25.10.1977
Sameinað þing: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

4. mál, kosningalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það er nú nær orðið daglegt brauð hér á Alþ. að rædd séu kosningalög og það sem þeim er tengt, og kannske er ekkert við því að segja. Það er sjálfsagt að ræða þau málefni eins og hver önnur. En þó hygg ég að það megi líta langt til baka til þess að finna jafnmikinn áhuga, a.m.k. einstakra hv. þm., á breytingum í þessum efnum eins og er nú. (Gripið fram í.) Já, sjálfsagt er fiðringur kominn í hv. þm. suma, kosningaskjálfti, og við því er ekkert að segja. Þeir skera sig þá úr, þeir hv. þm. sem mest ber á skjálfta hjá í þessum efnum, sem mest hafa sig frammi í sambandi við umr. um þessi mál nú.

till. til þál., sem hér er til umr., fjallar einvörðungu um að skipa n. til að semja frv. til l. um breyt. á l. nr. 52 frá 1959, um kosningar til Alþingis, er miði að því að gera kjósendum auðveldara en nú er að velja milli frambjóðenda á þá lista sem þeir kjósa. Það er aðeins þessi þáttur sem þessi till. gerir ráð fyrir að fjallað verði um ef þáltill. verður samþ. og n. kjörin samkv. henni.

Nú hefur mikið verið um það rætt, af einstaka þm. a.m.k., að það sé fleira og kannske önnur atriði sem sé meiri ástæða til þess að leiðrétta heldur en þetta. Það sé fyrst og fremst ástæða til þess að leiðrétta það herfilega ranglæti sem sumir hverjir telja varðandi vægi atkv. eftir því hvar kjósendur eru búsettir í landinu. Ég veit ekki hver afstaða hv. flm. þessarar þáltill., a.m.k. ekki allra, er til þessa þáttar, þ.e.a.s. um vægi atkv. eftir búsetu. Ég veit t.d. ekki hvort hv. 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Ragnar Arnalds, formaður Alþb., þm. dreifbýliskjördæmis, Norðurl. v., er sömu skoðunar að því er varðar þennan þátt kosninga eins og hv. þm. Svava Jakobsdóttir sem hér var að ljúka máli sínu. Telur hv. þm. Ragnar Arnalds að það beri skýlaust að breyta nú þegar kosningalögum á þann veg að gera vægi atkv. jafnt í öllum kjördæmum landsins? Er hann sömu skoðunar og hv. þm. Svava Jakobsdóttir í þessum efnum? Er hann sömu skoðunar og hv, þm. Magnús Kjartansson, sem hefur lýst sömu skoðun hér á Alþ., og kannske fleiri hv. þm. Alþb. og hv. þm. úr fleiri flokkum? Eða hefur hv. þm. Ragnar Arnalds einhverja aðra skoðun á þessu máli? Og hvers vegna var þetta þá ekki bakið með í sambandi við þá nefndarskipan sem hér er fjallað um í till., ef þessir hv. þm., sem standa að flutningi þessarar þáltill., eru sammála um þetta? Eða eru mjög skiptar skoðanir innan þingflokks Alþb. í þessu sambandi? Ég hygg, að svo sé. (JónasÁ: En ekki hjá ykkur?) Okkur? (JónasÁ: Eru ekki skiptar skoðanir hjá ykkur? — RA: Samtakamönnum.) Ég treysti hv. þm. Magnúsi Torfa, sessunaut á vinstri hönd hv. þm. Jónasar Árnasonar, til að svara því hér á eftir hver skoðun hans er á þessum efnum. Og það er það, sem ég er að biðja hv. þm. Alþb. um, að þeir segi til um hvort þeir vilja skýlaust þessa breytingu sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir og Magnús Kjartansson t.d., svo að nöfn séu nefnd, hafa krafist að gerð yrði á kosningalögum.

Ég hef lýst skoðun minni hér áður og þarf ekki að fara mörgum orðum um hana að því er þetta varðar. Hvað sem menn telja og tala fjálglega um mannréttindi í þessum efnum, þá eru mannréttindi, eins og var rækilega bent á áðan, nefnilega miklum mun fleira en bara kosningarréttur. En því virðast sumir hverjir hv. þm., þ. á m. hv. þm. Svava Jakobsdóttir, gleyma. Það er hægt á ótalmörgum sviðum að benda á misræmi og herfilegt óréttlæti milli landsmanna eftir búsetu. Ég skal ekki fara út í að telja það hér upp, það hygg ég að öllum sé kunnugt. M.a. benti hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir áðan á nokkur atriði í þeim efnum og þau eru fleiri. En ég er eindregið fylgjandi því að hinum almenna kjósanda sé gert auðveldara að velja á milli frambjóðenda, velja menn, það gert auðveldara en það nú er.

Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því, að hv. 1. flm. þessarar þáltill., Ragnar Arnalds, taldi það mjög óheppilegt í framsöguræðu sinni hér áðan að kosningarnar snerust um menn, þær ættu fyrst og fremst, kannske raunar einvörðungu að snúast um stefnur. Ég er ekki sammála um þetta. Ég tel að það eigi miklu frekar en hefur verið og er að auðvelda kjósendum að velja eftir mönnum.

En það er auðvitað fleira sem er galli í sambandi við okkar kosningaskipulag eins og það var ákvarðað með breytingunum 1959. Við skulum taka t.d. Vestfirði eða Norðurland vestra eða hvaða kjördæmi sem er. Í þeim kjördæmum á að kjósa 5 þm. Reynslan hefur verið sú, ég vona að hún verði það ekki áfram í næstu kosningum, — reynslan hefur því miður verið sú að 4 af þessum 5 þm., sem kjósa ber, hafa í raun og veru verið sjálfkjörnir fyrir fram. Sem sagt, reynslan hefur sýnt að það hefur í raun og veru verið nóg fyrir hv. þm., hæstv. sjútvrh. núv., Matthías Bjarnason, hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, hv. þm. Steingrím Hermannsson og hv. þm. Gunnlaug Finnsson að senda skeyti fyrir hverjar kosningar: Erum á lífi — og nöfnin undir. Það hefði nægt líklega til þess að þessir hv. þm. hefðu haldið sínum þingsætum og ekki þurft meira að gera. Þetta er auðvitað ófremdarástand, ef við búum við kosningalög sem eru með þeim hætti að þm., sem er í eitt skipti kominn í þm.-stólinn og þm: fötin, getur haldið því til æviloka hvernig svo sem hann hagar sér að öðru leyti? Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Menn verða alltaf að hafa yfir höfði sér hangandi það sverð kjósendanna að þeir verði að standa sig, því aðeins eigi þeir von um að halda pólitísku lífi. Og þessu held ég að verði fyrr en seinna að breyta. Eins og ég sagði áðan, vonandi tekst að hafa einhver áhrif á breytingar frá því sem verið hefur í einhverjum kjördæmum landsins við næstu kosningar, þannig að það sé ekki einhlítt algerlega áframhald á þessu.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu fleiri orðum í sambandi við þessa þáltill. Það er auðvitað ótalmargt, sem segja mætti í sambandi við kosningalög eins og þau nú eru, en þessi till. fjallar einvörðungu um þennan eina þátt þeirra. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég hef áður sagt, og það, sem raunar kom líka fram hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur áðan, að ef hv. þm. á annað borð vilja fara út í það að bera saman vægi atkv., þá þarf að taka fleira með en einvörðungu kosningarréttinn. Það er miklu fleira, sem þar þarf að koma til og meta og vega, heldur en einvörðungu atkv. sem slíkt. Það verður að taka með á þá vog mjög mismunandi aðstöðu sem kjósendur eru í eftir því hvar þeir eru búsettir á landinu. Eða vill nokkur halda því fram að það sé sambærilegt t.d. hjá kjósendum hér í Reykjavík, samanborið við kjósendur vestur á fjörðum, norður á landi eða austur á fjörðum, að hafa aðstöðu til þess að vera í tengslum og hafa áhrif á sína þm.? Ég tala nú ekki um að hinn almenni kjósandi hér á þessu svæði hefur greiðan aðgang að öllum stjórnsýslustofnunum ríkiskerfisins við bæjardyrnar. En hver og einn einasti einstaklingur úti á landi, sem þarf að leita þjónustu þessara aðila, verður annaðhvort að taka sig upp í langa og kostnaðarsama ferð til að sinna sínum erindum eða með einhverjum hætti að bjarga málunum á annan veg. Þetta er ekkert lítið atriði, ef menn á annað borð ætla að fara að vega þennan þátt til áhrifa á Alþingi.

Það er svo annað mál í þessu auðvitað, að menn eru alltaf að benda á Vestfirði, Vestfirðir hafa 7 þm., segja þeir, þeir hafa langfæst atkv. að baki hverjum þm. Ég veit ekki hvort menn hafa hugleitt það almennt, að 4 eða 5 af þm. Vestf, eru búsettir hér á Reykjavíkursvæðinu, þannig að það mætti spyrja: Er óeðlilegt að ætla að það séu einhver meiri tengsl við það svæði heldur en það kjördæmi sem þeir í raun og veru eiga að þjóna og eiga að vera í bestum tengslum við? A.m.k. er ég þeirrar skoðunar, að Reykvíkingar eða Reyknesingar þurfi ekki undan neinu að kvarta í þessum efnum. Þeir hafa til muna betri aðstöðu, kjósendur í Reykjavík og á Reykjanesi, þrátt fyrir þann mun sem menn eru hér að tala um á vægi atkv., heldur en aðrir kjósendur í landinu hafa.

Ég skal svo ekki, herra forseti, orðlengja þetta frekar, en ég vildi koma þessum hugleiðingum mínum að nú við þessa 1. umr. málsins.