar. Höfuðefni þess er ný árás á samningsfrelsi verkalýðssamtakanna og stórfelld kjaraskerðing fyrir allt launafólk. Öllum ákvæðum í kjarasamningum launþegasamtakanna, sem gerðir voru s. l. sumar og haust og kveða á um verðbætur á kaupið vegna hækkandi verðlags, á nú að rifta. Fyrir fáum mánuðum var þessi sama ríkisstj. beinn aðili að gerð kjarasamninga við starfsmenn ríkisins og einnig aðili að samningum ASÍ, þótt með öðrum hætti væri. Nú ætlar ríkisstj. að nota löggjafarvaldið til að ómerkja undirritun ráðh. undir þessa samninga og rifta þeim. Samtímis er svo leitað eftir stuðningi alls launafólks og samtaka þess við þennan gerning. En í því efni mun hún áreiðanlega sannreyna að til of mikils er mælst.

Okkur er sagt, að sú kjaraskerðing, sem felst í þessu frv., sé nauðsynleg vegna þess að mikill vandi sé nú í efnahagslífi þjóðarinnar og atvinnuvegirnir eigi í miklum erfiðleikum. Og því er haldið fram, að aðalorsök þessara vandamála sé kauphækkunin á s. l. ári. Þessi fullyrðing er fjarri öllum sanni. Því skal að vísu ekki neitað, að ýmis vandi steðjar nú að efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar, en sá vandi á fyrst og fremst rætur sínar í stefnu og stefnuleysi ríkisstj. sjálfrar. Að þessu hafa verið færð mörg og skýr rök, og ég ætla ekki að tíunda þau frekar, nema hvað varðar samninga verkalýðsfélaganna.

Það er rétt, að samningar verkalýðsfélaganna í júní s. l. fólu í sér verulega kauphækkun í krónutölu. En hvers vegna þurfti verkalýðshreyfingin að knýja fram þessa kauphækkun? Kauphækkunin var afleiðing af og andsvar verkalýðshreyfingarinnar við kjaraskerðingarstefnu ríkisstj. Með tveim gengisfellingum, látlausu gengissigi og öðrum verðhækkunum hafði tekist að lækka svo kaupmátt launanna árin 1975 og 1976, að leita verður fjölda ára aftur í tímann til að finna hliðstæðu. Það var til að vinna upp þessa gáfulegu kaupskerðingu sem launin voru hækkuð s. l. sumar. En verkalýðshreyfingunni var ljóst, að til þess að skapa þessari kauphækkun svigrúm og hamla gegn verðbólgu þurfti að gera sérstakar ráðstafanir, og í því efni benti hún á leiðir og setti fram kröfur til ríkisstj. jafnhliða kaupkröfum sínum til atvinnurekenda. En á þetta var ekki hlustað og engar ráðstafanir gerðar. Og nú þegar þessi stefna ríkisstj. hefur leitt til vandræða er verkafólk beðið að taka með þögn og þolinmæði nýrri kjaraskerðingu, nýrri kauplækkun. Það er sama gamla sagan, ríkisstj, sér engin ráð nema kauplækkun, að leysa vandann á kostnað launafólksins.

Þegar svona ráðstafanir eru gerðar og því er haldið fram, að það sé kaup hins almenna verkafólks sem er að sliga atvinnuvegina, þá er ekki úr vegi að athuga hvað þetta kaup er í dag sem endilega verður að lækka. Sagt er að útflutningsatvinnuvegirnir séu verst á vegi staddir og þó einkum fiskvinnsla. En hvert er þá kaupið í fiskvinnslunni? Það er núna frá tæpum 111 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnu og getur hæst komist í tæplega 115 þús. kr. á mánuði. En vinni þetta fólk alla virka daga frá klukkan 8 að morgni til klukkan 19 að kvöldi verður mánaðarkaup frá tæpum 150 þús. kr. og getur komist í 155 þús. kr. Dettur nokkrum manni í hug, að það sé réttlætanlegt eða það bjargi atvinnuvegunum að skerða þetta kaup?

Alþýðusambandsþing í nóv. 1976 mótaði þá meginkröfu í komandi kjarasamningum, að lágmarkskaup skyldi vera 100 þús. kr. á mánuði miðað við verðlag í nóv. 1976 og síðan fullar verðbætur á þau laun. Viðskrh., Ólafur Jóhannesson, lýsti yfir fylgi sínu við þessa kröfu í fyrravetur og taldi hana réttmæta. Lágmarkskaupið, sem verkalýðsfélögin sömdu um 22. júní s. l., er í dag 106 þús. kr. á mánuði, en ef þau hefðu náð kröfum sínum fram að fullu í einum áfanga, þá væri þetta kaup í dag nærri 145 þús. kr. Það vantar sem sé hátt í 40 þús. kr. á mánuði til að ná því kaupi sem Ólafur Jóhannesson lýsti yfir fylgi sínu við fyrir tæpu ári. Nú rembist þessi ráðh. og öll ríkisstj. við að lækka þetta 106 þús. kr. kaup. Ég læt hlustendum eftir að nefna þau lýsingarorð sem hæfa slíku hátterni.

