31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

40. mál, skólakostnaður

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er rétt, ég hef talað tvisvar, en ég veit ekki betur, herra forseti, en það sé heimilað í þingsköpum að þm. geri aths. þrátt fyrir það að þeir hafi talað tvisvar. Og mörg dæmi eru þess hér á hv. Alþ. að menn hafi gert meira en aths., talað langt mál í þriðja skiptið. En ég skal vera stuttorður.

Það er rétt, sem hv. þm. Ellert B. Schram sagði áðan, að umsagnir voru ekki allar fullkomlega jákvæðar. Það breytir engu í mínum huga um nauðsyn málefnisins sem slíks, hvort íþróttafulltrúi, einhverjir aðrir, nefndir hér og þar úti í bæ segja já eða nei, telja málið sem sagt ekki nauðsynlegt. Okkur, sem búum á þessum stöðum, er fullkomlega ljóst, hver nauðsyn er, og það er fyrst og fremst það sem ég byggi á, — kunnugleika á nauðsyn þess að hér verði breyting á og fólkið, sem býr á þessum stöðum, hafi þessa aðstöðu. Það er það sem skiptir höfuðmáli, ekki hvort íþróttafulltrúi eða einhverjir aðrir hér í Reykjavík telja málið gott eða vont. Það er nauðsyn málsins sem krefst þess að það verði hér eins og á ótalmörgum öðrum sviðum farið að vilja þess fólks sem fyrst og fremst á hér hlut að máli.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði að frv. væri gallað að þessu leitinu til, að það tæki ekki nema til staða sem hefðu 4000 íbúa eða færri. Það er ekki galli í mínum augum, síður en svo. (EBS: Það er kannske galli í annarra augum.) Það er síður en svo galli í mínum augum. En það er notað, eins og ég sagði áðan, sem átylla til þess að gera tilraun til að svæfa málið, af því að menn vita fyrir fram að þeir fá ekki fjármagn til þess að láta það ná til alls landsins. Þess vegna halda menn þessu fram nú eins og þeir hafa gert áður.

Ég er alveg hissa á því ef Ellert B. Schram meinar í raun og veru að það sé ekki tilraun til þess að svæfa málið, eins og það lá fyrir í fyrra og eins og það lá fyrir líka á þinginu í hittiðfyrra, að leggja til að því sé vísað til ríkisstj. Það var fyrir fram vitað að ríkisstj. mundi ekkert gera í málinu, og þess vegna var það svæft. Það var svæfingartilraun með því að leggja til að vísa því til ríkisstj.

Ég endurtek það sem ég sagði hér fyrr og hv. þm. Jónas Árnason tók undir líka: Það er enginn vafi á því, að það getur verið um líf eða dauða að tefla hvort sjómaður kann að synda eða kann ekki að synda. Það getur oft og tíðum verið spurning um líf eða dauða hvort þessi kunnátta er fyrir hendi eða ekki. Og það er það sem við eigum við þegar við tölum í þessum dúr. Það væri hægt að nefna ótal dæmi þess, að sundkunnátta sjómanns hefur bjargað lífi hans, sem ekki hefði gerst ef hann hefði ekki kunnað að synda, og það er mikilvægt atriði í sambandi við þetta mál.