13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3394 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

184. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Lúðvík Jósepsson:

Háttvirtur forseti. Hér er lagt til að gera breyt. á lögum sem lengi hafa verið í gildi, eða frá árinu 1322. Að sjálfsögðu hefur oft reynt á þessi lög og oft komið til tals, hvort slaka ætti á þeim ákvæðum sem lögin fjalla um, en yfirleitt hefur verið staðið fast á því, með örfáum undantekningum, að víkja ekki frá meginstefnu þeirra laga. Þar er mjög rammlega um hnúta búið gegn því að hægt sé að koma inn í íslenska fiskveiðilandhelgi útlendum skipum, íslenska fiskveiðilandhelgin sé eingöngu fyrir Íslendinga samkv. íslenskum lögum, fyrir íslenskan rekstur og það bundið við skip sem teljast íslensk, sem eru skráð hér og í eigu innlendra aðila.

Nú er ljóst að sú breyting, sem gerð er till. um. verður að teljast mjög takmörkuð. En það skiptir líka miklu máli, að mínum dómi, hvernig verður haldið á framkvæmd málsins. Það, sem ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á sem mína skoðun, er að sú heimild, sem um er að ræða að veitt verði sjútvrh., verði framkvæmd mjög þröngt. Ef þessi heimild yrði framkvæmd þannig, að í öllum þeim tilvikum, sem líkur vandi kemur upp, yrði útlendum skipum hleypt inn á fiskimið okkar og rökstutt aðeins með því, að það hefði orðið áfall eins og getið er hér um og kom fram hjá hv. frsm. sjútvn., þá er ekkert um það að villast, að á hverju einasta ári kæmu slík atvik fyrir, jafnvel í tugatali. En ég vil líta þannig á, að ekki sé ætlast til þess, að þetta heimildarákvæði verði notað nema þegar ekki verður hægt að leysa málið með öðrum hætti þannig að viðunandi verði talið fyrir þá sem hafa orðið fyrir áföllunum.

Þetta þýðir t. d. það, að brotni eða bili venjulegur fiskibátur af þeirri tegund sem við eigum hér í landinu jafnvel nokkur hundruð af, þá sé yfirleitt ekki gripið til þess að veita þessa heimild. Þá verður að sjálfsögðu að ganga úr skugga um, að reynt verði að fá íslensk skip í þetta og ekki sé hægt að bera við einu eða neinu, að skipin fáist ekki með þeim kjörum sem viðkomandi óskar eftir. Eins er það líka, að þegar um önnur skip er að ræða sé búið að ganga vel úr skugga um að ekki sé hægt að leysa málið með því að færa til okkar eigin fiskiskipaflota.

Ég vil ekki fyrir mitt leyti standa gegn þessu frv., í fullu trausti þess, að þeir, sem með framkvæmdina fari, framkvæmi þessa heimild á þann þrengsta hátt sem í rauninni er hægt að gera. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að þannig hefur verið um langan tíma að útlendingar sækja fast á að komast með einhverjum hætti inn í fiskveiðilandhelgi okkar með skip sín. Það er ekkert nýtt, því að í landi okkar eru alltaf til aðilar sem sækja á í þessum efnum fyrir útlendingana eða í samvinnu við útlendinga. Um það höfum við fjöldamörg dæmi. Vitanlega verður að standa gegn því, að þeir komist inn í fiskveiðilandhelgi okkar eftir einhverjum krókaleiðum þar sem hægt sé að nota afsakanir eða fyrirslátt, í rauninni málamyndaafsakanir eða fyrirslátt.

Þessi heimild í frv. er miðuð við að veita megi undantekningar frá aðalstefnu laganna um takmarkaðan tíma eða, eins og nánar segir í grg., til skamms tíma. Ég lít svo á, að þetta mundi þýða það, að hér gæti verið um að ræða heimild til þess að taka inn í fiskveiðilögsögu okkar útlent skip um tveggja til þriggja mánaða skeið, eða eins og vertíðir geta verið, þar til hægt er að skipa þessu á annan veg, en þér eigi ekki að vera um lengri tíma að ræða, ekki t. d. hálft ár eða heilt ár, svo langur tími geti ekki fallið undir þessa heimild. Mér sýnist líka að hv. sjútvn. hafi gert sér alveg grein fyrir þessu, því hún herðir í rauninni með brtt. sinni nokkuð á þessum ákvæðum til þess að gera heimild þannig úr garði að ekki ætti að þurfa að verða nein hætta í sambandi við að veita hana. Ég viðurkenni að ég hef reyndar staðið frammi fyrir því nokkrum sinnum áður — m. a. sem sjútvrh. — að vera bundinn af þessu ákvæði í tilvikum þar sem mjög reyndi á það, að íslenskir útgerðarmenn og sjómenn komust í vanda vegna áfalla sem þeir urðu fyrir og vildu geta tekið erlent skip á leigu um skamman tíma, en þá var því neitað.

Ég vildi aðeins að þetta sjónarmið kæmi fram einmitt í sambandi við framhald þessara mála, þannig að mönnum sé alveg ljóst, að a. m. k. frá minni hálfu, og ég hygg að þeir séu miklu fleiri sem eru á þeirri skoðun, þýðir þessi heimild aðeins leyfi til að gera undantekningu þegar alveg sérstaklega stendur á. Menn geta ekki búist við því, að þetta heimildarákvæði verði notað í öllum tilfellum, þar sem sótt kann að verða um leyfi af þessu tagi, því það er alveg augljóst, að til eru rök sem hægt er að færa fram, og þau mörg á hverju ári, ef menn leggja sig fram um að finna einhver rök fyrir því að erlent skip henti til rekstrar í íslenskri fiskveiðilandhelgi.

Ég hef sagt að ég stend ekki gegn þessu frv., en það er í fullu trausti þess, að heimildin verði notuð þröngt.