23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

104. mál, framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég get ekki á mér setið að koma hér upp og þakka hæstv. ráðh. fyrir niðurlagsorðin í ræðu hans áðan, þegar hann lýsti því yfir að það væri skoðun sín, að ekkert væri því til fyrirstöðu að samþykkja þessa till. sem ég hef lagt hér fram. Að vísu var á honum að skilja, að það væri í raun og veru ekkert annað en að staðfesta það sem að væri stefnt nú um þessar mundir. Það má vel vera að svo sé. En hitt er augljóst, að með samþykkt þessarar till. væri stigið mjög merkilegt skref í stefnumörkun.

Í fyrsta lagi lægi það þá fyrir sem viljayfirlýsing þingsins og þá væntanlega rn. jafnframt, að á Norðurl. v. yrði byggður upp alhliða framhaldsskóli og í öðru lagi, að í þessum skóla yrði nemendum gert kleift að stunda nám allt til stúdentsprófs. Hvorugt þetta atriði hefur enn fengist á hreint, því miður. Ég er sannfærður um það, að íbúar á Norðurl. v. mundu mjög fagna því, ef þessi stefna fengist hér staðfest. En í þriðja lagi og þá ekki hvað síst lægi það fyrir, að það væri vilji þingsins, að uppbygging þessa fjölbrautaskóla, bæði hvað snertir stofnun og rekstur, færi eftir ákvæðum laga, sem gilda um stofnun og rekstur menntaskóla, en það er einmitt niðurlagsákvæði þessarar till. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þróun mála steytir á um þessar mundir, að í þessum efnum hefur ekki verið tekið af skarið. Ef ráðh. er reiðubúinn að samþykkja till. og þ. á m. þetta ákvæði, þá væri þar um mjög mikilvæga stefnumótun að ræða, bæði fyrir Norðurl. v. og raunar fyrir öll sveitarfélögin í landinu. Fyrir það ber að þakka.