07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2774 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

53. mál, innlend fóðurbætisframleiðsla

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og einnig fyrir það erfiði sem hann lagði á sig við að knýja þessi svör fram, sem alldjúpt virtist ætla að verða á um tíma. Ég vil leggja áherslu á nauðsyn þess, að birtar séu niðurstöður af rannsóknum, sem framkvæmdar eru á vegum landbúnaðarins, og umfram alla muni, að bændur eigi aðgang að ljósum svörum um þessar niðurstöður. Því fer víðs fjarri, að svo sé um niðurstöður af öllum þeim rannsóknum sem framkvæmdar eru á vegum landbúnaðarins. Ég vil minna á það, að mjög lengi hafa verið gerðar tilraunir á vegum landbúnaðarins með búvélar, notagildi þeirra og ágæti fyrir landbúnaðinn. Niðurstöður af þessum umfangsmiklu tilraunum eru aldrei birtar, og bændur, sem leita eftir upplýsingum um niðurstöður af slíkum rannsóknum, fá ekki svör, beinlínis vegna þess að það verður að taka þarna tillit til hagsmuna innflytjenda. Þegar á er gengið virkilega um svörin, þá verða þau eingöngu þau, að niðurstöðurnar, ef birtar yrðu af þessum rannsóknum, kynnu að hafa áhrif á vélaval bænda. En ég ítreka það, að ég tel alveg bráðnauðsynlegt að niðurstöðurnar af rannsóknum af þessu tagi, á fóðurgildi graskögglanna og á notagildi véla, sem fram eru boðnar til landbúnaðarins hér, myndi ekki bara einhvers konar einangrað viskusafn í höfðum sérfræðinganna sem að þessum rannsóknum vinna, heldur megi verða til nota fyrir bændastéttina.