12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3339 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

268. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Megininntak þessa frv. er endurskipulagning, sameining og stórefling þeirra stofnana, sem starfa í þágu iðnaðarins að rannsóknum, ráðgjöf, fræðslu, öflun og dreifingu upplýsinga, stöðlun og ýmsum fleiri nauðsynjamálum. Þessar stofnanir eru Iðnþróunarstofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Rannsóknastofnun iðnaðarins.

Þetta mál á sér langan aðdraganda, hefur verið í undirbúningi í mörg ár. Nokkrar nefndir hafa fjallað um það á þeirri göngu. Á þingi 1973–1974 flutti iðnn. þessarar hv. d. að beiðni þáv. iðnrh. frv. til laga um Iðntæknistofnun Íslands. Tekið var fram, að einstakir nm. hefðu óbundnar hendur um frekari afgreiðslu frv. Það frv. komst ekki áleiðis og dagaði uppi.

Eftir síðustu stjórnarskipti hóf iðnrn. athugun á þessu máli. Til álita kom hvort bera ætti fram hið fyrra frv. í óbreyttri mynd, en að athuguðu máli var ekki talið rétt að hafa þá málsmeðferð. Eldra frv. fól í sér m. a. fjölda ákvæða, sem talið var að betur ættu heima í reglugerð en í lögum, væri óþarflega ítarlegt. Þetta átti m. a. við greinar um starfsfólk, skorir, skorafundi skorarformenn, einstakar deildir, hlutverk stjórnar, ákvæði um starfsmannahald, stjórn- og starfsskipulag í einstökum atriðum. Þótti sem sagt réttara að ýmis slík ákvæði yrðu felld inn í reglugerð, en meginatriði málsins tekin fram í lögunum. Það verður líka að vera eitt meginhlutverk stjórnar Tæknistofnunar Íslands að móta henni stefnu og starfsskipulag. Því var ákveðið að láta fram fara gagngera endurskoðun á áðurgreindu frv. og birtist það hér í sinni nýju mynd.

Rétt er að það komi skýrt fram, að með frv. þessu er ekki einvörðungu stefnt að því að sameina stofnanir sem fyrir eru í landinu. Höfuðmarkmiðið er þjónusta við iðnað landsmanna, þjónusta um framleiðslu- og rekstrartæknileg vandamál á faglegum grundvelli. Á þessu sviði er þörfin brýnust. Að svo miklu leyti sem eiginlegra rannsókna er þörf hlýtur sú starfsemi fyrst og fremst að beinast að hagnýtingu innlendra hráefna og að staðbundnum vandamálum byggingariðnaðar, enda er svo ráð fyrir gert að slík starfsemi rúmist innan verkefnavettvangs stofnunarinnar.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á, að á vegum Háskóla Íslands, Raunvísindastofnunar og verkfræði- og raunvísindadeildar, er kominn vísir að undirstöðurannsóknum. Stefnt er að því að slík rannsóknarstarfsemi þróist í tengslum við meginnámsbrautir. Þess er að vænta, að ámóta verkaskipting muni komast á hér og í grannlöndum í framtíðinni, þ. e. að eiginlegar rannsóknir — þ. á. m. vegna iðnaðar — fari fram á vegum Háskólans, en tilraunir og prófanir í þágu iðnaðar ásamt þjónustu- og leiðbeiningarstarfsemi á vegum Tæknistofnunar Íslands.

Það er að sjálfsögðu ljóst, að huga þarf að tengslum þarna á milli þegar tímabært þykir, og er þess að vænta, að eðlileg vinnubrögð og samstarf takist í þeim efnum.

Samráð hefur verið haft við heildarsamtök iðnaðarins, Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, um gerð þessa frv. Í fyrstu gerð þess var ekki gert ráð fyrir að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins yrði hluti af Tæknistofnun Íslands, en fyrir eindregin tilmæli þessara samtaka nær skipulagsbreytingin, sem í frv. felst, einnig til Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.

Þótt þær tímamótaákvarðanir, sem teknar voru með inngöngu Íslands í Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA og með samningi við Efnahagsbandalag Evrópu, hafi ótvírætt sannað gildi sitt kalla breyttar markaðsaðstæður á markvissar aðgerðir. Er flutningur þessa frv. einn liður í þeim. Það er álit flestra, að einn meginundirstöðuatvinnuvegur okkar, sjávarútvegur, geti ekki á næstu árum verið áfram sá hinn sami burðarás efnahagslegra framfara á Íslandi sem verið hefur hingað til, þar sem draga þurfi úr sókn mikilvægra fiskstofna. Þegar svo horfir er nauðsynlegt að beina auknu fjármagni til eflingar iðnaði í frekari sókn til bættra lífskjara, til að tryggja vaxandi fólksfjölda næga atvinnu, til að taka við þeim mikla mannfjölda sem bætist á vinnumarkaðinn.

