31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

147. mál, orkusparnaður

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Varðandi hug og óskir hæstv. forseta um að menn haldi sig að þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, verð ég að biðja um leyfi herra forseta að fara út fyrir till. að gefnu tilefni. Varðandi þáltill. sjálfa sé ég ekki að hún sem slík kalli á allar þær umr. sem hér hafa átt sér stað, en þar segir orðrétt með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera úttekt á orkubúskap Íslendinga og að hefja markvissar aðgerðir í því skyni að auka hagkvæmni í orkunotkun þjóðarinnar og draga úr henni, þar sem þess er kostur.“

Það hlýtur hver einasti þm. og hver einasti maður utan þings líka að vera sammála því að fela ríkisstj. að gera þá úttekt sem hér er farið fram á að samþykkt verði.

Hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, gat þess, að þessi till. væri í anda þeirrar hugsunar sem komið hefði fram hjá Bandaríkjaforseta, að forsetinn legði heiður sinn að veði um að stefna hans skyldi ná fram að ganga. Ég held að það væri þá tvímælalaust okkur í hag, hafandi í huga hvað bandaríska þjóðfélagið er tækniþróað, að fela ríkisstj. að láta þessa könnun fara fram og fela ríkisstj. jafnframt — eða það þarf ekki að fela henni það, hún gerir það að sjálfsögðu óumbeðin — að fylgjast með hvaða till. koma fram í Bandaríkjunum sem miða að því að spara orku. Og ég held að það, sem þarf að gera eftir á, verði þá eitthvað annað en það sem komið hefur fram hér hjá flestum þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls — og ég vil taka alveg sérstaklega fram: hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. og 2. þm. Austurl., en það er að hækka taxta, hækka gjöld á þjóðinni til þess að standa undir því, sem verið er að gera, og þá væntanlega því, sem er eftir að gera á þeirri sömu braut sem hún hefur verið á. Ef aftur á móti þessi till. nær tilgangi sínum og um sparnað gæti verið að ræða að verulegu leyti, þá ætti að vera hægt að lækka gjöld og lækka þannig rafmagnstaxta.

Það er margt sem kemur fram í þessari till. og í grg. sem ég get verið sammála. Þar koma t. d. fram hugmyndir um að auka kröfur um einangrun húsa. Hins vegar er ég ekki sammála um að gluggastærðir eigi að minnka til þess að spara hita. En annað, eins og sjálfvirk stjórntæki og ýmsir aðrir þættir sem talað er um hér, gæti verið orkusparandi, um það er ég sammála.

Á 2. síðu er talað um að við notkun heimilistækja væri með fræðslu um notkun tækjanna og fræðslu í hvaða ástandi tækin eiga að vera hverju sinni, umhugsun og eftirliti hægt að spara 25% af þeirri orku sem þau nú taka. Þetta er stórmerkileg fullyrðing, og ég efast ekki um að flm. hafi kynnt sér málið nægilega til að geta fullyrt að hægt sé að spara þessa prósentutölu í orkunotkun.

Þá kemur 3. liður gr., þar sem talað er um aukningu á notkun almenningsbifreiða og að draga úr einkabifreiðanotkun. Það verður ekki gert nema með einhvers konar Sovéthugsunarhætti að fara að ráðstafa hvaða flutningatæki menn velja sér til og frá þeim stöðum sem þeir ætla að ferðast milli. Hitt er annað mál, að ég flutti á síðasta borgarráðsfundi till. um að fela stjórn Strætisvagnanna að kynna sér þá þróun sem orðið hefur í Bandaríkjunum í notkun rafmagnsvagna. Í Bandaríkjunum er nú verið að gera tilraun, sem virðist ætla að takast, með notkun almenningsvagna sem knúnir eru með rafmagni. Þar er hleðslustöðvum dreift á sama hátt og bensinstöðvum er dreift í dag. Strætisvagnar geta haft hleðslutæki og hleðslustöðvar á endastöðvum og skipt um rafgeyma, sem eru í skúffu sem dregin er út úr vögnunum, og sett nýjar skúffur fullhlaðnar í staðinn. Þetta gæti vel komið að gagni hér.

