13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3388 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

169. mál, Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóður

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til a ð fagna þessa frv. Ég vil vera svo bjartsýnn að óska hæstv. menntmrh. til hamingju með það að koma þessu máli í gegn og tek eindregið undir síðustu orð hans, að þetta verði að lögum nú á þessu þingi.

Það er ekki nýtt, að rætt sé um sjóð til að efla kvikmyndagerð á Íslandi og að koma upp vísi að kvikmyndasafni. Um þetta efni hafa komið fram frv. á fleiri en einn þingum. Við höfum nokkrir haft áhuga á því, að þetta mál kæmist í höfn, en jafnan hefur staðið á fé í þetta þarfa fyrirtæki.

Eins og hæstv. ráðh. greindi frá er þetta flókið mál, en það er jafnnauðsynlegt fyrir því. Þeir, sem hafa fylgst með kvikmyndagerð og þróun kvikmynda, hafa gert sér grein fyrir því, hversu mikið gildi það hefur að varðveita ýmsa atburði og geta sýnt þá ljóslifandi áratugum síðar. Ekki er minna um vert að varðveita filmur eins og gamlar bækur og gera þær aðgengilegar hverjum manni í geymslu, varðveislu og endurprentun.

Það er með ólíkindum hvað kvikmyndin getur sýnt og hvernig hún sýnir þjóðlífið breytast. Þar er kannske oflof að fara að segja frá því og varla viðeigandi, en ég byrjaði á þessu sem tómstundagrein 1960 og hef tekið margar myndir á litla vél og einnig á 16 mm vél — á litfilmur nú síðustu árin — við sjávarsíðuna. Á þessu stutta tímabili hefur orðið slík verkbylting, að menn mundu reka upp stór augu, eins og sumt var unnið t. d. við síldarvinnslu og alla móttöku og aðstöðu, þó að ekki væri farið nema 10–15 ár aftur í tímann. Þó að glögg bókarlýsing væri til af slíku, þá væri hún ekkert á móti því að sjá þetta ljóslifandi á filmunni og í lítum. Sama má segja um það sem hefur verið gert á vegum vissra sveitarfélaga eða samtaka úti um landið. Stofnað hefur verið til kvikmyndatöku, sumt er leikið o,g sumt ekki, og menn fengnir til að sýna gamla hjúskaparhætti sem eru að hverfa meðal þjóðarinnar. Það er ómetanlegt að festa hetta á filmu og sjá hvernig fólkið starfaði. hvernig það klæddist og hvaða tæki það hafði í höndunum. Unga kynslóðin, sem nú er að vaxa úr grasi gerir sér bókstaflega ekki grein fyrir því hvað var að gerast fyrir tveimur til þremur áratugum. Hverjum hefði dottið í hug t. d., að fyrir 3–4 áratugum tíðkaðist mjög víða um landið að hver fiskur væri borinn á land úr bátum á sumum litlu stöðunum þar sem ekki voru hafnarskilyrði? Síðan bar fólkið þennan sama fisk á herðum sér til baka — saltaðan eða þurrkaðan — um borð í útskipunarbáta. Þetta stendur mér fyrir hugskotssjónum úr mínu plássi. Vissulega hefði verið lærdómsríkt og mikilvægt ef einhverjir hefðu verið svo framsýnir að festa slíka vinnutilhögun á filmu.

Nú er tæknin orðin svo mikil, að þó að margir hafi tekið á svokallaðar mjófilmur, 8 mm filmur og super-8 filmur, þá er hægt að endurgera það. Það mun kosta mikið fé og þrátt fyrir að við byrjum með 30 millj. kr. framlag vænti ég þess, að menn geri sér grein fyrir því, að til varðveislu þarf mun meira fé. Þetta er ekki stór upphæð núna og varðveislan mun kalla á mun stærri upphæð. Ég vænti þess, að í framtíðinni verði hægt að endurútgefa eða taka á ný með nútímatækni á betri geymslufilmur margt sem menn eiga í fórum sínum víða um land. Ég get t. d. sagt, að ég á 16 mm filmu bæði í svörtu og lit, af þeim einstæða atburði er Íslendingar reyndu að veiða og salta síld norður við Spitzbergen, fyrir 10 árum nákvæmlega. Slík tilraun mun sennilega aldrei verða endurtekin, en nokkrir bátar reyndu þetta, þá með misjöfnum og lélegum árangri. Svona má lengi telja. Ef menn aðeins vita að hægt er að gera og varðveita filmuna eins og bókina, þá held ég að margt muni koma í leitirnar. En það mun kosta nokkurt fé að gera það myndefni geymsluhæft og sýningarhæft.

Ég veit að mjög margir úti um allt land, sem hafa áhuga á að varðveita íslenska menningu, fagna þessu frv. Ég er viss um að hæstv. menntmrh. mun fá þakkir frá öllu þessu fólki úr öllum stéttum fyrir að koma þessu máli í höfn. Ég er mjög ánægður með að sjá framgang þessa máls nú á þessu þingi og vona að það eigi skjótan framgang í hv. Ed., því að það sem má segja um Nd.-menn í þessu efni, þá höfum við, held ég, verið heldur röskari að róa í þessu máli en Ed., menn. Ég vænti þess, að menntmn. Ed. muni nú ekki láta skutinn eftir liggja, fylgi hæstv. menntmrh. vel og komi þessu ágæta frv. í höfn.