18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

217. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Hæstv. forseti. Eins og þegar hefur komið fram varð fjh.- og viðskn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. vill afgreiða málið með mjög litlum breytingum og í rauninni án þess að hreyfa að nokkru við einstökum tolltöxtum, en eins og sagt hefur verið er þetta frv. fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Það miðar að því að skýra út ýmis atriði og samræma þau svonefndri tollasamvinnuskrá, sem við miðum tollareglur okkar við, en í rauninni fjallar þetta frv. ekki um breytingar á tolltekjum ríkissjóðs.

Ég tel fyrir mitt leyti, að eðlilegt sé eins og nú er ástatt að gera nokkrar efnisbreytingar á tollskránni fyrst málið liggur hér fyrir. Ég tel það orðið tímabært.

Ég hef áður vakið athygli á því, að svo er nú komið, að þeir tollstigar, sem við er miðað í tollalöggjöf okkar, tollskrá okkar, eru svo úr lagi gengnir að í rauninni er ekki viðunandi að hafa þá öllu lengur í því formi, sem þeir eru nú í. Ég hef nokkrum sinnum bent á að þetta væri afleiðing af þátttöku okkar í EFTA og eins með þeim sérsamningi sem við gerðum síðar við Efnahagsbandalagið, að stefnt var að því að lækka tolla á innfluttum vörum hingað í allríkum mæli í þrepum. Í mörgum greinum leiddi þetta til þess, að þær vörur, sem áður voru í nokkuð háum tollflokkum í tollskrá okkar, eru nú komnar niður í 0 eða niður undir 0, mjög lágan tollflokk samkv. þessu samkomulagi, séu vörurnar fluttar inn frá svonefndum EFTA-löndum eða frá löndum Efnahagsbandalagsins. En þetta gildir eingöngu um svonefndar EFTA-vörur eða samkeppnisvörur, þ. e. a. s. iðnaðarvörur sem eru þess eðlis, að þær eru framleiddar hér í landinu jafnframt. Hins vegar hefur þessi tollabreyting aldrei náð til þeirra vara sem ekki teljast samkeppnisvörur, ekki teljast EFTA-vörur, eru sem sagt ekki framleiddar hér í landinu. Þær vörur hafa ekki fallið undir þessa tollalækkun og standa því eftir margar hverjar í hinum háu gömlu tollflokkunum. Af þessu hefur leitt hið mesta ósamræmi í tollheimtunni.

Ég álít að ekki verði unað við það til lengdar að búa við þetta misræmi. Hvort tveggja kemur til, að vörur, sem fluttar eru inn frá löndum Efnahagsbandalagsins og EFTA-landsvæðanna, eru í mörgum tilfellum fluttar inn í landið án þess að af þeim þurfi að greiða tolla, en ef sams konar vörur eru fluttar inn í landið frá löndum utan EFTA-svæðisins og Efnahagsbandalagssvæðisins bera þessar vörur allháa holla. Þessi mismunur getur í sumum tilfellum valdið okkur beinum skaða þjóðhagslega séð. Menn eru blátt áfram fyrir tollamismun knúnir til þess að kaupa inn þær vörur, sem eru í eðli sínu dýrari eða verri en þeir gætu fengið annars staðar, en það er sams konar vara í hærri tollflokki. Þetta misræmi verður að leiðrétta og er ekki hægt að horfa fram hjá þessu endalaust.

