11.04.1978
Sameinað þing: 64. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

223. mál, útflutningur tilbúinna fiskrétta

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Um svar við þessum fsp. hv. 2. landsk. þm. var haft samráð við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Samband ísl. samvinnufélaga og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

Tæknilega er lítið því til fyrirstöðu að framleiða fiskskammta og fleira þess háttar í neytendapakkningar hér á landi. Mikla þekkingu á mörkuðum erlendis þarf til að framleiða tilbúna rétti fyrir fólk með ólíkan smekk. Fiskstautar og annað, sem framleitt er í verksmiðjum okkar fyrir vestan, er í háum tollaflokki í Bandaríkjunum og er yfirleitt mjög dýrt að selja mikið unna vöru þar. Geymsluþol á þessum forsteiktu eða hálfmatreiddu réttum er tiltölulega lítið, og einn farmur, sem þránar vegna of langrar geymslu eða ófullnægjandi skilyrða, getur þurrkað út margra ára ávinning. Verksmiðjurnar íslensku í Bandaríkjunum hafa gert okkur kleift að selja mun meira en ella og reynslan hefur sýnt, að þær greiða yfirleitt hæsta fáanlegt verð fyrir afurðir okkar. Atvinnulega og þjóðhagslega séð er þó e. t. v. athugandi, hvort meiri fullvinnsla er möguleg, t. d. mætti móta fiskinn í ákveðna lögun og ákveðna þyngd áður en hann er frystur og auka vinnsluvirðið á þann hátt. E. t. v. gæti borgað sig að vinna einstakar, en þó ekki forsteiktar afurðir í neytendapakkningar, en þetta hefur verið reynt hér.

Samband ísl. samvinnufélaga stofnaði Fiskrétti hf. á árunum eftir 1970 og flutti fiskrétti til Evrópu. Það fyrirtæki hætti störfum eftir tveggja ára starf og mikinn taprekstur.

Hinn 5. maí 1966 var samþ. á Alþ. þáltill. um athugun á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og eflingu þeirra iðngreina sem vinna útflutningsverðmæti úr sjávarafla. Samkv. þeirri samþykkt átti ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að gera þessa athugun. Það var gert, og nefndin afhenti sjútvrn. skýrslu í ágúst 1968. Er í henni margar upplýsingar að finna um þessi mál öll.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða frystihús innan vébanda hennar hafa ekki til þessa framleitt tilreiddar fiskafurðir eða blokkskornar vörur á Íslandi til útflutnings, en hins vegar hefur dótturfyrirtæki SH í Bandaríkjunum, Coldwater Seafood Corporation, starfrækt verksmiðju þar í landi í tvo og hálfan áratug, og annað dótturfyrirtæki SH starfrækti litla verksmiðju í Englandi á árunum 1958–1963. Og þá er ný verksmiðja í Bandaríkjunum að hefja vinnslu um þessar mundir, í Everett. Um tíma var unnið að undirbúningi stofnunar verksmiðju í Hollandi með tilliti til sölu í löndum Efnahagsbandalagsins, en af framkvæmdum varð ekki.

Ekkert frystihús hér á landi leggur sérstaka áherslu á blokkavinnslu, heldur er í nær öllum tilfellum um að ræða vinnslu úr hráefni sem ekki hentar í vandaðri flakapakningar. Þróun undanfarinna ára hefur verið frá flakapakningum og er öfugt við það, sem spáð var fyrir 15–20 árum, þegar vinnsla úr blokk var á bernskuskeiði sem iðnaður. Verksmiðja á Íslandi yrði því að safna blokk víða að, kosta síðan flutning afurða á erlenda markaði. Flutningskostnaður mundi því aukast, auk þess sem afurðirnar eru fyrirferðarmeiri en blokkirnar og vandasamari í flutningi vegna brothættu. Hráefni við þessa framleiðslu yrði um 25–50% innflutt, og mundi um leið vera mikill flutningskostnaður á því.

Þegar þetta allt er athugað er að dómi þeirra manna, sem gerst þekkja þessi mál, ekki talið þjóðhagslega hagstætt að stofna til slíkrar verksmiðju hér á landi. Þar koma auðvitað til mörg önnur atriði en ég hef þegar nefnt, þ. á m. óhagstæð skipun tollamála, sem gerir að verkum að þessi framleiðsla verður okkur hagstæðari í öðru landi, fyrir utan þann mikla kostnað, sem yrði af flutningi á þessari vöru, fyrst innanlands og síðan til útlanda, og innflutningi á hráefni til þessarar vinnslu. Hitt er annað mál og er þörf spurning að leggja fram, að hér þarf auðvitað að taka tillit til þess, hvort ekki sé hægt að gera þessa framleiðslu verðmætari heima, þó að ekki komi til greina að byggja slíka verksmiðju og selja þessa vöru fullunna úr landi.

