12.04.1978
Efri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

231. mál, upplýsingaskylda banka og annarra lánastofnana

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Á þskj. 443 hef ég leyft mér að flytja frv. til laga um upplýsingaskyldu banka og annarra lánastofnana. Það er skoðun mín, og raunar skoðun okkar Alþb.- manna almennt, að nauðsyn sé á því að fjármálakerfi landsmanna sé sett undir nánara eftirlit almennings með því að gera það opnara og gagnsærra. 1. gr. frv. kveður einmitt á um þennan tilgang þess, þ. e. a. s. að tryggja að almenningur eigi þess kost að kynna sér og hafa eftirlit með útlánum lánastofnana.

Það er víst kunnara en frá þurfi að segja, að veiting lána er mjög mikilsverð þjónusta og harla eftirsótt fyrirgreiðsla, þá ekki síst á verðbólgutímum. Það er skoðun mín, að opinber birting lánveitinga mundi opna almenning sjálfsagða leið til að hafa eftirlit með ráðstöfun fjár úr opinberum sjóðum. Þá væri minni hætta á mismunun og á geðþóttaákvörðunum þeirra sem slíkum stofnunum stjórna. Auk þess er það ótvírætt kostur við þessa nýskipan, að ókunnugir geta þá kynnt sér milliliðalaust, hvers konar lán eru veitt úr lánastofnunum landsins og í hvaða tilgangi þau eru veitt.

Mér þykir hlýða að rifja upp, að þegar lög um Framkvæmdastofnun ríkisins voru samþykkt á Alþ. í tíð vinstri stjórnarinnar — það var í árslok 1971 — var ákveðið að árlega skyldi birt skrá yfir lánveitingar stofnunarinnar, og á það við bæði Framkvæmdasjóð, Byggðasjóð og aðra þá sjóði sem settir kynnu að verða undir stjórn stofnunarinnar. Þetta var ljóst af þáv. 15. gr. laganna og hefur ekki verið breytt eftir að lögin voru endurskoðuð, heldur kemur skýrt fram í 16. gr. þeirra laga.

Þetta ákvæði í lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins var algert nýmæli í íslenskum lögum á sínum tíma og ég veit ekki betur en það hafi gefist vel. Þetta hefur sem sagt gilt um allar lánveitingar Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs og hefur birst í því formi, að í skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar, sem gefin er út á hverju ári og m. a. dreift til hv. þm., hefur verið birt skrá yfir allar lánveitingar á liðnu ári. Mér virðist langeðlilegast að þessi sami háttur sé lögbundinn um allar lánveitingar úr viðurkenndum opinberum lánastofnunum. Leyndin skapar tortryggni. Ekki verður séð að nokkur lánveiting úr opinberri lánastofnun geti átt rétt á sér, ef hún þolir ekki dagsins ljós.

Í 2. gr. frv. er kveðið nánar á um framkvæmd þessa fyrirkomulags, en þar segir, með leyfi forseta:

„Bankar, sparisjóðir, fjárfestingarlánasjóðir og aðrar lánastofnanir skulu birta opinberlega lista yfir öll veðlán, sem veitt hafa verið á liðnu ári, einnig hvers konar útlán, sem nema hærri fjárhæð en 3 millj. kr. og veitt eru til lengri tíma en tveggja ára, ásamt upplýsingum um nöfn lántakenda, lánskjör og yfirlýstan tilgang lánanna. Þá skal einnig birta lista yfir einstaklinga, félög og stofnanir, sem skulda við áramót meira en 5 millj. kr. í viðkomandi stofnun.

Þar sem nefndar eru 1. og 2. mgr. á að sjálfsögðu aðeins að vera 1. mgr., því að það eru aðeins tvær mgr. í þessari frvgr., en í 2. mgr. segir sem sagt: „Upphæðir þær, sem nefndar eru í 1. mgr., skulu breytast árlega í réttu hlutfalli við vísitölu byggingarkostnaðar 1. jan. 1978:

Hér eru því sett nokkur takmörk, hvaða lánveitingar skuli birtar, þar sem ástæðulaust virðist að bankar og sparisjóðir þurfi að tína til sérhvert smálán. Því er í fyrsta lagi miðað við öll veðlán og í öðru lagi við öll útlán, sem nema hærri fjárhæð en 3 millj. kr. og veitt eru til lengri tíma en tveggja ára.

Ljóst er, að það er til hægðarauka fyrir þá, sem vilja kynna sér slíka lista, að saman sé dregið í árslok hve skuld sé orðin há hjá ákveðnum aðila, hjá einstaklingum eða stofnunum, og kemur þá til athugunar einnig, hve mikil lán viðkomandi hefur fengið á liðnum árum. Hér er gert ráð fyrir því, að aðeins sé birtur skuldalisti yfir þá sem skulda meira en 5 millj. kr. í viðkomandi stofnun, svo að ekki sé nú farið út í allt of mikinn sparðatíning, því að það eru að sjálfsögðu stóru lánin sem máli skipta í þessu sambandi.

Um nánari framkvæmdaatriði er svo kveðið á í 3. gr. þar sem segir: „Útlánalistinn skal lagður fram í afgreiðslu stofnunarinnar áður en liðinn er fyrsti mánuður næsta árs og afhentur hverjum sem vill gegn hæfilegri þóknun, sem svarar til kostnaðar við prentun.“

Hér er ekki gert ráð fyrir því, að viðkomandi lánastofnun sé endilega skyldug að gefa út skýrslu um allar lánveitingarnar, prentaða skýrslu eins og Framkvæmdastofnunin hefur gert varðandi lán Byggðasjóðs og Framkvæmdasjóðs, heldur ætti að duga að lagður væri fram listi, fjölfaldaður listi, væntanlega fjölritaður listi, sem lægi frammi í afgreiðslu stofnunarinnar og væri heimill hverjum sem hafa vildi.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um efni þessa frv. Ég vil aðeins ítreka, að frv. þetta er flutt í þeim tilgangi að stuðla að opnara og réttlátara stjórnkerfi, stuðla að því, að fjármálakerfið sé sett undir eftirlit almennings. Á því er brýn þörf og sé ég ekki ástæðu til að rökstyðja það frekar.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh: og viðskn.