31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

40. mál, skólakostnaður

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að fara að rífast við hv. þm. um þetta einfalda mál. Ég minnist þess, að hv. menntmn. leitaði umsagna hjá íþróttafulltrúa ríkisins, hjá Íþróttasambandi Íslands, hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hugsanlega einhverjum fleiri. Ég held að ég muni það rétt, að þessar umsagnir voru ekki allar fullkomlega jákvæðar eða yfirlýsingar um að ætti að samþykkja frv. eins og það lægi fyrir, þannig að það eru fleiri en ég sem hafa haft eitthvað við þetta frv. að athuga.

Ég sagði áðan, að ég hefði athugasemdir fram að færa af tæknilegum ástæðum, og ég endurtek það. Þá á ég við að frv. er gallað eins og það er. Og þegar það kemur fyrir menntmn. sem slíkt, þá er um það að ræða fyrir n. að afgreiða málið alls ekki eða afgreiða málið með því að leggja til að það verði fellt eða þá sem n. gerði, að vísa málinu með velviljaðri umsögn til ríkisstj. til nánari athugunar. Þess vegna mótmæli ég því algerlega að menntmn. sé að svæfa málið. Það hefði hún getað gert með fyrstnefndu kostunum, sem ég nefndi, en úr því að n. á annað borð gat ekki og treysti sér ekki til að samþykkja frv. eins og það lá fyrir vegna þeirra galla sem ég hef hent á, þá held ég að þetta hafi verið besti kosturinn fyrir flm. frv. og viss undirtekt undir málið. Sú afgreiðsla, er byggð á þeim forsendum, sem ég rakti áðan í minni ræðu.

Ég held að það sé óþarfi að stilla þessu frv. þannig upp, að hér sé um líf eða dauða að tefla. Það er auðvitað mjög afstætt og langsótt undir vissum kringumstæðum. Ég get tekið undir það, að öll hreyfing, öll íþróttaiðkun er til þess fallin að menn séu betur við áföllum búnir, bæði vegna slysa og vegna veikinda. En ég fer ekki að halda því fram að stuðningur við íþróttahreyfinguna sé beinlínis spurning um það hvort fólk lifi hér eða deyi. — Nóg um það.

Ég sagði áðan að innan vébanda íþróttahreyfingarinnar væru um 60 þús. manns. Ég hef hér tölur um það, alveg nýjar tölur, og það eru tölur um iðkendur innan íþróttahreyfingarinnar, svo að ástæðulaust er að vefengja það, og ég er ekki að þreyta fámennan þingheim með því að lesa upp þær tölur í einstökum atriðum. En það eru upplýsingar frá félögum, frá sérsamböndum, frá ungmennafélögum og frá héraðssamböndum um það, hversu margir iðkendur eru í hverri íþróttagrein, af hvaða kyni, hvar þeir búi, og það er mjög nákvæm skýrsla og alls ekki ástæða til þess að rengja hana. Ég held sem sagt, að það sé sönnun þess að innan íþróttahreyfingarinnar er unnið mjög merkilegt starf og mjög blómlegt starf. (Gripið fram í.) Nei, skólarnir eru ekki innifaldir, nema þá að því leyti sem nemendur eru félagar í ákveðnum íþróttafélögum. Þessa tölu má vissulega hækka, en íþróttafélögin hafa því miður ekki getað sinnt frekara starfi af þeim ástæðum, sem ég rakti áðan, að þar skortir rekstrarfé og starfsaðstöðu í miklum mæli.

Hv. þm. Jónas Árnason vék að því, að stjörnudýrkun væri of mikil og keppnisíþróttir gætu e.t.v. leitt til þess að fólk sæti kyrrt of mikið til þess að horfa á íþróttir, annaðhvort á vellinum eða í sjónvarpi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta geti hvort tveggja farið saman, keppnisíþróttir og stjörnudýrkun annars vegar og almenningsíþróttir hins vegar, vegna þess að keppnin dregur að, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og stjörnurnar örva unglingana til dáða, vekja athygli á íþróttaiðkun. Það er hvati fyrir unglingana og fyrir æskuna, þegar íslenskum íþróttamönnum gengur vel. Við eigum þess vegna að reyna að örva keppnisíþróttir og afreksmenn til dáða, og ég held að það hjálpi til þess að allur almenningur hafi meiri skilning á íþróttunum.