06.03.1978
Neðri deild: 64. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

101. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Hæstv. forseti. Frv. þetta um breytingu á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins hefur einn tilgang, eins og fram kom í máli hv. frsm. og fyrra flm., sem sé þann að skerða útflutningsbætur sem veittar eru á útfluttar landbúnaðarafurðir. Jafnframt væri þá skert það fjármagn sem fer til þess að tryggja tekjur bænda samkv. gildandi lögum. Eins og hv. flm. gat um, ef þetta frv. hefði tekið gildi fyrir nokkrum árum, mundi þessi skerðing á útflutningsbótafé nema nálega 1 milljarði kr., ef marka má töflu III á bls. 8 er fylgir þessu frv. Hér er því um mjög mikið fjármagn að ræða eða sem næst því, að á þessu ári mundi það fé, sem fer til tryggingar á tekjum bændastéttarinnar, lækka um þriðjung.

Þetta frv. þarf kannske engum að koma á óvart sem fylgst hefur með málflutningi og till. hv. þm. Alþfl. á undanförnum árum, sem glöggt virðast hafa séð ofsjónum yfir því fjármagni sem fer til þess að tryggja og viðhalda landbúnaðarframleiðslu í landinu. Útflutningsbótaféð, eins og ég hef þegar tekið fram, fer til þess að tryggja að vissu marki tekjur bændastéttarinnar, og það er óhætt að fullyrða það hér, enda þótt ég hafi ekki verið við því búinn að hafa með sér slík gögn, að í flestum nálægum löndum er varið miklu meira fjármagni til þess að tryggja tekjur og hagsmuni bændastéttarinnar heldur en hér er gert. Þetta er eðlileg og sanngjörn stefna, vegna þess hversu mikilvægt það er hverju þjóðfélagi að framleiðsluatvinnuvegir gangi og hagur þeirra sé sem best tryggður. Ef horfið væri frá þessari stefnu mundi að sjálfsögðu því fólki fækka, sem fæst við framleiðslu á landbúnaðarvörum, og þá væntanlega um leið fjölga því fólki, sem fæst við þjónustustörf. Það mundi verða meiri ásókn að komast á jötu ríkisbáknsins, í bankakerfi o. s. frv. Það þyrfti þá meiri hluti þjóðarinnar að sinna þjónustustörfum — eða eins og sumir kalla: að lifa hver á öðrum heldur en vinnur að því að framleiða verðmæti sem standa undir þjóðarbúskapnum.

Ég tel að það sé mikið öfugmæli, þegar sagt er, eins og hv. flm. sagði hér, að framleiðsluaukning í landbúnaði væri orðin meiri en þjóðarbúið getur borið. Ég álít að það séu aðrir hlutir, sem vega að efnahagslegu öryggi þjóðarbúsins, en framleiðsluatvinnuvegirnir, því að án þeirra væri óhætt að fullyrða, að hér mundi ekki þrífast neitt þjóðfélag. Og þó að við verjum, eins og áætlað er á þessu ári, 3 milljörðum kr. til þess að tryggja að nokkru tekjur þess fólks sem fæst við landbúnaðarframleiðslu, þá fer því fjarri, að þar sé um fjármuni að tefla sem muni kollsigla okkar þjóðfélagi. Þvert á móti vinna þeir fjármunir að því að tryggja hagsmuni og tilveru þessa þjóðfélags. Slík öfugmæli lét hv. flm. sér um munn fara og þeim öfugmælum vil ég ekki láta ómótmælt.

Ég tel rétt að benda á það, að stjórnskipuð nefnd starfar nú að endurskoðun framleiðsluráðslaga. Enginn getur um það sagt, hvað út úr þeirri endurskoðun kemur. Hitt er víst, að niðurstaða þeirrar endurskoðunar mun ekki eiga greiðan gang í gegnum Alþ. ef svo skyldi til takast að tryggingarákvæði, sem felast í núv. ákvæðum um útflutningsuppbætur, verða rýrð eða skert svo sem hér er lagt til eða þaðan af meira. Ef horfið væri að slíku þyrfti eitthvað annað að koma til, sem a. m. k. að hluta, eins og nú er gert, tryggi hagsmuni þeirra sem vinna að framleiðslu búvara.