Á undanförnum árum hafa verið unnin margháttuð störf sem miða að aukinni hagræðingu og bættu skipulagi í framleiðslu. Þessi starfsemi hefur ýmist verið að eigin frumkvæði fyrirtækja eða á samstarfsgrundveili fyrirtækja með stuðningi ýmissa aðila svo sem iðnrn., Iðnþróunarsjóðs, iðnþróunarnefndar, Iðnþróunarstofnunar Íslands og rannsóknastofnana á vegum iðnaðarins. Þótt á þessum sviðum hafi víða veru unnið gagnlegt og árangursríkt starf þarf áfram að halda og efla þann stuðning sem veittur er iðnfyrirtækjum um hagræðingu, hvers konar tækniþjónustu og rannsóknir.

Flest íslensk iðnfyrirtæki eru fáliðuð og hafa ekki bolmagn til að hafa í þjónustu sinni sérfræðilega starfskrafta á sviði framleiðslu og rekstrartækni. Því verður að teljast eðlilegt að ríkisvaldið komi í þessu efni til móts við fyrirtækin og stuðli að því, að þau fái aðgang að sérmenntuðu fólki, sem hið sama ríkisvald hefur að meira eða minna leyti séð fyrir skólagöngu.

Höfuðmáli skiptir að iðnaðurinn, sem er fjölmennasti atvinnuvegur landsmanna, fái í þjónustu sína sem fyrst þá tæknistofnun sem stefnt er að með frv. Aðlögun íslensks iðnaðar að nýjum markaðsaðstæðum á að mörgu leyti enn langt í land. En eitt veigamesta atriðið er aðgangur að fjölþættri tækniþjónustu eins og hér er gert ráð fyrir að koma upp.

Í grg. þess frv., sem hér liggur fyrir, er ítarlega rakið hver tilgangur þess er og hverjar breytingar það hefur í för með sér á stjórn og skipulagi rannsókna og tækniþjónustu fyrir iðnaðinn. Ég skal því aðeins rekja efni þess stuttlega, en vísa að öðru leyti til hinnar ítarlegu grg.

Þeirri stofnun, sem frv. þetta gerir ráð fyrir að komið verði á fót, er hér valið heitið Tæknistofnun Íslands. Þótt ráð sé fyrir því gert, að stofnunin inni fyrst og fremst af hendi þjónustu við iðnaðinn í landinu, annan en fiskiðnað, kjöt-, og mjólkuriðnað, þykir ljóst að sú faglega þekking og aðstaða, sem byggð verður upp innan stofnunarinnar, mun geta komið öðrum framleiðslugreinum einnig að gagni. Þar sem mikill hluti íslenskra fyrirtækja er í Reykjavík og nágrenni þykir rétt að stofnunin hafi aðalaðsetur þar. Á hinn bóginn er eðlilegt að gera ráð fyrir útibúum úti á landi samkv. aðstæðum og bolmagni stofnunarinnar á hverjum tíma. Telst því rétt, að heimild sé fyrir hendi í frv. til stofnunar útibúa utan Reykjavíkur.

Miðað við núgildandi löggjöf er með frv. þessu lögð verulega aukin áhersla á beina ráðgjöf við iðnaðinn um framleiðslu- og rekstrartækni og stjórnun, fræðslu- og upplýsingastarfsemi, tilraunir og prófanir. Með orðinu „iðnaður“ er átt við allan framleiðslu- og þjónustuiðnað að undanskildum fiskiðnaði, slátrun, kjöt- og mjólkuriðnaði, en þörfum þessara atvinnugreina er öðrum stofnum ætlað að sinna. Einnig er með talin byggingarstarfsemi, bæði á vegum einkaaðila og opinberra aðila, þ. e. húsbyggingar, vega- og brúagerð, hafnarframkvæmdir og önnur mannvirkjagerð.

Eins og ég gat um í upphafi þykir eigi rétt að setja ítarleg ákvæði í frv. um vægi hlutverka og verksviða stofnunarinnar, heldur verður talið eðlilegt að ákvörðun í þeim efnum sé innan meginramma á valdi stjórnar hennar, innan þess ramma sem frv. sjálft setur og gerir ráð fyrir.

