12.10.1977
Neðri deild: 2. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Hæstv, forseti. Ég heyri að hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hefur tekið nærri sér þau orð sem ég sagði hér áðan, og kemur mér þó undarlega fyrir sjónir að svo skuli vera.

Hann vék að því, að hann, þá sem heilbr.- og trmrh. að ég vænti, hafi átt samstarf við mig um ýmsar leiðréttingar varðandi mál á Vestfjörðum og þá í sambandi við heilbrigðisþjónustuna þar. Það er að vissu leyti rétt. (Gripið fram í.) Þú tiltókst fyrst og fremst Vestfirði. Það er alveg rétt, og fyrr mætti nú vera, ef það væri ekki hægt að vinna með þm. Reykv., í þessu tilfelli hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, á einhverjum sviðum í þá átt að leiðrétta misrétti sem verið hefur áratugum saman. Skárra væri það nú, ef þm. Reykv., í þessu tilfelli Magnús Kjartansson, hefði ekki búið við það hugarfar sem til þurfti að breyta hlutum í þessum efnum. Ég satt að segja, þó ég hafi enga sérstaka trú á hæfileikum hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar til þess að rétta við hlut landsbyggðarinnar, taldi samt að það væri hægt að fá út úr honum einhvern lítinn anga af réttlæti til landsbyggðarinnar, og það sýndist vera hægt í þessu tilfelli. En hann var ákaflega lítill miðað við það allt óréttlæti sem gildir í þessum efnum hjá landsbyggðarfólki.

Hv. þm. sagði að hann hefði verið þrautseigari í því að sitja í ráðherrastólnum sem ráðh. Alþb, í vinstri stjórninni heldur en ég sem óbreyttur þm. þeirrar ríkisstj. Það má vel vera að hann hafi þá skoðun, og að vissu leyti er hún rétt. Það sem skildi milli okkar var það í þessum efnum, af því hann rifjar þetta upp, að ég vildi ekki ganga á bak orða og loforða sem yfirlýst voru í stjórnarsáttmáta þeirrar ríkisstj., en Magnús Kjartansson gekk fúslega á bak orða sinna í þeim efnum og fótumtróð það, sem þar var sagt, til þess að sitja í ráðherrastólnum. Þarna skildi í milli. Og ég uni því hlutskipti vel að hafa viljað halda mér við það sem búið var að ákveða í stjórnarsáttmála, þrátt fyrir það að ríkisstj. þyrfti að fara frá, heldur en að halda dauðahaldi í aðstöðuna, í ráðherrastólinn, eins og Magnús Kjartansson gerði í þessu tilfelli, en kastaði hinu fyrir borð, sem búið var að lýsa yfir. Ég undi því hlutskipti vel. Og í því máli hefur dómur fallið fyrir rúmum þremur árum og hann var mér ekki neitt sérstaklega óhagstæður. (Gripið fram í.) Nei. (Gripið fram í: Ekki Samtökum frjálslyndra og vinstri manna.) Nú var hv. þm. að tala um mig sem einstakling, meira að segja utanflokkaframboð mitt sem einstaklings, ekki að tala um SF. Annars vegar var einstaklingurinn Magnús Kjartansson, þá sem ráðh., hins vegar einstaklingurinn Karvel Pálmason, þá sem óbreyttur þm.

Hv. þm. Magnús Kjartansson sagði að þm. Reykjavíkur hefðu aldrei litið á sig sem sérstaka fulltrúa Reykjavíkurkjördæmis, — vel má vera að þetta sé að einhverju leyti rétt, — þeir hafi fyrst og fremst litið á sig sem þm. alls landsins, sem landsfeður. Ég hygg að sé þetta rétt hjá hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, þá sé það líklega fyrst og fremst til komið vegna þess, að þm. Reykjavíkur þurfa að mjög takmörkuðu leyti að sinna í einu eða neinu þeim verkefnum sem dreifbýlisþm. þarf að sinna. Að meira eða minna leyti er hér allt við höndina, við bæjardyrnar hjá kjósendum þessara hv. þm., þannig að þeir þurfa ekki að hreyfa legg eða lið til þess að aðstoða í einu eða neinu frambjóðendur sína á svipaðan hátt og t.d. þm. dreifbýliskjördæmanna. Þetta er fyrst og fremst það sem ræður úrslitum um það, ef rétt er sem hv. þm. Magnús Kjartansson heldur fram, að þm. Reykjavíkur líti fyrst og fremst á sig sem landsfeður, ekki þm. síns kjördæmis.

