27.02.1978
Neðri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

193. mál, sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Gunnlaugur Finnsson) :

Hæstv. forseti. Þetta frv. er ekki mikið að vöxtum. Það, eins og sagt er í grg., fylgir frv. um breyt. á sveitarstjórnarlögum sem ég var að mæla fyrir áðan, og það er nánast efnislega ekki annað en að samræma lög um sveitarstjórnarkosningar þeim breytingum sem yrðu á sveitarstjórnarlögum, ef hitt frv. yrði samþ. En 2. og 12. gr. fjalla einmitt um þessi atriði, hvort kosning er framkvæmd í einu lagi, þar sem tilnefndir eru helmingi fleiri fulltrúar en kjósa skal, hvort þeirri reglu er fylgt eða hinni, að kjósa í tvennu lagi.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta. Enda þótt að ýmsu leyti væri eðlilegt að vísa frv., sem fjallar um breytingar á sveitarstjórnarkosningum, til allshn., þá leyfi ég mér, með tilliti til þess að þetta frv. fylgir hinu, að leggja til að þessu verði einnig vísað til félmn.