Þótt núgildandi iðnfræðslulöggjöf geri ráð fyrir þjálfun og fræðslu iðnverkafólks hafa iðnskólar hingað til ekki haft bolmagn til að sinna því hlutverki. Þá hefur hin síðari ár myndast vaxandi þörf fyrir eftirmenntun iðnaðarmanna og annars starfsfólks á ýmsum sviðum í iðnaði, fyrst og fremst vegna mikilla og örra tækniframfara. Æskilegt er að stofnunin sinni, svo sem kostur er, þessu hlutverki, þ. e. a. s. þjálfun og fræðslu ófaglærðs iðnverkafólks og eftirmenntun iðnaðarmanna. En nauðsynlegt er að koma í veg fyrir tvíverknað á þann veg, að náið samstarf verði haft við iðnskólana í landinu og aðra þá sem vinna að svipuðum verkefnum. Til greina kemur að hluti kostnaðar vegna þessarar fræðslustarfsemi greiðist af skólakostnaði.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að stofnunin taki við starfsemi þeirra þriggja stofnana sem nefndar voru hér áður. Starfsemi þessara þriggja stofnana mun því í meginatriðum marka deildaskiptingu aðaldeilda Tæknistofnunar Íslands í fyrstu, þ. e. byggingadeild og mannvirkjadeild, iðntæknideild og rekstrartæknideild. Með hliðsjón af því, hve stöðlunarmál hafa veigamikla þýðingu í almennri iðnaðar- og atvinnuþróun, verður að teljast eðlilegt að gera ráð fyrir sérstakri stöðlunardeild þegar í upphafi. Einnig kæmi til greina að stofna í upphafi aðaldeild, sem helguð yrði nýiðnaði eða nýiðnaðarverkefnum.

Í 4. gr. frv. er kveðið á um skipun stjórnar stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að takmarka stjórn hennar við fulltrúa þeirra heildarsamtaka, sem fyrst og fremst eiga hagsmuna að gæta varðandi starfsemi stofnunarinnar, og að einn sé skipaður af iðnrh. án tilnefningar.

Í 8. gr. frv. er fjallað um sérstaka framkvæmdanefnd, en henni er ætlað að vinna að hvers konar samstarfi innan stofnunarinnar og tryggja samstarf við útflutningsmiðstöð iðnaðarins og Rannsóknaráð ríkisins. Starfsemi þeirrar stofnunar, sem sinnir sölu- og markaðsmálefnum iðnaðarins, tengist á margan hátt væntanlegri starfsemi Tæknistofnunar Íslands. Það getur verið hagkvæmt að sérfróðir menn um markaðsmál og rannsóknastarfsemi taki þátt í verkefnahópum, sem framkvæmdanefnd er ætlað að gangast fyrir að myndaðir verði. Því er eðlilegt, að framkvæmdastjórar Útflutningsmiðstöðvarinnar og Rannsóknaráðs ríkisins eigi sæti í framkvæmdanefnd stofnunarinnar.

Í 9. gr. frv. er fjallað um tekjur stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að Tæknistofnunin njóti beinna framlaga úr ríkissjóði á sama hátt og stofnanir þær, sem nú er ætlunin að sameina, hafa notið til þessa. Enn fremur er gert ráð fyrir að til stofnunarinnar renni hluti af jöfnunargjaldi, sem lagt er á innfluttar iðnaðarvörur, sem tollar hafa verið felldir niður af og tollfrjálsar verð: 1. jan. 1980 samkv. ákvæðum samnings um aðild Íslands að EFTA og samnings milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu. Framlög til stofnunarinnar, eins og talin eru í a- og b-lið 9. gr., ráða úrslitum um það hvort tekst að láta þessa væntanlegu löggjöf ná tilgangi sínum.

Framleiðsluverðmæti sjávarútvegs og fiskiðnaðar á árinu 1977 er áætlað 84 milljarðar kr., en ríkisframlög til tæknistofnana þessara atvinnuvega, þ. e. a. s. Fiskifélags Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, nema 1 milljarði 95.7 millj. kr. í fjárl. fyrir 1978. Áætlað framleiðsluverðmæti landbúnaðar árið 1977 var 28 milljarðar kr. Ríkisframlag til hliðstæðra stofnana landbúnaðarins, þ. e. Búnaðarfélags Íslands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, nemur 506 millj, kr. Heildarframlög til núverandi stofnana og s'arfsemi, sem væntanlega sameinast í Tæknistofnun Íslands, nema á árinu 1978 274.7 millj. kr., en verðmæti heildarframleiðslu iðnaðar á árinu 1977 er áætlað um 175 milljarðar kr. Ég nefni þessar tölur til nokkurrar skýringar. En ef tekin eru hlutföll, þá eru framlög til rannsóknastofnana sjávarútvegs og fiskiðnaðar í fjárlögum nú um 1.3% af framleiðsluverðmæti ársins 1977. Varðandi landbúnaðinn eru framlög til stofnana hans um 1.8% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarins á s. l. ári. Að því er iðnaðinn snertir eru framlög nú um 0.2% af heildarverðmæti iðnaðar á árinu 1977. Er því ljóst að verulega þarf, til þess að meira jafnræðis verði gætt en verið hefur, að auka framlög til tækni- og rannsóknastofnana á vegum iðnaðarins.

Ég gat þess áður, að heildarsamtök iðnaðarins, Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, hefðu lýst yfir eindregnum stuðningi við frv. þetta, og ég vil um leið og ég vísa nánar til grg. með frv., leggja áherslu á að frv. hljóti afgreiðslu á þessu þingi.

Ég legg svo til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.