2. lið fsp. er mjög erfitt að svara, eins og hv. flm. tók fram. Útreikningur sem þessi yrði mjög flókinn og yrði við hann að ganga út frá forsendum sem ekki eru fyrir hendi. Enn fremur skal þess getið, að gjaldeyristap Íslendinga vegna útflutnings á blokk hefur ekki verið reiknað út nýlega. Treysti ég mér því ekki til þess að svara nánar þessari fsp. Á bak við það er svo mikil vinna og enn fremur erfitt að ákveða út frá hvaða forsendum eigi að finna tapið.

Um fjölda starfsfólks í fiskverksmiðjum, sem Íslendingar eiga erlendis, er það að segja, að hjá verksmiðjum Coldwater í Bandaríkjunum starfa milli 300 og 400 manns og hjá Icelandic Products er fjöldi starfsmanna nú liðlega 200 manns.

Um 4. spurninguna, viðvíkjandi horfum á Evrópumarkaði, skal þess getið, að á síðustu missirum hefur sala á frystum fiski til Evrópumarkaðslanda aukist verulega. Þar kemur til lækkun tolla og aukin eftirspurn eftir freðfiski, sem aftur á móti á rót sína að rekja til þeirra breytinga sem orðið hafa á fiskveiðilögsögu hinna ýmsu ríkja. Í Evrópulöndum er hins vegar mikil samkeppni ríkjandi milli vel þekktra vörumerkja og verðið hefur allt fram á síðustu tíma verið lægra en í Bandaríkjunum. Enn mun því nokkuð langt í land að upp komi í Evrópu markaður fyrir fiskrétti er keppt gæti í verði við hliðstæðan markað í Bandaríkjunum.

Við þessar fsp. allar vil ég bæta því, að við verslum aðallega með freðfisk við tvö lönd: í fyrsta lagi Bandaríkin og í öðru lagi Sovétríkin. Bandaríkin, eins og flest önnur lönd, hafa nú fært fiskveiðilögsögu sína út í 200 mílur. Þar eru víða auðug fiskimið og er sjáanleg stórfelld aukning á fiskveiðum innan bandarískrar fiskveiðilögsögu, en sömuleiðis fer vaxandi áhugi nokkurra þjóða, sem fiskveiðar stunda, að fá fiskveiðiheimildir innan þeirrar fiskveiðilögsögu. Allt þetta getur skapað og kemur til með að skapa vaxandi samkeppni um veiðar og sölu á fiski í þessu fjölmenna ríki. Hitt aðalviðskiptaríkið, Sovétríkin, hefur verið með annan stærsta úthafsveiðiflota heims og við útfærslu í 200 mílur, jafnviðtækt og það er, hafa þeir brugðist við sínum vanda á þann hátt, að þeir hafa samið við fjölmargar þjóðir, t. d. við þjóðir sem liggja að Indlandshafi, þjóðir víða í Afríku og nú fyrir skömmu við Marokkó, um að sovéski flotinn fái að fiska innan fiskveiðilögsögu þessara ríkja og landa afla hjá þeim til vinnslu. Síðan kaupa þjóðirnar þessar afurðir af þeim. Allt getur þetta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir okkur íslendinga innan ekki langs tíma. Er engum vafa undirorpið, að við Íslendingar eigum að leggja í vaxandi mæli mikla áherslu á það að koma afurðum okkar inn á markaði hjá fleiri þjóðum, þá ekki síst hjá þjóðum Vestur-Evrópu, sem eru iðnaðarþjóðir þar sem lífsafkoma almennings er einna best. Þær þjóðir geta keypt afurðir okkar á því verði sem við þurfum að fá fyrir þær. Orðið hefur mikil breyting með tollasamningnum, sem tók gildi fyrir hálfu öðru ári, til þess að auka þessi viðskipti í Vestur-Evrópu. Tel ég mjög athugandi, að verksmiðjum líkum og í Bandaríkjunum eða með þeim hætti, sem hæfir smekk þessara þjóða, verði komið upp í Vestur-Evrópu, þó of snemmt sé að fullyrða um þau efni nú á þessari stundu.