04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3090 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

143. mál, hönnun nýs alþingishúss

Valborg Harðardóttir:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðh. svörin og fagna því, að honum skuli þykja sjálfsagt að taka tillit til þessara hluta í þeim byggingum sem eftir er að reisa hér, þá vildi ég mega beina því til hæstv. ráðh. allra og annarra þeirra, sem forráð hafa, að þeir beiti sér fyrir lagfæringum í eldri opinberum byggingum sem eru þannig úr garði gerðar að ekki komist allir um þær. Og ég vil fagna því, sem kom fram í máli hv. þm. Odds Ólafssonar áðan, að hugsað skuli hafa verið fyrir þessu í nýjum byggingarlögum.

Jafnframt vil ég taka undir það með hv. þm. Benedikt Gröndal, að það má segja, að þetta sé áminning, en því miður er hún aldeilis ekki óþörf.