Svo er hitt misræmið, að þar sem vörur voru áður saman í tollflokki, oft og tíðum í háum tollflokki, skuli vissar vörur vera eftir í gamla háa tollflokknum, t. d. er greiddur af þeim 80% tollur, en aðrar vörur, sem voru með í þeim tollflokki lengst af áður, eru hins vegar komnar niður undir 0 í tollflokki. Út úr þessu kemur hið mesta afskræmi þegar menn líta á tollskrána. Menn fá það t. d. út úr þessu, að hvers konar heimilisvörur, eins og t. d. búsáhöld, eru í einna hæsta tollflokknum hjá okkur. Öll búsáhöld svo að segja eru í 80% tollflokki á sama tíma sem margskonar aðrar vörur, sem engum manni dettur í hug að jafna að notagildi og þörfum saman við búsáhöld, eru hins vegar komnar niður í 0 tollflokk eða mjög lágan tollflokk. Ég tel að óhjákvæmilegt sé að taka á þessu vandamáli, sem allir viðurkenna, og fikra sig áfram í þá áttina að lækka þessa gífurlega háu tolla sem hvíla á ýmsum nauðsynjavörum sem hafa ekki hlotið neina tollalækkun vegna þess að þessar vörur flokkuðust ekki undir svonefndar samkeppnisvörur, eru ekki framleiddar hér í landinu. Þetta gildir einnig að verulegu leyti um hvers konar rafmagnstæki, áhöld sem nú eru talin alveg óhjákvæmileg á nútímaheimili, og áhöld, sem jafnvel hafa fengið aukið gildi vegna þess að heimilisstörfin eru nú unnin með nokkuð öðrum hætti en áður var. Þegar t. d. eiginkonan sækir meira út á hinn almenna vinnumarkað og er farin að vinna þar fyrir beinum tekjum og það í allríkum mæli, eins og við vitum að hefur verið þróunin nú um skeið, þá kallar það af sjálfu sér á, að á heimilinu þurfa að vera ýmiss konar vinnutæki sem eru orðin alveg ómissandi. Þar skulum við t. d. nefna tæki eins og þvottavél og hvers konar rafmagnsheimilistæki. Þessi tæki eru í gífurlega háum tollflokkum hjá okkur, á sama tíma sem ýmsar aðrar iðnaðarvörur, sem ekki verður líkt saman á nokkurn hátt við notagildi þessara vara, hafa þegar verið lækkaðar í tollflokki mjög verulega

Af þessum ástæðum flyt ég nokkrar brtt. við gildandi tollskrá, sem fara í þá átt að þar er miðað við að lækka tollstigann á innflutningi, eins og t. d. á búsáhöldum og heimilisrafmagnstækjum, ýmsum slíkum heimilistækjum. Ég hef þó talið rétt, af því að þessar vörur eru í háum tollflokki enn þá, að stiga þetta í nokkrum skrefum. Ég geri því yfirleitt ráð fyrir því, að við næstu áramót verði búsáhöld í 40% tollflokki, en þau eru nú í 80% tollflokki, og lækkuðu svo aftur í ársbyrjun 1980 í 20% tollflokk. Mér er ljóst, að í samanburði við margar aðrar vörutegundir er 40% tollflokkur á búsáhöldum allt of hár. En menn verða að hafa í huga, að þarna er verið að leggja til að lækka þennan toll um helming. Á sama hátt styð ég till. um að rafmagnsheimilistæki, eins og t. d. þvottavélar og frystiskápar, hrærivélar og ryksugur, svo að dæmi séu tekin, lækki líka í tollflokki úr 80% í 40% frá næstu áramótum og síðan í 20%.

Þarna er að mínum dómi um „prinsip“ -ákvörðun að ræða, hvort hv. alþm. vilji fallast á þetta sjónarmið, að stiga eigi fyrsta skrefið í þá átt að lækka þá háu tolltaxta sem eru á nauðsynjavörum, eins og búsáhöldum og heimilistækjum ýmsum, eða hvort menn segja enn einu sinni, og þá vil ég minna á að þeir hafa sagt það áður þegar fjallað hefur verið hér um breytingar á tollskránni, — að þeir séu ekki viðbúnir að taka afstöðu til þessa máls og vilja geyma málið. En menn eru búnir að hafa þetta fyrir framan sig svo lengi, að ég tel að nú eigi á það að reyna, hvaða hv. alþm. vilja fallast á að stiga þarna fyrsta skrefið og lækka þessa tolltaxta. Það er alveg ósæmilegt að innheimta af hvers konar búsáhöldum 80% toll, á sama tíma sem ýmiss konar glysvarningur er kominn niður í 20–30% tollflokk. En svona er þessu sem sagt varið nú.

Brtt. mínar ná einnig til annars en þessa sem ég nú hef nefnt. Allmikið hefur verið um það rætt að undanförnu, að ýmsar vélar og ýmis tæki, sem landbúnaðurinn notar, eru í nokkru hærri tollflokki en hliðstæðar vélar og tæki, sem iðnaðurinn notar til starfsemi sinnar. Bændasamtökin í landinu hafa gert kröfur í þá átt, að þessir tollar verði lækkaðir. Ég tel að þarna sé um réttlætismál að ræða og sé réttmætt, ekki síst eins og sakir standa nú hjá íslenskum landbúnaði, að verða við því að lækka þessa tolla til samræmis við það sem þegar hefur verið gert hjá iðnaðinum. Ég flyt allmargar till. í þessa átt, um það að færa tolla á vélum og áhöldum og ýmsum tækjum, sem landbúnaðurinn notar, hreinlega niður í 0, eins og algengast er nú orðið um iðnaðarvélar og tæki. Ég vil gjarnan láta á það reyna, hver er afstaða manna til þessa, hvort það er eins og með söluskattinn á kjöti og kjötvörum, að menn geti aðeins samþykkt þetta á almennum fundum, þar sem þeir mæta með bændum, og gera þar kröfur um þetta, en þeir felli svo hliðstæðar till. á Alþ. þegar þær eru bornar upp. Það er að mínum dómi lærdómsríkt að heyra slíkt og sjá. En þá verður það líka að koma fram.

