14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

214. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram til hæstv. iðnrh. fsp. um það, hvað iðnrn. hyggst gera í málefnum Rafmagnseftirlits ríkisins í framhaldi af grg. og skýrslu vinnuhóps um málefni þess til rafmagnseftirlitsstjóra, sem nú hefur verið sent iðnrn. Ég hef áður borið fram svipaða fsp. til hæstv. iðnrh. Mér hefur lengi verið ljóst, að nauðsyn ber til að gera Rafmagnseftirlit ríkisins valdameira og sjálfstæðara. Það er í raun ófært að eftirlitsstofnun svo þýðingarmikil sem þessi er skuli vera undirdeild hjá þeim aðila sem eftirlit þarf að hafa með, svo sem nú er. Eystra hef ég af eigin raun kynnst vanda eftirlitsmannsins þar, sem er mjög samviskusamur og ötull starfsmaður, en kemst allt of skammt vegna ófullnægjandi valds til aðgerða og einnig vegna ónógs sjálfstæðis og frumkvæðis sjálfrar stofnunarinnar.

Ég fékk í hendur mjög athyglisvert plagg frá vinnuhópi um málefni Rafmagnseftirlits ríkisins, grg. og skýrslu til rafmagnseftirlitsstjóra sem nú er komin til rn. fyrir nokkuð löngu og mun þar í athugun. Ég efast ekki um að inn í þetta blandast allsherjarathugun á orkulögunum, sem nú fer fram, en það ætti þó ekki að koma í veg fyrir nauðsynlegustu úrbætur í málefnum Rafmagnseftirlits ríkisins, sem grg. sýnir ljóslega að helst vanhagar um. Hér er um að ræða álit um skipulag Rafmagnseftirlits ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir að það starfi sem fjárhagslega sjálfstæð stofnun. Er gert ráð fyrir að valdsvið þess sé aukið, að eftirlit sé bætt að mun bæði með orkuvirkjun og ekki síður allri raffangaprófun, sem nú er mjög ábótavant. Síðast en ekki síst er lögð á það höfuðáhersla í þessu plaggi, að fræðsla verði stóraukin og þá alveg sér í lagi í ríkisfjölmiðlunum.

Þessi grg. felur einnig í sér til.1. um nýja og aukna tekjustofna sem nýta beri til að standa straum af auknum kostnaði sem af þessu öllu leiddi. Það er sem sagt ekki reiknað með því, að þessi ríkisstofnun eigi að kosta ríkið meira eftir að þetta hefur farið fram sem hér er gert ráð fyrir. Hér er komið með fjórar mjög skýrar og ákveðnar till. um tekjustofna, ýmist mjög aukna tekjustofna eða þá alveg nýja.

Undir þessa grg. skrifa hinir ágætustu menn. Þetta eru menn innan stofnunarinnar sem utan, og ég tel grg. þessa því marktæka hið besta. Því er von að spurt sé, hvað gert verði í framhaldi af þessum ítarlegu till sem felast í grg.

Ég taldi nauðsyn að spyrja hæstv. iðnrh. um þetta vegna þess að ég hafði í huga tillöguflutning varðandi Rafmagnseftirlit ríkisins, en vildi áður en ég færi út í þá tillögugerð eða tillöguflutning. fá svör um það, hvort svona ítarleg grg. sem hér er lögð fram mundi ekki framkalla viðbrögð hjá rn. um vissar úrbætur eða jafnvel breytingu á fyrirkomulagi Rafmagnseftirlits ríkisins.