04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstaddur þegar þessar umr. byrjuðu, en vildi segja hér örfá orð, þar sem ég lenti í þeirri markaðsnefnd sem hér hefur orðið nokkuð til umr. Ég veit ekki hvort ég á að biðja hv. 9. landsk. þm. afsökunar á því að vera í þeirri n., þar sem ég er karlmaður, en ekki kvenmaður. En ég tel að ég eigi ekki sök á því, þá það, að ég hafi ekki afneitað því að taka sæti í n. En ég held að það skipti ekki öllu máli. Hins vegar vil ég skýra frá því, að n. hefur kallað á sinn fund m. a. húsmæðrakennara til þess að leita ráða hjá, svo að það hefur ekki að öllu leyti verið gengið fram hjá kvenfólkinu.

Þessi markaðsmál eru vitanlega mjög yfirgripsmikil og væri hægt að segja um þau miklu meira en hér er hægt á tveimur mínútum. En ég vil aðeins benda á erfiðleikana í þessu sambandi, og það eru hinar miklu sveiflur sem eru á útflutningi landbúnaðarvara. Við getum tekið sem dæmi, að fyrir 2–3 árum var svo til ekkert flutt út af mjólkurvörum. Þá var alveg hætt að flytja út osta, sem höfðu verið fluttir út um nokkurt skeið og voru búnir að vinna sér markað í Bandaríkjunum. En svo þegar útflutningurinn stöðvaðist misstum við, má segja, fótfestu á þessum markaði, og það var mjög erfitt að vinna hann upp aftur þegar við þurftum aftur á útflutningnum að halda. Þetta á við um fleiri afurðir.

Það er vitanlega sjálfsagt að reyna að leita nýrra markaða og það hefur verið gert á ýmsan hátt. Það er verið að þróa ýmsar vörutegundir í neytendapakkningum og reyna að leita að vörum sem gætu gengið til sölu á erlendum markaði. Það hefur verið minnst hér á reykt kjöt, og ég vil aðeins geta þess sem dæmis um þá annmarka sem eru á þessu, að það mun vera mjög erfitt að fá útflutningsleyfi, a. m. k. til sumra landa, á okkar reykta kjöti, vegna þeirrar framleiðsluaðferðar sem notuð er hér, þ. e. a. s. vegna þess efnis sem við erum vön að nota við reykinguna. Líklega er útilokað að fá útflutnings- eða innflutningsleyfi í mörgum löndum fyrir þessa vöru vegna þess. En þó er verið að reyna að sjóða reykt kjöt niður, því að það er vandi að geyma reykt kjöt án þess að það skemmist.

Eins og hér hefur komið skýrt fram, þá er það fyrst og fremst, að við þurfum að fá sem hæst verð fyrir okkar framleiðslu. Það er stóra atriðið fyrir okkur. Og þá þurfum við að nota þá markaði sem eru hagkvæmastir. Nú um nokkurra ára skeið hefur norski markaðurinn verið langhagkvæmastur; en þar hefur magnið verið nokkuð takmarkað, og á s. l. hausti var búist við að þarna yrði um verulega lækkun að ræða. Þá var farið að þreifa meira fyrir sér á öðrum mörkuðum. Nú þegar liðið er á sölutímabilið á framleiðslu síðasta hausts og búið að selja töluvert magn af kjöti til annarra landa, þá kemur í ljós að Norðmennirnir munu taka við eitthvað meiru á hærra verði. Það er vafalaust til nóg kjöt til að uppfylla þetta, en það sýnir bara að þarna er vandamál við að eiga, að víð megum vara okkur á því að þrýsta of mikið inn á markaði, sem ekki gefa hæsta verðið til þess að spila ekki af okkur. Sem sagt, það væri mjög annað viðhorf ef við gætum selt allt okkar dilkakjöt til Noregs. Það skilaði töluvert betra verði. En það er erfitt þegar ekki er vitað fyrir fram hve miklu þeir taka á móti. Og magnið, sem afgangs er núna, er svo lítið að það skapar líka erfiðleika að vinna stöðugan markað fyrir svo lítið magn í öðrum löndum.