Höfuðatriði þessa frv. felast í fyrstu þremur gr. þess. Í 1. gr. er ákveðið að aðeins skuli greiða á árinu 1978 helming þeirra verðbóta á laun sem samningar ákveða. Í 2. gr. er þó sagt, að launþegi skuli aldrei fá minna en sem svarar 880 kr. á mánuði fyrir hvert 1% sem verðbótavísitalan hækkar um hverju sinni. Tilgangur þessarar greinar mun vera sá, að þeir lægst launuðu fái hlutfallslega heldur meira en hálfar bætur. En öll er greinin og þær skýringar, sem fram hafa komið við hana, svo óljósar og ruglingslegar, að telja má þessi ákvæði óviðunandi fyrir verkafólk sem vinnur ójafnan vinnutíma á tíma- og vikukaupi, og jafnframt munu þessi ákvæði vera óframkvæmanleg fyrir atvinnurekendur. Það er engin leið að gefa út kauptaxta sem fela í sér verðbætur samkvæmt 2. gr. frv., og hvernig á þá verkafólk að fylgjast með því, að það fái réttar kaupgreiðslur?

Sú kjaraskerðing, sem fyrstu tvær gr. frv. kveða á um, verður ekki undir 11–12% hinn 1. des. n. k., og verður kaupmáttur launa þá orðinn lægri en hann var 1. jan. 1972. Þessi skerðing er miðuð við að verðbólgan hækki um 31% frá 1. des. 1977 til 1. des. 1978. Verði verðbólgan meiri, sem ekki er ólíklegt, eykst skerðingin að sama skapi. Til þess að vega upp þessa skerðingu þyrfti kaup að hækka um 13–14% 1. des. n. k.

Innsiglið á þessa kjaraskerðingarstefnu ríkisstj, og flokka hennar er í 3. gr. frv. Þar er að finna það sem koma skal. Í þessari grein frv. segir svo:

„Frá og með 1. jan. 1979 skulu óbeinir skattar ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum.“

Þetta ákvæði frv. er einhver allra ósvífnasta árás sem gerð hefur verið á verkalýðshreyfinguna. Með þessu ákvæði er ríkisstj. fengið vald í hendur til að gera að engu þær kauphækkanir sem verkalýðshreyfingin kynni að semja um hverju sinni. Hún gæti umsvifalaust tekið kauphækkanirnar aftur með hækkun á óbeinum sköttum og engar bætur kæmu fyrir. Þetta felur í sér nær ótæmandi möguleika til kjaraskerðingar og samningsréttur verkalýðsfélaganna væri í reynd mjög takmarkaður. Það væri aldeilis fráleitt ef launafólk léði þeim stjórnmálaflokkum kjörfylgi sem ganga til kosninga með slíka stefnuskrá. Það er lífsnauðsyn að þeir fái skellinn í vor.

Launþegasamtökin, ASÍ og BSRB, og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt fram sínar tillögur í þessum málum, till. sem eru andstæða kjaraskerðingarstefnu ríkisstj. Þær till. eru verðlækkunarleið til að hamla gegn verðbólgunni og þær byggja á óskertum kjarasamningum. Slíkum hugmyndum hafnar ríkisstj. algjörlega. Hún hefur valið þá leið að rifta öllum kjarasamningum og stofna til stéttaátaka. Þar með hefur hún lokað öllum leiðum til skynsamlegra ráðstafana gegn verðbólguvandanum í samvinnu við verkalýðshreyfinguna.

Samþykktir allra launaþegasamtaka varðandi þetta frv. eru á einn veg. Þau mótmæla riftun kjarasamninganna og allri kjaraskerðingu. Það þarf því enginn að vera í vafa um að þau líta þessa lagasetningu sem þvingunarlög, og viðbrögð þeirra verða í samræmi við það.

Kaupgjaldsákvæðum samninga verður sagt upp fyrir 1. mars og gagnsókn verkalýðsfélaganna undirbúin. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur einróma lýst því yfir, að verði frv. þetta að lögum séu með því þverbrotnar allar heiðarlegar leikreglur varðandi sambúð verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda og ríkisvaldsins og jafnframt að verkalýðsfélögin og allir einstaklingar innan þeirra séu siðferðilega óbundnir af þeim ólögum. Þessi orð eru hvatning til verkalýðsfélaganna og alvarleg aðvörun til valdhafa.