Út frá þessu sjónarmiði lýsi ég því yfir, að ég styð þær brtt., sem fluttar eru af þremur hv. þm., Pálma Jónssyni, Ingólfi Jónssyni og Páll Péturssyni og er að finna á þskj. 451, en þær till. miða allar að því að lækka nokkuð tolla á landbúnaðarvélum og áhöldum. Þó að ég telji að í rauninni hefði átt að lækka þessa tolla alveg niður í 0, þá er þarna um verulega tollalækkun að ræða og stefnt í rétta átt. Mun ég styðja þessar till. auk þeirra sem ég flyt um sama efni og er að finna á þskj. 589.

Í þriðja lagi eru svo till. sem ég flyt um lækkun á tolltöxtum af vélum og tækjum til fiskiðnaðar. Ég álít að það sama eigi að gilda um vélar og tæki til fiskiðnaðar og vélar og tæki til landbúnaðar og um það, sem nú gildir á slíkum tækjum hjá iðnaði, feila eigi þessa tolla niður. Till. mínar eru miðaðar við þetta. Ég vil á það benda að þessir tollar, sem hér er um að ræða af vél- og tækjum, sérstaklega til landbúnaðarins, skipta ríkissjóð engu afgerandi máli, þó að þeir skipti bændur í einstökum tilfellum talsverðu máli. Hér er ekki um slíkar fjárhæðir að ræða, að þurfi að setja fjárhag ríkissjóðs í neina hættu ef þær væru niður felldar. Svipað má auðvitað segja um tolla af vélum og tækjum til fiskiðnaðar. Þó að þar sé um talsvert stærri fjárhæð að ræða þegar á heildina er lítið, þá er ekki heldur um svo mikla tekjuröskun að ræða að neinum úrslitum valdi fyrir ríkissjóð. En þarna er um réttlætismál að ræða, og miðað við stöðu þessara atvinnuvega tel ég alveg sjálfsagt að þetta verði leiðrétt nú við meðferð þessa máls.

Afstaða mín er sem sagt þessi til málsins, að ég flyt brtt. um lækkun á tolltöxtum sem hægt er að flokka í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi legg ég til að lækka nokkuð allra hæstu tollataxta á nauðsynjavörum, eins og heimilistækjum og búsáhöldum, í öðru lagi að lækka tolla á vélum og tækjum til landbúnaðar og í þriðja lagi að lækka tolla á vélum og tækjum til fiskvinnslu. Um þetta fjalla till. mínar. Mér er ljóst að gera hefði þurft miklu meiri breytingar á tollskránni en till. mínar ná til. Ég tel að það sé í rauninni búið að dragast allt of lengi að taka til endurskoðunar þennan þýðingarmikla tekjustofn ríkisins og það eigi einmitt að gerast nú. Þegar tekjustofnalöggjöfin sem heild er til endurskoðunar ber að sjálfsögðu að taka á þessu máli, vegna þess m. a. að ég held að allir viðurkenni það, að eins og þessum málum er nú fyrir komið verði þetta að teljast óeðlilegt, ósanngjarnt, og það sé því orðið aðkallandi að gera þessar breytingar.

Ég hef þá gert grein fyrir brtt. mínum. og aðalágreiningi mínum við meiri hl. n., sem vill fallast á að afgreiða frv. sem snertir lítið sem ekkert við tolltöxtum, en er aðeins í rauninni tolltæknilegs eðlis, útskýringar á ýmsum ákvæðum í sambandi við einstaka tollliði, án þess að hreyft sé við meginatriðum málsins, sem eru tolltaxtarnir. Ég vænti þess, að till. mínar og þau sjónarmið, sem ég hef gert grein fyrir, nái fram að ganga og verði fyrsta skref til þessarar leiðréttingar á tollskránni.