18.04.1978
Sameinað þing: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3549 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

354. mál, hátíðarbrigði vegna stórafmælis Snorra Sturlusonar

Fyrirspyrjandi Jónas Árnason :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir það að leyfa mér að segja enn örfá orð.

Ég fagna þeirri frétt, að sjónvarpið ætlar að gera kvikmynd í tilefni af 800 ára afmæli Snorra Sturlusonar. Það er gott. En þá um leið hlýtur maður að harma það, að sá maður, sem mest og hest hefði getað lagt sjónvarpinu lið í því efni, séra Einar Guðnason, skuli nú látinn. En það vill svo vel til reyndar, að til er kvikmynd þar sem rætt er við séra Einar um Reykholt og fleira því viðkomandi.

En sannleikurinn er sá, að besta aðferðin til að minnast þess stórafmælis væri náttúrlega sú að taka ákvörðun um einhverjar þær framkvæmdir í Reykholti sem væru minningu Snorra Sturlusonar til sóma. Það er satt að segja kominn tími til þess, að við förum að gera eitthvað í sambandi við það mál. Ég held ég muni það rétt, að hv. þm. Benedikt Gröndal sé einn af þeim sem sitja í svokallaðri Reykholísnefnd, og væri fróðlegt að heyra frá honum, ef eitthvað stendur til, t. d. það að efnt verði til einhverra þeirra mannvirkja í Reykholti sem mættu verða minningu gamla mannsins til sóma.

Svo í lokin í sambandi við það sem hæstv. samgrh. sagði hér áðan: Það er rétt, að sjálfsagt væri að hátíðahöldin væru fyrst og fremst í Reykholti. Ég segi þetta þó ekki eingöngu fyrir það, að þetta er í kjördæmi okkar beggja, hæstv. samgrh. Ég vil þó bæta því við. að maðurinn fæddist vestur í Dölum, í Hvammi, og þar mætti gjarnan efna til einhverrar hátíðar. Enda vill svo vel til, að Hvammur er líka í kjördæmi okkar hæstv. samgrh.