16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það fór ekki svo að við ættum ekki eftir að lifa það að hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefði þriðju skoðunina á þessu máli áður en yfir lyki, og þess er auðvitað sárt saknað, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason skyldi ekki njóta þess að vera hér staddur og horfa með eigin augum og reyna það sjálfur, eins og ég hygg að hann hafi spáð á sínum tíma, þegar málið var fyrr til umr. hér í d. (Gripið fram í.) Var svo? Ég segi fyrir mitt leyti: ég held að það hljóti að verða að fagna því, að hæstv. ríkisstj. virðist þó hafa áttað sig að einhverju leyti, þó að ég taki undir það, sem hér hefur verið sagt, að sú ákvörðun hennar nú að kippa 3. gr. út úr frv. hefur auðvitað engin áhrif á það, að frv. er eftir sem áður aðför að þeim samningum sem gerðir voru á s. l. sumri, — samningum sem ríkisstj. sjálf stóð að. Það stendur eftir sem áður, þrátt fyrir þessi breyttu viðhorf hæstv. ríkisstj. um að kippa umræddri 3. gr. til baka. Eigi að síður er ástæða til að fagna því, að að einhverju leyti virðist þó hæstv. ríkisstj. hafa séð eftir því að setja fram af jafnmiklu offorsi það mál, sem hér um ræðir, eins og var gert með því að hafa þetta ákvæði í frv.

Það stendur auðvitað eftir sem áður, að það dettur engum í hug að hæstv. ráðh. hafi breytt um skoðun að því er varðar stefnumörkun í þessu máli. Það eina, sem kemur í veg fyrir þetta, er að þeir fái ekki tækifæri til þess eftir kosningar að framkvæma þetta stefnumark sitt að því er varðar breytingu á grundveili vísitölunnar, eins og 3. gr. vissulega sagði okkur til um að ætlunin væri að gera. Það eitt kemur í veg fyrir að það verði gert, að núv. stjórnarflokkar fái ekki umboð kjósenda í kosningum að sumri til að framkvæma þetta stefnumark. Mér a. m. k dettur ekki í hug að halda að þeir hafi skipt um skoðun að því leytinu til, þeir muni gera þetta fái þeir til þess umboð, og það skiptir mestu máli í áframhaldi af þessu að slíkt umboð fái þeir ekki í kosningum.

Það er ekkert vafamál, að eins og þessi málatilbúnaður var af hálfu hæstv. ríkisstj., með því að setja þetta ákvæði inn í frv. án þess að hafa nokkurt samráð haft eða talað við forustumenn launþegahreyfingarinnar í landinu, þá hleypti hæstv. ríkisstj. mikilli hörku í þá deilu sem nú er komin upp og stendur yfir og enginn sér fyrir hverjar afleiðingar kann að hafa.

Ég sagði fyrr við umr. um þetta mál, að ég teldi fullvíst að núv. hæstv. viðskrh. hefði átt hugmyndina að því að setja þetta inn, og enginn hefur neitað því. Hæstv. ráðh. hefur ekki borið það til baka, að hér væri rétt til getið, og það verður ekki annað séð en flokksbróðir hans, hæstv. utanrrh., hafi átt tillöguna að því að kippa því til baka aftur. Enginn sér því að Sjálfstfl. hafi haft nein áhrif í þessu máli. Hæstv. viðskrh., formaður Framsfl., kemur greininni inn, og hæstv. utanrrh., flokksbróðir hans, dregur hana út. Þar skiptir engu máli þingstyrkur Sjálfstfl., samstarfsflokksins í ríkisstj. Það er ekki að sjá annað en Framsfl. hafi á öllum stigum þessa máls ráðið ferðinni, hvað gert yrði og ekki gert.

Ég skal þó taka það fram og tjá þeim hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni og Pétri Sigurðssyni aðdáun mína fyrir að hafa staðið með verkalýðshreyfingunni í því að gera a. m. k. tilraun til þess, að þetta mál yrði ekki í frv. eins og það var lagt hér fram og sem betur fer er nú búið að lagfæra.

Það er auðvitað augljóst mál og mátti hver og einn vita þegar þetta frv. var lagt fram, að launþegasamtökin í landinu mundu mæta því af fyllstu hörku. Það gat vart farið fram hjá nokkrum manni, sem eitthvað þekkti til, að slíkt yrði gert. Það hefur komið á daginn og á eftir að sýna sig enn frekar, ef ekki verður frekar en orðið er hægt að koma viti fyrir hæstv. ríkisstj. með því að draga frv. til baka. Það eitt kemur í veg fyrir að harðvítug átök á vinnumarkaðinum eigi sér stað áður en langt um liður. Það er því full ástæða til að beina því til hæstv. ríkisstj., þegar séð er að hverju stefnir, að hún dragi þetta mál til baka og taki í útrétta hönd launþegahreyfingarinnar í landinu til þess að ræða um sameiginlega lausn á þeim vanda sem fyrir höndum er. Það tilboð stendur enn. Það stendur opið hæstv. ríkisstj. að gera þetta í samkomulagi við verkalýðshreyfinguna og launþega í landinu. En haldi hún áfram og knýi þetta mál í gegnum þingið, þá er eins og áður hefur verið sagt, þá veit enginn hvaða afleiðingar það kann að hafa á næstu dögum, vikum eða mánuðum. Það er fullljóst, að verkalýðshreyfingin hefur um það ályktað að snúast hér til varnar af fyllstu hörku. Hvað þar kemur til með að gerast skal ég engu um spá, en affarasælast væri öllum að hæstv. ríkisstj. áttaði sig enn frekar og drægi málið allt til baka, ekki aðeins 3. gr., heldur frv. í heild.