04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

351. mál, gjaldtaka á fjölsóttum stöðum í umsjá ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Nú er sem sagt komið í ljós, sem ég og margir fleiri höfðu grun um, að hér hefur átt sér stað gjaldtaka sem nemur á aðra millj. kr. án þess að farið sé eftir lögum. Þetta er svo alvarlegt mál að mínu mati, að það þarf rannsóknar við, hvorki meira né minna en það. Eftir bestu heimildum sem ég hef í höndunum nú, og skal taka fram að ég veit ekki annað en ég fari hér með rétt mál, það verður þá leiðrétt, þá hefur gjaldtaka á eftirfarandi stöðum átt sér stað: Landmannalaugar, Nýidalur, Herðubreiðarlindir, Hveravellir, Kerlingarfjöll, Þórsmörk. Það er ekki viðunandi nema fá um þetta glögg skil.

Ég er ekki að væna hæstv. samgrh. um eitt eða neitt í þessu efni. En þegar þetta fer fram án þess að samgrh. viti og samkv. þessari grein, sem er tilnefnd í lögunum, þá þarf þetta mál að liggja ljóst fyrir, hver hefur innheimt gjaldið og hvernig fénu hefur verið ráðstafað.

Ég fullyrði hér úr ræðustól, að það er búið að borga, eftir því sem mér er sagt af ferðaskrifstofum, á aðra millj. kr. á þessum stöðum samtals. Ég hef því miður ekki handbæra nákvæma sundurliðun á viðkomandi staði, en það væri sennilega hægt að fá kvittanir ef á þarf að halda. Hér er þess vegna ekki skemmtilegt mál á ferðinni. Hæstv. ráðh. upplýsti að ekki hefði verið notuð heimild eins og lagagr. segir til um. Hverjir ákváðu þessa gjaldtöku þá og í skjóli hvaða laga? Það er fsp. mín. Ég á ekki kost á að standa hér upp aftur, en ég óska þess, að þetta mál verði rannsakað niður í kjölinn og við fáum skýrslu um það hér á Alþ. áður en því lýkur.