Ég skal nú ekki gerast dómari í því sem hv. þm. Magnús Kjartansson var að víkja að áðan, að ýmsir þm. landsbyggðarinnar töluðu í árásartón um íbúa Reykjavíkur eða Reykjaneskjördæmis eða þess þéttbýliskjarna sem er hér á suðvesturhorni landsins. Í mínum huga er það a.m.k. ekki á neinu sviði árásartónn að benda á það óréttlæti sem hefur verið á ótalmörgum sviðum milli þess fólks, sem býr úti í dreifbýlinu, og þess fólks, sem býr hér á þéttbýliskjarnanum. Hér er aðeins um að ræða staðreyndir sem enginn getur á móti mælt. Og það er ekki af neinum illum hvötum, að ég held, hjá einum eða neinum þm. dreifbýlisins, að bent er á þetta, sem að mínu viti á fullkomlega rétt á sér. Þar er ekki um neinn árásartón að ræða. Og það er sjálfsagt alveg rétt hjá hv, þm. Magnúsi Kjartanssyni, eins og hann orðaði það, að Íslendingar þurfa að hafa myndarlega höfuðborg. Það er að sjálfsögðu alveg rétt. En lítill myndarbragur væri að þeirri höfuðborg ef framámenn þjóðfélagsins eða forsvarsmenn Reykjavíkurborgar ætluðu að halda þannig á málum að höggva af sér alla landsbyggðina til þess eins að geta sagt: Jú, Reykjavík er myndarleg. — Hún á að vera það. Því aðeins verður höfuðborg myndarleg að aðrar byggðir blómstri líka. Það ættu fulltrúar Reykjavíkur að hafa í huga. Það er því tími til þess kominn að menn viðurkenni þær staðreyndir, að á undanförnum árum og áratugum hafa verið á ótalmörgum sviðum brotin mannréttindi á landsbyggðarfólki miðað við það sem á sér stað hér á Reykjavíkursvæðinu — á ótalmörgum sviðum. Með þessu er ekki á nokkurn hátt verið að efna til óvildar milli Reykvíkinga og annarra íbúa þessa lands. Hér er einvörðungu verið að benda á staðreyndir sem fyrir hendi eru.

Um það, hvort það verði næsta ósk mín á eftir því, að t.d. Vestfirðingar hafi sama rétt til lífsgæða og Reykvíkingar, eins og ég hef krafist og krefst enn, þá verði það næsta ósk mín að utanflokkaþm. þurfi færri atkv. til þess að komast á þing heldur en þm. sem býður sig fram fyrir t.d. Alþb. — (Gripið fram í.) Þú komst að þessu, hv. þm., sjálfur. (Gripið fram í.) Næst á eftir því, sagði ég. Hv. þm. vék að þessu sjálfur, og sjálfsagt er þessi hv. þm. sem einn af forustusauðum Alþb. orðinn uggandi um sinn hag í þessum efnum í því kjördæmi sem hann var að tala um. En ég get fullvissað hann um það, að hvorki ég né Vestfirðingar almennt munu óska eftir því, að maður, sem hefur trú á því að hægt sé að komast áfram með einhverjum hætti án þess að vera rígbundinn af flokksklafa, hvort sem það er Alþb. eða eitthvað annað, — við óskum ekki eftir því að njóta neinna sérréttinda, en við viljum gjarnan njóta jafnréttis við aðra. Og ég ber engan kvíða í brjósti um það, að ég þarf enga undanþágu til færri atkv. heldur en t.d. væntanlegur frambjóðandi Alþb. á Vestfjörðum.