22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3776 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

234. mál, ónæmisaðgerðir

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um frv. til laga um ónæmisaðgerðir. N. leggur einróma til að það verði samþykkt með þeirri breytingu sem hún flytur á sérstöku þskj. Sú breyting er við 7. gr. frv. Greinin hljóðar upphaflega svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki má ráða starfsfólk að hælum eða öðrum stofnunum, þar sem vistaðir eru sjúklingar, sem þjást af berklaveiki og öðrum alvarlegum smitnæmum sjúkdómum, nema það svari jákvætt við ónæmisprófun, ellegar gangist undir sérstaka ofnæmisbólusetningu, áður en það hefur störf.“

Sú breyting, sem við leggjum til, er þannig. Við leggjum til, að 7. gr. frv. orðist svo: „Stefnt skal að því að ráða ekki starfsfólk að hælum eða öðrum stofnunum þar sem vistaðir eru sjúklingar, sem þjást af berklaveiki, nema það svari jákvætt við ónæmisprófun ellegar gangist undir sérstaka ónæmisbólusetningu áður en það hefur störf.“

Ástæðan til þess, að við töldum nauðsynlegt að breyta þessari grein, er sú, að sumt fólk vill ógjarnan gangast undir ónæmisaðgerðir. Í raun og veru er engin leið til að þvinga það til þess. Þannig getur verið erfitt að neita fólki um starf á þeim grundveili einum, þar sem svo er komið með þann sjúkdóm, sem hér er aðallega fjallað um, þ. e. a. s. berklaveiki, að tiltölulega auðvelt er að ráða við hana, enda þótt fólk sýkist, með lyfjum sem til eru nú. Þess vegna var það sameiginlegt álit ráðamanna í heilbrigðisstjórninni og okkar, að það væri ástæðulaust að hafa þessa grein svona þrönga, heldur skyldi þetta að öllum jafnaði gert.