13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3405 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hæstv. frsm. lýsti því, hvað þetta frv. fæli í sér. Ég get að vissu leyti tekið undir með honum þegar hann segir að íslenskur lagmetisiðnaður verði að keppa við lagmetisiðnað annarra landa sem flytja m. a. inn íslenskt hráefni. Með þessu fullvinnslugjaldi er verið að styrkja eða renna stoðum undir lagmetisiðnaðinn, sem því miður er ekki sterkari en raun ber vitni þrátt fyrir viðleitni á undanförnum árum.

Það er líka hárrétt hjá hv. 6. landsk. þm., að alveg eins hefði mátt leggja gjald á ýmsar útflutningsvörur iðnaðar, því að samkv. skilgreiningu í lögum heyrir lagmetisiðnaður ekki undirsjávarútveg eftir samþykkt þeirra laga, heldur undir iðnað. Þá má e. t. v. segja að það sé dálítið skrýtin stefna, að ekki sé meira sagt, að fyrst og fremst og eingöngu séu lögð gjöld á sjávarafurðir til þess að halda uppi iðnaði. Þetta er kapítuli út af fyrir sig, sem ég ætla ekkert að fara frekar út í hér, en það er margt skrýtið í stjórnkerfi okkar.

Það er aðeins eitt, sem ég hef sérstaklega að athuga við þetta frv., því þegar frv. var til meðferðar og var fyrst samið var sagt í sjálfri lagagr., að fullvinnslugjald væri lagt m. a. á fryst hrogn, sem flutt væru til útlanda en í aths. með frv. var talað um fryst þorskhrogn. Þessa aths. 6. landsk. þm. ætlaði ég eiginlega að koma inn á, en hann kom inn á þetta á undan mér á sama hátt. Ég tel ekki koma til greina að taka fullvinnslugjald af loðnuhrognum, og því fer ég fram á það við hv. n., sem hefur haft þetta frv. til meðferðar, að hún athugi þetta mál á milli 2. og 3. umr. Ég mælist eindregið til þess, að í staðinn fyrir orðin „frystum hrognum“ í 3. gr. komi: frystum þorskhrognum, og svo aftur til samræmis í aths. við frv. Það var aldrei ætlunin og var aldrei viðurkennt að leggja þennan skatt á önnur hrogn en þorskhrogn, og þykir mörgum það ærið nóg, en ég ætla ekki að setja mig upp á móti því. Ég hef áður fallist á það fyrir mitt leyti. En ég vil ekki vera að flytja brtt. um þetta. Ég mælist eindregið til þess, að n. taki þetta til athugunar á milli umr.