Ég vil líka taka undir það sem segir í 3. lið grg., að almenningsvagnar eiga að njóta ákveðinna fríðinda við innflutning, þannig að þeir verði ódýrari farkostur en þeir eru nú. Það gerði bæjarfélögunum, og á ég þá sérstaklega við Reykjavíkurborg og þann byggðakjarna sem er hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, því að þar er notkun almenningsvagna meiri en annars staðar á landinu, — það gerði þessum bæjarfélögum og öðrum að sjálfsögðu kleift að veita þessa þjónustu í æ ríkara mæli, ef hinum þungu tollum og aðflutningsgjöldum og opinberum gjöldum almennt væri létt af þessum þjóðþrifafyrirtækjum.

Þetta er það helsta sem ég vil segja um frv. Ég vil upplýsa hv. 5. þm. Norðurl. e. um það, að Reykjavíkurborg hafði gert samning við sænskt fyrirtæki um útflutning á heitu vatni sem var þegar undirskrifaður. Allt virtist til reiðu frá okkar hálfu, og Reykjavíkurborg hafði þegar hafið könnun á því, hvar best væri að skipa út þessu heita vatni hér innan borgarmarkanna. En Svíarnir, sem þóttust vera komnir það vel á veg að geta notað heitt vatn héðan, töldu það ekki hagkvæmt á þessu stigi, flutningskostnaður væri að þeirra mati of hár. En þetta er eitt af því sem hefur verið kannað og komið lengra áleiðis en hv. þm. virðist vita um.

Ég get ekki látið hjá líða, herra forseti, að svíkjast svolítið undan þeim merkjum, sem ræðumenn voru beðnir um að virða, og fara út í aðra sálma og þá almennt um þær umr. sem hér hafa átt sér stað.

Ég vil taka þátt í gríni þeirra hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og Karvels Pálmasonar, á sama tíma sem ég vil taka upp hanskann fyrir þá þingfréttaritara sem hér eru. Ég held að það sé mikil tillitssemi sem í því felst, að þingfréttaritarar segi sem allra minnst frá málflutningi þessara tveggja félaga hverju sinni. Ég sé ekki að þjóðin verði af neinu sérstöku við það. Og þó að meira sé talað í fjölmiðlum um Lúðvík heldur en Karvel, eftir því sem Karvel segir sjálfur, þá þætti mér afskaplega gott að það yrði jafnt á báða bóga og þá miðað við minnkandi umr. opinberlega um þá. Ég sé ekki að nokkur skapaður hluti hafi komið málefnalega frá þeim í þessum umr.

Ég held að ég verði að snúa mér enn þá einu sinni að hv. 6. þm. Norðurl. e., þar sem hann talar ekki í fyrsta skipti um að það þurfi að dreifa meiri kostnaði á þéttbýliskjarna, og ég geri ráð fyrir að hann eigi þá fyrst og fremst við þann þéttbýliskjarna sem er hér á suðvesturhorni landsins og er nú að verða eins konar vinnudýr fyrir landsbyggðina á margan hátt. Kröfur utan af landsbyggðinni aukast í réttu hlutfalli við framkvæmdir til hagsbóta hér á höfuðborgarsvæðinu. En ég vil leyfa mér að hafa þá skoðun, að þjóðfélagið verði aldrei fært um að skapa sömu skilyrði til handa íbúum upp til fjalla eins og þeirra sem búa í þéttbýli, þar sem samtakamátturinn fær að njóta sín. Að halda öðru fram er að gefa fólkinu úti á landsbyggðinni falskar vonir.

