07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

190. mál, vegur í Mánárskriðum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Vegalög eða vegáætlun verður til umr. nú innan skamms og gefst þá tækifæri til þess að athuga sérstaklega það mál sem hér er gerð fyrirspurn um. En ég vildi leyfa mér að taka undir með hv. fyrirspyrjanda, Eyjólfi K. Jónssyni, að hér er um mjög mikið nauðsynjamál að ræða og mönnum hefur orðið það æ ljósara, eftir því sem árin hafa liðið, að núverandi ástand á þessum vegi er algjörlega óviðunandi. Satt best að segja, þá hefur margan manninn undrað það, hversu mjög hefur dregist úr hömlu, að sú athugun, sem fsp. beinist að, færi fram, því að till. þessa efnis var samþ. fyrir þó talsvert löngu og ekki sjáanlegt að á þessu þyrfti að verða svo óhæfilegur dráttur sem orðið hefur. Og án þess að orðlengja það frekar, þá vil ég mega vænta þess að hægt verði að taka þetta mál föstum tökum nú við afgreiðslu vegáætlunar.