Hv. þm. vitnaði í töflur sem hann birtir með þessu frv. og hefur reiknað eftir gögnum frá Hagstofu Íslands. Sjálfsagt hefur hv. flm. valið þær útreikningsreglur sem þar er farið eftir, en það má reikna þessi mál út frá fleiri sjónarhólum en þeim sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er tíðast staddur á. Það hefði t. d. verið þess virði fyrir hv. þm. að birta einn dálk enn í einhverjum af sínum þremur töflum, þar sem kæmi í ljós, hver hefur orðið raunin á hlutfalli útflutningsbóta og ríkisútgjalda í gegnum árin. Þá hefði væntanlega komið í ljós, að útflutningsbætur hafa ekki hækkað hlutfallslega miðað við útgjöld ríkissjóðs. Og ég hygg að það sé svo, að í gegnum árin hafi stuðningur hins opinbera við atvinnuvegi þjóðarinnar farið hlutfallslega lækkandi, og ég tel að ef eitthvað er um það að segja, þá hafi þar fremur verið stefnt í öfuga átt en hið gagnstæða, því að eins og ég raunar þegar hef sagt, þá hvílir þetta þjóðfélag á þeim undirstöðum sem framleiðsluatvinnuvegirnir veita og síðan úrvinnslugreinar framleiðslunnar. Sé því ekki sinnt að halda þessum stoðum sem styrkustum, þá mun þjóðfélagið riða til falls.

Það leiðir af því, sem ég hef hér þegar sagt, að ég er þessu frv. andvigur. Ég mun ekki samþykkja eitt frv. eða annað sem miðar að því að skerða útflutningsbætur, nema þá eitthvað annað, sem ég met jafngilt, komi í staðinn.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, að með þessu frv. væri ekki fundin nein frambúðarlausn. Hann fer að vísu mjúkum orðum um sína frambúðarlausn, sem var í því fólgin að meta hverjar væru eðlilega árferðissveiflur á framleiðslu búvara hér á landi. Það kom ekki fram, hvert hans mat er í þessu efni. Það var mat þeirra manna, sem stóðu að samþykkt framleiðsluráðslaga á sínum tíma, 1960, og færðu þar í lög ákvæði um verðtryggingu og útflutningsuppbætur, allt að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, að sveiflur í framleiðslu búvara hér á landi gætu orðið það miklar, að eðlilegt væri að tryggja allt að 10% framleiðslunnar. Sjálfsagt er mat hv. þm. Sighvats Björgvinssonar allt annað og þarf það ekki að koma á óvart. En grunur minn er þó sá, að slíkt mat hafi einungis verið yfirvarp af hans hálfu, heldur muni það vera honum skapi næst að fella allar útflutningsbætur niður og væri réttast fyrir hann að segja það hreint út.

Erfitt er að segja fyrir um það, hver framvinda verður í framleiðslu búvara hér á landi annars vegar og neyslu þeirra innanlands hins vegar. Á síðustu árum hefur dregið nokkuð hlutfallslega úr neyslu búvara hér á landi, a. m. k. sumra tegunda þeirra. Á sama tíma hefur það einnig gerst, ekki síst vegna verðbólguþróunar innanlands og mikillar niðurgreiðslu á framleiðslu búvara í helstu markaðslöndum okkar, að markaðsverð landbúnaðarvara erlendis hefur orðið óhagstæðara með hverju ári. Nú hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir á innlendum vettvangi í því skyni að stuðla að aukningu á neyslu hér innanlands á búvörum með því að auka fé til niðurgreiðslna. Niðurgreiðslur hafa á undanförnum árum farið minnkandi, og það hefur væntanlega átt sinn þátt í því, að neyslan á sumum vörutegundum landbúnaðarins hefur dregist nokkuð saman. Ekki er unnt að spá um það, hvort þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar af stjórnvöldum, duga til þess að veruleg aukning verði á neyslu búvara hér innanlands, en það hafa þó verið gerðar tilraunir í þá átt og vonandi að þær beri verulegan árangur. Hitt er einnig jafnljóst, að miklum mun betur þarf að vinna að því en gert hefur verið nú undanfarið að leita hagstæðra markaða fyrir framleiðslu okkar erlendis, og má ekki um of horfa í eyrinn til þess að sinna því mikilvæga hlutverki. Margar af framleiðsluvörum íslensks landbúnaðar eru erlendis sem hérlendis talin sérstök úrvalsvara, og það þarf að vinna að því að ná mörkuðum og verði fyrir þessa úrvalsvöru okkar í samræmi við það sem henni ber. Á þessu ári verður starfað í þessa átt meira en gert hefur verið að undanförnu, og er það aðeins skref á þeirri braut sem þarf að ganga í því að afla okkur sæmilegra markaða.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. Sú aðferð, sem fundin er upp til þess að skerða útflutningsbótaféð og grafa undan grundvelli útflutningsbótanna í þessu frv., er í sjálfu sér athugandi, ef hún hefði ekki þann tilgang sem frv. greinir. Ef skipta ætti sundur grundvelli útflutningsbótaréttarins eftir framleiðslugreinum og eðlilegar hlutfallstölur væru notaðar, þá kemur að mínum dómi sú aðferð til athugunar. Ég mun þó hvergi ljá máls á slíku fyrr en ég sannfærist um það, að þessar höfuðframleiðslugreinar íslensks landbúnaðar stæðu a. m. k. jafnréttar eftir sem áður. En þeirri leið, sem hér er mótuð, sem hefur þann tilgang beint að skerða og eyða útflutningsbótaréttinum, er ég gersamlega andvigur og frv. í heild.