Rafmagnsveita Reykjavíkur kaupir kwst. af raforku á 4 kr. frá Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins kaupa líka kwst. á 4 kr., þannig að hér er sama heildsöluverð eins og um fyrirtæki væri að ræða sem dreifði um landsbyggðina alla. En ég vil bæta því við, að þátttaka Reykjavíkurborgar í rafvæðingu er langt umfram þær þarfir sem Rafmagnsveita Reykjavíkur þarf að nota fyrir Reykjavíkursvæðið, því að Reykjavíkurborg er helmingsaðili að Landsvirkjun og þeir milljarðar, sem verið er að fjárfesta nú, eru ekki fyrir Reykjavíkurborg sem slíka. Hún er þáttur í rafvæðingu landsins og landsbyggðarinnar, og ég veit ekki til þess að Reykjavíkurborg hafi enn fengið útgreiddan arð af þeim ábyrgðum og þeim fjármunum, sem hún hefur lagt í Landsvirkjun. En væri krafa Reykjavíkurborgar sú hin sama um stofnun Orkubús Reykjavíkurborgar og fram hefur komið við stofnun t. d. Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjun væri skipt upp og Reykjavíkurborg fengi sinn eignarhluta út úr Landsvirkjun, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að Reykjavíkurborg fengi raforkuver til þess að fullnægja sinni raforkuþörf og ætti inni hjá Landsvirkjun þar fyrir utan. En Reykjavíkurborg er ekki með þau Reykjavíkursjónarmið eða Reykjavíkurpólitík, sem margir landsbyggðarþm. hafa haldið hér fram hvað eftir annað og ég kalla útkjálkasjónarmið, og þess vegna er Reykjavíkurborg þátttakandi í uppbyggingu og rafvæðingu í þeim ríka mæli sem raun ber vitni með þátttöku sinni í Landsvirkjun.

Varðandi þær hugsanir og þær hugmyndir, sem hér hafa komið fram og er jafnað við jöfnunarverð á bensíni og olíu og úr því að á að fara niður í þetta þó miklu minni lið en raforkuna, af hverju voru ekki tryggingarnar teknar með, nema af því að tryggingarnar eru helmingi lægri úti á landi heldur en á höfuðborgarsvæðinu? Þá er það barið niður. Ég held að Reykvíkingar séu orðnir langþreyttir á verðjöfnun. Ég skal ekki mæla sérstaklega bót þeirri verðhækkun sem hefur orðið á rafmagni undanfarna daga, nema síður sé. En í þessari stöðu sé ég ekki að ríkisstj. hafi margar leiðir að fara, svo að ég get ekki og vil ekki á þessu augnabliki segja um það, hvort þessi leið var rétt eða röng, enda hef ég ekki tekið neinn þátt í umr. innan þingflokksins um þessa hækkun. Því segi ég: Ég vona að þm. almennt finni aðrar leiðir og aðrar till. til úrbóta fyrir landsbyggðarfólk en að hlaða sífellt á herðar Reykvíkinga aukinni skattgreiðslu. Fólk hér á höfuðborgarkjarnanum verður að fá að njóta hugvits síns og samtakamáttar við að búa þétt. Það er líka viss ókostur í því, sem aðrir landsbyggðakjarnar þurfa ekki að sinna.

Hitt er svo annað mál, hvort það er ekki staðreynd, að kapphlaupið á milli þess, sem samtakamáttur fólks á þéttbýlissvæðunum kemur til leiðar, og hins, að jafna milli þeirra, sem búa fjærst og ekki eru í þéttbýliskjörnum, sé orðið svo ofsalegt að þjóðfélagið hafi ekki efni á að fjárfesta í því eins og er. Ég ítreka það, að aldrei verður hægt að veita fólki, sem býr upp til fjalla, sömu þjónustu og þeim sem búa hér á þéttbýliskjarnanum, það er ekki hægt. Það er að gefa fólkinu — ég ítreka það — alrangar vonir því til handa, og það er illa gert af þeim sem þykjast tala máli þessa fólks. Það á að láta það vita nákvæmlega hverju það getur átt von á og hverju það getur ekki átt von á. Það er enginn hér á þéttbýliskjarnanum sem neitar að taka á sig eðlilegar byrðar við uppbyggingu landsins alls. En það ern fjölmargir hér sem eru farnir að tala um það, að duttlungar, sem komast hér inn á þing, séu orðnir baggi á þjóðfélaginu öllu, ekki bara á þéttbýliskjörnum. Það er kominn tími til að þm. fari að athuga sinn gang hvað það snertir.