04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3101 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

185. mál, Álafoss hf.

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, eignaðist Framkvæmdasjóður eða Framkvæmdastofnunin þetta fyrirtæki nánast í nauðvörn. Því höfðu verið lánaðar allverulegar fjárhæðir, það var gjaldþrota, og þetta var talin helsta leiðin til að bjarga því fjármagni sem í fyrirtækið hafði verið lagt. Ég var þessu sammála á sínum tíma. Ég sá ekki aðra leið til þess að bjarga þessu fjármagni. Ég tel hins vegar ákaflega óeðlilegt, að stofnun, sem er með lánasjóði í sínum vörslum og veitir lán úr þeim til skyldra fyrirtækja, reki fyrirtæki eins og Álafoss. Í þessu tilfelli er það sem sagt Framkvæmdastofnunin með bæði Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð. Þetta skapar óþarfa tortryggni. Ég er ekki að segja að þessi aðstaða hafi verið misnotuð, þó að Álafoss hafi verið lánað úr Framkvæmdasjóði. Það hefur verið gert, en ég tel að það hafi ekki verið óeðlilegt. En þetta skapar, eins og ég sagði, óþarfa tortryggni. Ég tel því eðlilegast að stofnunin losi sig við þetta fyrirtæki, ef hún getur á þann máta, að hún endurheimti það fjármagn, sem hún hefur lagt í það, og fari skaðlaus frá. Það kæmi vitanlega til greina að það yrði rekið áfram sem ríkisfyrirtæki, en þá sem sjálfstætt ríkisfyrirtæki, en ekki sem eign Framkvæmdastofnunarinnar. Hins vegar tel ég einnig vel koma til greina að selja fyrirtækið, ef unnt er að finna kaupanda að því, t. d. starfslið þar, ef það vildi taka sig saman og kaupa fyrirtækið, og því verði gert það kleift, eða einhverjum öðrum aðila sem hefði til þess bolmagn. Ég vil alls ekki útiloka þann möguleika heldur. Því vil ég láta það koma hér fram, að ég hef hreyft þeirri hugmynd oftar en einu sinni í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, að leitað verði eftir því, hvort unnt er að selja þetta fyrirtæki, þannig að Framkvæmdastofnunin endurheimti það sem hún hefur í það lagt.